Fótbolti

Vill spjalda menn fyrir að hrækja á völlinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo hrækir hér á völlinn í leik með Juventus á móti AS Roma.
Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo hrækir hér á völlinn í leik með Juventus á móti AS Roma. Getty/Nicolò Campo

Kórónuveirufaraldurinn mun mögulega hafa áhrif á reglur fótboltans nú þegar menn leita allra leiða til að fá boltann aftur til að rúlla inn á fótboltavöllum heimsins.

Augu manna verða á öllu sem tengist smitvörnum þegar fótboltinn fer aftur af stað út um allan heim og yfirlæknir Alþjóða knattspyrnusambandsins vill nú útrýma því sem gerist mögulega yfir hundrað sinnum í hverjum fótboltaleik.

Yfirlæknir FIFA vill nefnilega banna leikmönnum að hrækja á völlinn en vísindamenn segja að munnvatnið gæti verið á vellinum í marga klukkutíma og á meðan breitt út kórónuveirunni.

Það hefur hingað til verið samþykktur hluti fótboltaleiks að leikmenn hræki hvað eftir annað á völlinn. Það gefur að skilja að með því eru þeir mögulega að dreifa kórónuveirunni séu þeir smitaðir.

Stjórnarmaður FIFA vill bregðast við þessu með því að leikmenn fái gult spjald fyrir að hrækja á leikvöllinn þegar keppni hefst á nýjan leik.

„Þetta er mjög algengt í fótboltanum og er ekki mjög hreinlegt. Þegar við byrjum fótboltann á ný þá verðum við að reyna að gera allt til að koma í veg fyrir það að menn hræki á völlinn,“ sagði Michel D’Hooghe, stjórnarformaður læknaráðs FIFA, í viðtali við The Telegraph.

„Stóra spurningin er hvernig við förum að því og hvort að það sé mögulegt. Kannski með því að gefa gult spjald,“ sagði Michel D’Hooghe.

„Þetta er óþrifalegt og með þessu eru menn að sjá fyrir góðri leið til að dreifa vírusnum. Þetta er ein af ástæðunum af hverju við þurfum að fara mjög varlega þegar við byrjum aftur að spila. Ég er ekki svartsýnn maður að eðlisfari en ég er fullur efasemda eins og er,“ sagði Michel D’Hooghe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×