Innlent

Fyrsta fjalldrottningin komin

Fyrsta fjalldrottningin, sem stjórnað hefur leitum á hálendi Íslands, kom til byggða í dag eftir níu daga smalamennsku á fjöllum. Smalamenn Gnúpverja héldu upp á fjöll fyrir 9 dögum og fóru lengst upp í Arnarfell upp undir Hofsjökli ofan við Þjórsárver Í dag komu þeir niður í Þjórsárdal með safnið, alls um 2.500 fjár. Smalamennirnir eru 24 talsins, þar af tíu konur, en það sem mesta athygli vekur er að í fyrsta sinn er enginn fjallkóngur, heldur fjalldrottning. Það hefur ekki gerst áður sögunni að kona stjórni lengstu leitum á Íslandi. Lilja Loftsdóttir, fjalldrottning Gnúpverja segir skemmtilegt að vera fyrsta fjalldrottningin, en hún hafi tekið hlutverkið að sér vegna þess að hún hafi til þess reynslu og getu Ólafur Ísholm Jónsson, smalamaður, segist stoltur af því að vinna undir stjórn Lilju og segir hana mjög góðan yfirmann og á engan sé hallað þótt hann segi hana með þeim betri sem hann hefur haft. Þarna voru einnig mættir kvimyndatökumenn frá bandarískri sjónvarspstöð, danskir blaðamenn og kjötkaupmenn frá Bandaríkjunum og Danmörku, sem voru að skoða íslenska lambakjötið. Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri bændasamtaka Íslands segir að fólkinu hafi fundist þetta mjög merkilegt og það hafi verið heillað. Fólkið sem farið hafi austur á Norðfjörð í gær og róað út á trillu í 18 stiga hita, blankalogni og glaðasólskini hafi komið heillað til baka og hafi vart tollað í skónum þegar það hafi horft á safnið renna niður hlíðarnar í dag. Safnið verður svo rekið niður að skaftholtsrétt í kvöld, en þar verður réttað á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×