Fótbolti

Eitt stig ekki ásættanlegt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lars Lagerbäck á æfingu íslenska landslðisins í gær.
Lars Lagerbäck á æfingu íslenska landslðisins í gær. fréttablaðið/stefán
Ísland mætir í kvöld sterku liði Sviss í undankeppni HM 2014. Leikurinn er uppgjör toppliðanna í E-riðli en Sviss er efst með sjö stig að loknum þremur leikjum. Ísland kemur svo næst með sex stig og fer því á topp riðilsins með sigri í kvöld.

„Það er gott að vera kominn heim og spila á vonandi troðfullum velli," sagði Alfreð Finnbogason fyrir æfingu íslenska liðsins á Laugardalsvelli í gær. Strákarnir komu heim um helgina eftir langt ferðalag til Albaníu þar sem þeir unnu frábæran 2-1 sigur við erfiðar aðstæður.

„Líkamlega erum við búnir að jafna okkur. Kannski að andlega hliðin þurfi meiri tíma," segir hann í léttum dúr. „Þetta var mikill baráttuleikur og gott að hafa unnið hann, þó svo að við höfum ef til vill ekki átt það endilega meira skilið en þeir."

Alfreð var í byrjunarliði Íslands í fyrsta sinn undir stjórn Lagerbäck og vonast vitanlega til að halda sæti sínu í kvöld. Ekki er von á öðru en hann segist eiga von á erfiðum leik gegn sterku liði Sviss.

Þurfum að vera agaðir„Þeir eru með sterkasta liðið í riðlinum og við þurfum að vera agaðir í okkar leik – vera fljótir að koma okkur til baka í okkar stöður. Þeir vilja taka mikið af sénsum og skilja fáa menn eftir í vörn þegar þeir sækja fram. Það er eitthvað sem við eigum að geta nýtt okkur með skyndisóknum og hröðu uppspili," segir Alfreð.

Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari, á einnig von á erfiðum leik en ítrekar þá skoðun sína að hann sé ávallt bjartsýnn fyrir leiki og að öll lið eigi möguleika í fótbolta.

„Allir gera sér grein fyrir því að Sviss þykir sigurstranglegasta liðið í þessum jafna riðli. Vissulega söknum við leikmanna sem eru meiddir eða í leikbanni en svona er þetta stundum í fótbolta. Það er líka einn leikmaður Sviss sem er fjarverandi [Eren Derdiyok, sóknarmaður]," sagði Lagerbäck á blaðamannafundi í gær.

„Ég hlakka til leiksins. Við erum á heimavelli og tel að við getum spilað vel í þessum leik. Lykilatriði er að halda skipulagi og að leikmenn vinni saman."

Lagerbäck hefur ekki áhyggjur af því að leikmenn séu þreyttir eftir erfiðan leik í Albaníu og langt ferðalag. „Við gáfum þeim aukadag til að jafna sig og það eru engir leikmenn í hópnum sem eru tæpir fyrir leikinn á morgun."

Hann segir einnig að bæði hann og leikmenn hafi lært ýmislegt af leikjunum í september, þar sem Íslandi tókst ekki að fylgja eftir góðum sigri á Noregi gegn Kýpverjum nokkrum dögum síðar.

Lærðum af reynslunni„Líkt og nú var ferðalagið langt en mér fannst samt sem áður undirbúningurinn ganga mjög vel. Svo kom á daginn að við vorum ekki nógu grimmir og spiluðum ekki eins og lagt var upp með. Við lærðum ýmislegt af þessari reynslu en mestu skiptir þó að einbeitingin verði í fullkomnu lagi."

Leikmenn íslenska liðsins eru fullir sjálfstrausts og þó svo að einhverjir kynnu að halda að jafntefli í dag væru ágæt úrslit fyrir íslenska liðið er aðeins eitt sem kemur til greina hjá landsliðsmönnunum sjálfum.

„Við viljum vinna alla leiki og sættum okkur ekki við jafntefli fyrirfram," segir Alfreð, ákveðinn á svip.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×