Fótbolti

Rúnar: Tók einlæga útgáfu af Mýrdalssandinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar er hér fyrir miðri mynd.
Rúnar er hér fyrir miðri mynd. Mynd/Stefán
Rúnar Már Sigurjónsson er nýliðinn í íslenska landsliðinu og var hann því vígður inn í hópinn með viðhöfn eftir að hann var kallaður inn.

Þeir Rúnar Már og Pálmi Rafn Pálmason voru teknir inn í landsliðið fyrir leikinn gegn Sviss í dag vegna leikbanns Arons Einars Gunnarssonar og þá er Helgi Valur Daníelsson frá vegna veikinda.

„Mér líður mjög vel enda er ekki annað hægt við þessar aðstæður," sagði Rúnar Már fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í gær.

Rúnar Már er á mála hjá Val en liðin í Pepsi-deild karla eru nú í fríi eftir að tímabilinu lauk í septemberlok. Fyrir stuttu auglýsti hann á Twitter-síðu sinni eftir að komast í smá fótbolta á ný.

„Þeir hafa kannski séð það hjá landsliðinu," sagði hann í léttum dúr. „En ég fékk reyndar góð viðbrögð og fór í bolta með félögunum. Pælingin var að reyna halda mér við efnið ef ég skyldi fara út á reynslu - mér datt ekki í hug að landsliðið myndi kalla."

„Ég er mjög stoltur af því að vera hingað kominn. Þetta hefur verið draumur minn en ég bjóst samt ekki við að ég myndi fá hann uppfylltan strax."

Rúnar stefnir að því að komast að hjá liði í atvinnumannadeild í Evrópu. „Það hjálpar eflaust til ef lið sjá að ég hafi verið valinn í landsliðið á meðan ég er enn að spila heima," sagði hann.

Áðurnefnd vígsluathöfn fór fram fyrr í vikunni og sagðist Rúnar hafa afgreitt hana með stæl.

„Ég hafði heyrt að menn verði stressaðir fyrir þetta, en ég slátraði því. Ég tók einlæga og góða útgáfu Mýrdalssandinum [með GCD] - mína eigin. Það var lítið mál."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×