Innlent

Bændur á Bjargi ósáttir við vinnubrögð Bauhaus: Þakplöturnar hækkuðu um 150 prósent í verði

Halldór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bauhaus, segir það koma fyrir að vörur séu vitlaust verðmerktar. Það séu mannleg mistök og þau séu einfaldlega leiðrétt. Ekki sé ætlunin að plata kúnnann með neinum hætti. fréttablaðið/gva
Halldór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bauhaus, segir það koma fyrir að vörur séu vitlaust verðmerktar. Það séu mannleg mistök og þau séu einfaldlega leiðrétt. Ekki sé ætlunin að plata kúnnann með neinum hætti. fréttablaðið/gva
Bændurnir á Bjargi í Hrunamannahreppi, þau Jónína Kristinsdóttir og Karl Jónsson, ræddu við einn starfsmann Bauhaus um kaup á 3,5 metra bárujárnsplötum þegar annar starfsmaður kom aðvífandi og hækkaði verðið á plötunum um 150 prósent.

Hjónunum var tjáð að um mannleg mistök hefði verið að ræða, plöturnar í hillunni hefðu verið vitlaust merktar. Fyrir höfðu plöturnar kostað 2.995 krónur en nýja verðið hljóðaði upp á 7.490 krónur. Munurinn nemur 150 prósentum.

?Þegar hann hækkaði þetta svona fyrir framan nefið á mér þá féllust mér alveg hendur,? segir Jónína. Þar sem hjónin ætluðu að kaupa 57 plötur hækkaði heildarupphæðin úr 170.715 krónum og í 426.930 krónur.

?Ég hélt að þó að þeim hefðu orðið á mannleg mistök þá ætti kúnninn ekki að líða fyrir það,? segir Jónína og Karl bætir við þau hafi haldið að það væru lög í landinu sem segðu að hilluverð gilti.

Þess má þó geta að lokaverð Bauhaus er talsvert hagstæðara en hjá bæði Byko og Húsasmiðjunni þar sem svipaðar plötur kosta 8.645 krónur í stykkjaverði á báðum stöðum.

Halldór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bauhaus, harmar atvikið en segir að öllum geti orðið á mannleg mistök. Stundum séu vörur vitlaust verðmerktar og þá sé það bara lagað.

?Við reynum að koma til móts við fólk að einhverju leyti í svona tilvikum. En í þessu dæmi er þetta náttúrulega svolítið mikill munur.

Ef það eru einhver svona mannleg mistök reynum við að gera okkar besta til að laga hlutina að einhverju leyti,? segir Halldór en bætir við að skoða þurfi hvert tilvik fyrir sig. Samkvæmt upplýsingum frá bæði Neytendastofu og Neytendasamtökunum er ekki víst að starfsmenn Bauhaus hafi gerst brotlegir við lög.

Almenna reglan er sú að verslanir skuli selja vörur og þjónustu á því verði sem verðmerkt er, líka þó um mistök sé að ræða. Þetta gildir þó ekki ef sjá má, eða það ætti að sjást, að um mistök sé að ræða.

Hvort það sé tilfellið hér er álitamál enda mikill munur á verði fyrir og eftir breytingu. Úr því fæst ekki skorið nema ef send verður kvörtun eða erindi til Neytendastofu. - ktg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×