Innlent

Útkall eftir að gervitunglamynd sýndi hugsanlega olíumengun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mengunin var minni en óttast var fyrst.
Mengunin var minni en óttast var fyrst. Mynd/Landhelgisgæslan

TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar var kölluð út í gær eftir að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst rauð olíumengunarviðvörun með gervitunglamynd frá Siglingaöryggisstofnun Evrópu í gærmorgun.

Samkvæmt myndinni var olíumengunin um 50 sjómílur suðvestur af Reykjanesi. Athugun Landhelgisgæslunnar leiddi í ljós að þrír togarar höfðu farið um svæðið á leið sinni til veiða á Reykjaneshrygg aðfaranótt miðvikudags, að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Eftirlitsflugvélin TF-SIF var þegar í stað kölluð út og Umhverfisstofnun gert viðvart. Áhöfn flugvélarinnar myndaði svæðið og athugaði hversu umfangsmikil mengunin væri.

TF-SIFMynd/Landhelgisgæslan

Við skoðun kom í ljós að um mengunin var minni en óttast var í fyrstu en olíuslikja var þó sjáanleg. Áhöfnin á TF-SIF setti sig í samband við skipstjóra togaranna sem könnuðust ekki við að hafa misst olíu í sjóinn. 

Landhelgisgæslan gerði skipstjórunum ljóst að vel væri fylgst með lögsögunni úr lofti og á sjó. Mengunin var ekki lengur sjáanleg þegar flogið var yfir staðinn á bakaleiðinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×