Sigurður Ragnar Eyjólfsson sendi frá sér yfirlýsingu nú í morgun en ummæli hans í Fréttatímanum í dag hafa heldur betur vakið athygli.
Sigurður skaut ansi föstum skotum að eftirmanni sínum í stóli landsliðsþjálfara kvenna, Frey Alexanderssyni, og sakaði hann um fordóma í garð kínverskrar knattspyrnu.
Sakaði hann Frey einnig um að standa í vegi fyrir því að leikmenn færu til Kína, þar sem hann þjálfar, því það geti haft áhrif á val hans í landsliðið.
Þjálfarinn hefur nú dregið í land og beðið Frey afsökunar. Yfirlýsingu Sigurður Ragnars má sjá hér að neðan.
„Í viðtali við mig við Fréttatímanum í dag þá er eftir mér haft að mér finnist fordómar ríkja gagnvart kínverskri knattspyrnu, sem skíni í gegn í viðtölum til dæmis við Frey Alexandersson landsliðsþjálfara í knattspyrnu. Þarna hljóp ég á mig og tók alltof sterkt til orða,“ segir Sigurður Ragnar í yfirlýsingunni.
„Ég vil ekki ásaka neinn um fordóma og bið Frey Alexandersson og alla hlutaðeigandi afsökunar á þessum ummælum. Frey er að sjálfsögðu frjálst að hafa sína skoðanir eins og ég mínar. Þarna tókst mér ekki nógu vel að koma orðum að mínum. Ég hef sent Frey afsökunarbeiðni og bið jafnframt fjölmiðla um að birta þessa afsökunarbeiðni mína.
Virðingarfyllst,
Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Siggi Raggi biður Frey afsökunar
Tengdar fréttir

Dagný: Skil ekki hvaða bíó er í gangi
Báðar landsliðskonurnar sem Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Jiangsu Suning, vildi fá til Kína hafa nú tjáð sig um ummæli hans í Fréttatímanum í dag.

Hallbera: Landsliðsþjálfarinn segir mér ekki hvar ég á að spila
Landsliðskonan Hallbera Guðný Gísladóttir hefur brugðist við orðum fyrrum landsliðsþjálfarans, Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar, sem var í áhugaverðu viðtali í Fréttatímanum.

Siggi Raggi: Freyr er með fordóma gagnvart kínverskri knattspyrnu
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrum þjálfari kvennalandsliðsins, skýtur fast á eftirmann sinn, Freyr Alexandersson, í viðtali við Fréttatímann.