Innlent

Leggur til að ríkið láni fyrir hlutabréfum í nýju dótturfélagi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Vísir/Vilhelm

Icelandair Group stefnir á að safna hátt í 30 milljörðum í aukið hlutafé. Þingmaður Samfylkingarinnar segir eðlilegt að ríkið komi félaginu til hjálpar vegna þeirra þrenginga sem kórónuveirufaraldurinn hafði í för með sér en eigendur verði að takast á við fortíðarvanda félagsins. Skoða ætti þann möguleika að ríkið láni fyrir hlutabréfum í nýju dótturfélagi.

Markmið fyrirhugaðs hlutafjárútboðs Icelandair Group í júní er að safna rúmlega 29 milljörðum króna í aukið hlutafé. Stjórn félagsins mun leggja tillögu þess efnis fyrir hluthafafund síðar í þessum mánuði. Þetta kom fram í tilkynningu sem félagið sendi Kauphöll í gærkvöldi. Hlutafjárútboðið er sagt mikilvægur liður í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins en auk útboðsins verður skoðaður sá möguleiki að breyta skuldum í hlutafé.

Í gær greindu stjórnvöld frá því, að ef Icelandair tekst að safna því hlutafé sem félagið stefnir að, að þá séu stjórnvöld tilbúin að koma til aðstoðar með aðkomu að lánalínum með ríkisábyrgð.

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir mikilvægt að skýr skilyrði verði sett fyrir hvers konar aðkomu ríkisins. Mikilvægt sé að almenningur sitji ekki uppi með skaðann.

„Við vitum að Icelandair átti í rekstrarvanda áður en faraldurinn kom og ein leiðin gæti verið sú að ríkið kæmi að rekstri og tæki tapið sem orsakast af faraldrinum en eigendurnir myndu bara sjálfir glíma við fortíðarvandann. Það er hægt að gera með því að Icelandair stofni dótturfélag. Ríkið láni fyrir hlutabréfum í því félagi og það félag sjái um flugreksturinn núna og byggi upp félagið í framhaldinu þegar faraldurinn er genginn yfir,“ segir Oddný.

Þetta sé þekkt leið til að bjarga fyrirtækjum í vanda. „Þetta er leið sem myndi tryggja það að við værum ekki að setja víkjandi lán sem að myndi hverfa í fortíðarvanda félagsins,“ segir Oddný.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×