Innlent

Ekið á 12 ára dreng

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Drengurinn var fluttur á spítala eftir slysið en hann er talinn fótbrotinn.
Drengurinn var fluttur á spítala eftir slysið en hann er talinn fótbrotinn.

Hvers kyns umferðalagabrot- og óhöpp settu svip á störf lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Má þar nefna fjölmörg tilfelli hraða- og ölvunaraksturs, hjólaslys þar sem köttur kom við sögu auk þess sem ekið var á 12 ára dreng.

Svæsnasti hraðaaksturinn er sagður hafa átt sér stað á Vesturlandsvegi við Suðurlandsveg á tíunda tímanum í gærkvöld. Þar segist lögreglan hafa mælt bifhjól á 164 km/klst, en þar er hámarkshraðinn 80 km/klst. Lögreglumenn höfðu hendur í hári ökumannsins, fluttu hann á lögreglustöð og sviptu hann ökuréttindum til bráðabirgða.

Flytja þurfti 12 ára dreng á sjúkrahús eftir að ekið var á hann í Garðabæ, síðdegis í gær. Drengurinn er talinn fótbrotinn en af lestri dagbókar lögreglu að dæma virðist ökumaðurinn sem keyrði á drenginn ekki vera grunaður um neitt saknæmt í akstri sínum.

Hjólreiðamaður komst einnig í hann krappan í Fossvogi um klukkan 23 í gærkvöld þegar köttur hljóp í veg fyrir hann. Hjólreiðamaðurinn féll við það af hjóli sínu og var illa áttaður eftir fallið að sögn lögreglu. Þar sem hann kvartaði undan verk í öxl og brjóstkassa var talin þörf á að flytja manninn á bráðadeild til aðhlynningar.

Þá segist lögreglan hafa stöðvað hið minnsta fimm ökumenn sem taldir eru hafa ekið undir áhrifum vímu- og fíkniefna. Þrír þeirra eru jafnframt sagðir hafa ítrekað verið staðnir að því að aka án ökuréttinda. Skráningarnúmer á bíl eins þeirra voru aukinheldur klippt af því bifreiðin var sögð ótryggð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×