Innlent

Losað að hluta um samkomubann í Bolungarvík og á Ísafirði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Ísafirði. Þar hefur verið í gildi fimm samkomubann í tæpan mánuð, líkt og í fleiri bæjarfélögum á norðanverðum Vestfjörðum.
Frá Ísafirði. Þar hefur verið í gildi fimm samkomubann í tæpan mánuð, líkt og í fleiri bæjarfélögum á norðanverðum Vestfjörðum. Vísir/Egill

Frá og með næstkomandi mánudegi, 4. maí, verður að hluta til losað um samkomubannið sem gilt hefur frá því í byrjun apríl í Bolungarvík og á Ísafirði.

Nú mega aðeins fimm manns koma saman að hámarki í þessum bæjum og hefur skólastarf alveg legið niðri vegna hópsýkingar sem kom upp af völdum kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum Covid-19.

Eftir fund aðgerðastjórnar almannavarna á Vestfjörðum í dag var hins vegar ákveðið að sóttvarnalæknir myndi leggja til við heilbrigðisráðherra að auglýsing ráðherra frá 21. apríl, sem tekur gildi 4. maí, muni einnig gilda fyrir norðanverða Vestfirði, það er Bolungarvíkurkaupstað, Ísafjarðarbæ og Súðavíkurhrepp.

Eftirfarandi takmarkanir verða þó frá tímabilinu 4. maí til 10. maí:

• Í stað 50 manna samkomubanns verði 20 manna samkomubann, einnig fyrir börn í leik- og grunnskólum.

• Starfsemi sem krefst snertingar eða mikillar nálægðar milli fólks verði áfram óheimil.

Engin ný smit hafa komið upp á Vestfjörðum síðustu fjóra daga að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum en þar er áréttað að engu að síður er mikilvægt að núverandi aðgerðum verði aflétt hægt.

Segir í tilkynningu lögreglu að ekki sé unnt að greina nánar frá fyrirhuguðum takmörkunum að svo stöddu í fyrrnefndum bæjarfélögum en ætla megi að auglýsing ráðherra verði birt á allra næstu dögum.

„Auglýsingunni verður fylgt eftir með íbúafundi aðgerðastjórnar á Facebook, sbr. síðari tilkynningu þar um.

Í þessu felst að á norðanverðum Vestfjörðum verða tekin tvö skref inn á landslínuna varðandi samkomubann, annars vegar 4. maí og hins vegar 11. maí nk., að því gefnu að útbreiðsla sjúkdómsins verði okkur hagstæð og ekki komi til bakslags,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Í dag féllu úr gildi fyrrnefndar takmarkanir um fimm manna samkomubann og skólahald í Dýrafirði, Önundarfirði, Súgandafirði og Súðavíkurhreppi. Þar gilda nú sömu takmarkanir og á landsvísu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×