Fótbolti

Lagerbäck: Birkir einn sterkasti karakterinn í liðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lagerbäck og Birkir á landsliðsæfingu í gær.
Lagerbäck og Birkir á landsliðsæfingu í gær. Mynd/Stefán
Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska landsliðsins, segir að leikmenn landsliða verði oft að sætta sig við að spila í stöðum sem væri yfirleitt ekki þeirra fyrsti kostur.

Birkir Bjarnason sagði á blaðamannafundi KSÍ um helgina að hann kynni best við sig sem sóknartengiliður en að hann myndi vitanlega gegna því hlutverki sem landsliðsþjálfarinn setur honum.

„Ólíkt félagsliðum er ekki hægt að kaupa leikmenn í landslið til að gegna ákveðnu hlutverki í liðinu," sagði Lagerbäck þegar hann var spurður um þetta í gær.

„Það er mitt hlutverk að koma jafnvægi á liðið og nota leikmenn á þann máta að það henti liðinu sem best. Ég ber virðingu fyrir hans skoðunum en ef leikmenn vilja ekki taka á sig þau hlutverk sem þeim er útdeilt þá eiga þeir ekki heima í liðinu."

Lagerbäck tók þó fram að Birkir hafi aldrei sett sig á móti vilja hans. „Birkir er einn sterkasti karakterinn í liðinu og er alls ekki neitt við hann að sakast. Stór þáttur í velgengni liðsins er vinnusemi leikmanna og er Birkir gott dæmi um duglegan leikmann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×