Fótbolti

Rúrik: Höfum ekki spilað frábærlega

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúrik á æfingu í gær.
Rúrik á æfingu í gær. Mynd/Stefán
Rúrik Gíslason segir að leikmenn íslenska landsliðsins séu ánægðir með gengi þess en það þeir séu allir hungraðir í meira. „Við viljum komast í toppsætið," sagði hann við Vísi í gær.

Ísland mætir Sviss á Laugardalsvelli í kvöld í toppslag E-riðils í undankeppni HM 2014. Liðið er með sex stig og situr í öðru sæti riðilsins, einu stigi á eftir Sviss.

Strákarnir unnu 2-1 sigur á Albaníu á föstudagskvöldið í erfiðum leik. Það hellirigndi á meðan leiknum stóð og voru aðstæður sérstaklega slæmar fyrir kantmenn og bakverði.

„Maður náði svo sem ekki að sýna neina meistaratakta, sérstaklega í seinni hálfleik. En það var mikilvægt að halda einbeitingu og við reyndum að gera það besta úr aðstæðunum," sagði Rúrik.

„Það er svo alltaf gaman að vinna en ég held að okkur hafi tekist að ná okkur aftur niður á jörðina. Við erum að mæta góðu svissnesku liði og við erum tilbúnir í slaginn."

Þrátt fyrir gott gengi íslenska liðsins segir Rúrik að það eigi enn heilmikið inni. „Mér finnst við ekki endilega búnir að spila frábærlega. Við eigum fullt inni," sagði hann.

„Landsliðið hefur verið í mikilli lægð í langan tíma og tekur tíma að vinna úr því. En þetta hefur verið að koma, hægt og rólega, og úrslitin hafa verið góð í tveimur leikjum af þremur. Úrslitin í leiknum gegn Kýpur voru síðan afar mikil vonbrigði."

„Ég tel ásættanlegt að vera með sex stig en við erum allir hungraðir og viljum allir meira. Við viljum komast í toppsætið í riðlinum."

Rúrik, sem spilar á hægri kantinum, segir að það geti komið meira úr kantspili íslenska liðsins.

„Það er ekki spurning. En það má ekki heldur gleyma því að við höfum spilað tvo erfiða útileiki og bæði miðjumenn og kantmenn hafa þurft að sinna mikilli varnarvinnu. Miðjumönnum er oftar hrósað fyrir þá vinnu en svo vilja menn fá meira úr þeim sem spila úti á köntunum."

„En vissulega vonast ég til þess að við fáum meira úr okkar kantspili en hingað til. En það hefur verið lögð rík áhersla á að allir leikmenn leggi sitt af mörkum til varnarleiksins og þannig verður það áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×