Fótbolti

Casillas hefur haldið hreinu í 82 landsleikjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Iker Casillas.
Iker Casillas. Nordic Photos / Getty Images
Iker Casillas hefur verið aðalmarkvörður spænska landsliðsins í mörg ár en þessi 31 árs kappi á að baki 141 leik. Hann hefur sett fjöldamörg met, bæði með félagsliði sínu og landsliði.

Þetta kemur fram á vefmiðlum Goal.com en þar eru teknar saman nokkrar staðreyndir um Casillas sem spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir rúmum tólf árum síðan.

Hann var á ný í marki Spánar í 4-0 sigri á Hvíta-Rússlandi á föstudag. Í leiknum setti hann met því hann hefur nú ekki fengið mark á sig í 727 mínútur. Hann átti sjálfur gamla metið.

Reyndar hefur enginn markvörður í sögunni haldið jafn oft hreinu í landsleikjum. Casillas hefur alls haldið hreinu í 82 landsleikjum en næstur á eftir kemur Hollendingurinn Edwin van der Sar sem hélt hreinu í alls 72 landsleikjum á sínum ferli.

Á EM í sumar varð hann fyrsti leikmaður Spánar til að vinna 100 landsleiki á ferlinum. Hann hélt svo hreinu í 509 mínútur í röð á mótinu sem er nýtt Evrópumet.

Casillas hefur verið fyrirliði Spánar síðustu árin og lyft Evrópubikarnum tvisvar (2008 og 2012) og heimsmeistarabikarnum einu sinni (2010). Hann hefur alls varið sex vítaspyrnur í úrslitakeppnum stórmóta.

Af núverandi leikmönnum Real Madrid hefur enginn unnið jafn marga titla og Casillas. Hann hefur orðið spænskur meistari fimm sinnum og Evrópumeistari tvívegis.

Aðeins þrír leikmenn í sögu Real Madrid eiga fleiri leiki að baki en Casillas. En markvörðurinn öflugi er ekki nema 31 árs gamall og ekki útlit fyrir annað en að hann eigi nóg eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×