Innlent

Enginn ráðherrakapall fyrir kosningar - búist við að Katrín snúi aftur

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ekki verður frekari færsla á ráðherraembættum milli stjórnarflokkanna fyrir kosningar. Þingmenn Samfylkingarinnar gera ráð fyrir að Katrín Júlíusdóttir snúi til baka í ríkisstjórn eftir leyfi og verði fjármálaráðherra. Núverandi ráðherra hefur sjálf sagt að hún sé aðeins að halda stólnum heitum fyrir Katrínu.

Á dögunum tók Steingrímur J. Sigfússon formlega við iðnaðarráðuneytinu og munu verkefni þess skiptast milli nýs atvinnuvegaráðuneytis undir forystu hans í haust og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Samkvæmt heimildum fréttastofu innan úr ríkisstjórninni eru þetta síðustu breytingarnar og ekki verða frekari breytingar á ráðherraembættum milli stjórnarflokkanna fyrir kosningar á næsta ári.

Katrín Júlíusdóttir gegndi embætti iðnaðarráðherra áður en hún fór í barneignaleyfi. Í haust verður formlega til ráðuneyti fjármála- og efnahags, en þá færast verkefni efnahags- og viðskiptaráðuneytisins til fjármálaráðuneytisins annars vegar og atvinnuvegaráðuneytisins hins vegar.

Nokkrar vangaveltur hafa verið að undanförnu um stöðu Katrínar eftir þessar breytingar, en Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra, hefur gegnt því embætti frá byrjun ársins þegar síðustu hrókeringar áttu sér stað í ríkisstjórninni.

Þingmenn Samfylkingarinnar sem fréttastofa hefur rætt við búast fastlega við að Katrín snúi aftur. Samkvæmt heimildum fréttastofu var Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sérstaklega spurð af því á þingflokksfundi, daginn fyrir gamlársdag, hvort Katrín myndi snúa aftur í embætti að loknu leyfi og svarið var afdráttarlaust „já."

Fastlega er búist við að Katrín leysi þá Oddnýju G. Harðardóttur af hólmi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í september næstkomandi.

Á endanum er þetta þó ákvörðun forsætisráðherra. Oddný sagði í samtali við fréttastofu að hún hefði ekkert velt þessu fyrir sér og gæti því í raun ekkert tjáð sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×