Innlent

Börn í Fossvogsskóla hafa veikst eftir að leki kom upp

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Að minnsta kosti sex börn í Fossvogsskóla hafa fundið fyrir sjúkdómseinkennum eftir rakaskemmdir í skólanum að sögn foreldris. Nýtt þak í skólanum lekur en hann opnaði eftir endurbætur fyrir nokkrum vikum. Upplýsingastjóri borgarinnar segir að þetta verði lagað eins fljótt og auðið er.

Miklar endurbætur hafa verið gerðar á Fossvogsskóla í Reykjavík eftir að mygla kom upp vegna rakaskemmda. Skólinn lokaði í mars þar sem bæði börn og starfsfólk fann fyrir einkennum vegna myglu. Skólinn opnaði að nýju eftir áramót og þrátt fyrir viðgerðir upp á 400 til 500 milljónir króna kom upp leki.

„Ég hef vissulega áhyggjur af því að það sé í nýviðgerðu þaki, að það séu einhverjar rakaskemmdir og mygla að myndast þar miðað við viðbrögð barnanna í rýminu þar,“ segir Magnea Árnadóttir, móðir barns í Fossvogsskóla.

Hversu mörg börn hafa veikst?

„Ég veit um að minnsta kosti sex börn en ég tel þau vera fleiri,“ segir Magnea.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu kom lekinn upp í desember. Þá var gert við hann en í úrkomutíð undanfarið fór svo aftur að leka. Magnea segir að þrátt fyrir flottar endurbætur á skólanum eigi eftir að lagfæra rakaskemmdir á geymslu skólans. Hún sé illa farin og þá hafi börn kvartað undan heimilisfræðistofu.

Að sögn borgaryfirvalda var heimilisfræðistofan öll tekin í gegn en samt sem áður finni nokkur börn fyrir einkennum í henni. Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri borgarinnar, segir að þakið verði lagað.

„Það verður brugðist mjög hratt og vel við um leið og tíðin leyfir að það verði tekið á þessu og þetta lagað,“ segir hann.

Er það ekki óeðlilegt að nýtt þak fari að leka?

„Jú, það er það og þess vegna verður bara farið yfir það hvað hefur brugðist,“ segir Bjarni.

Þá verði ráðist í endurbætur þar sem enn sé grunur á raka.

„Ég reikna fastlega með því að allt það sem foreldrar sem eiga börn sem virðast þjást af einhvers konar einkennum vegna rakaskemmda að það verði farið í að laga það eins og hefur verið gert hér í öllum skólanum,“ segir Bjarni.


Tengdar fréttir

Leki í endurnýjuðum Fossvogsskóla

Leki hefur komið upp í þaki á endurnýjaðri vestari álmu Fossvogsskóla. Lekinn kom upp í desember og var þá gert við hann samkvæmt upplýsingum fréttastofu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×