Innlent

Léttir til í dag en von á næstu lægð strax á morgun

Eiður Þór Árnason skrifar
Spákort Veðurstofunnar fyrir hádegið í dag, eins og það leit út í morgun.
Spákort Veðurstofunnar fyrir hádegið í dag, eins og það leit út í morgun. Veðurstofan

Í dag má gera ráð fyrir norðanátt, 13 til 20 metrum á sekúndu, snjókomu á norðanverðu landinu í fyrstu, en annars él, síst þó á Suðausturlandi.

„Nú er norðanáttin í rénun og léttir til um landið sunnanvert á næstu tímum. Það mun reyndar ekki standa lengi, því áhrif næstu lægðar fer að gæta strax á morgun, en þá bætir í vind og má búast við éljum ansi víða. Eins er ekki gert ráð fyrir að hiti fari yfir frostmark næstu daga.

Um helgina kemur svo lægðin smám saman inná land og það verður líklega ekki fyrr en síðdegis á sunnudag sem hlýnar um sunnanvert landið og fer að rigna þar. Því þurfa ferðalangar að fylgjast náið með spám næstu daga sem allir komist þangað sem för er heitið," segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Í dag dregur víða úr vindi og léttir til með morgninum, norðan 5 til 15 metrar á sekúndu síðdegis, hvassast suðaustantil, en áfram dálítil él norðaustanlands.

Frost 1 til 8 stig, en herðir á frosti í kvöld. Norðaustan 5-13 á morgun. Él um landið N- og A-vert, en annars bjartviðri. Þykknar upp með éljum syðst um kvöldið. Frost 0 til 8 stig, mildast syðst.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Norðaustan 8-13 m/s og él á norðanverðu landinu, en hægara og bjartviðri sunnan heiða. Vaxandi austanátt og fer að snjóa við suðurströndina um kvöldið. Frost 1 til 10 stig, mildast syðst.

Á laugardag: Gengur í norðaustan 13-23 m/s með snjókomu víða um land, hvassast og úrkomumest SA-til. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag: Norðaustanstormur eða -rok og snjókoma framan af degi, en síðar rigning eða slydda S-til og hlýnar í veðri.

Á mánudag: Austanstormur með hríðarveðri á Vestfjörðum, annars mun hægari vindar og rigning eða slydda með köflum og hita 0 til 7 stig, mildast syðst. Snýst í suðvestanátt með éljum S- og V-lands seint um kvöldið og kólnar.

Á þriðjudag: Austlæga átt með éljum í flestum landshlutum og hita kringum frostmark, en heldur hlyrra syðst.

Á miðvikudag: Útlit fyrir suðvestanátt og skúrir eða él, en bjart veður austantil. Hiti 0 til 4 stig á láglendi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×