Erlent

Segir Weinstein geta verið „einn versta raðnauðgara sögunnar“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Rose McGowan er ein fjölmargra kvenna sem stigið hafa fram og sakað Weinstein um kynferðisofbeldi.
Rose McGowan er ein fjölmargra kvenna sem stigið hafa fram og sakað Weinstein um kynferðisofbeldi. Vísir/Getty

Leikkonan Rose McGowan segir að sakfelling yfir bandaríska nauðgaranum og kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein marki vatnaskil í slíkum málum. Þá segir hún að Weinstein gæti verið „einn versti raðnauðgari sögunnar.“ Weinstein var sakfelldur fyrir kynferðisofbeldi og nauðgun á mánudaginn og gæti átt yfir höfði sér 25 ára fangelsi.

Árið 2017 sagðist McGowan, sem er bandarísk, að hún hefði fengið greidda hundrað þúsund dollara eftir að hafa verið nauðgað af Weinstein árið 1997.

Í viðtali við Good Morning Britain sagðist McGowan ekki ætla að kæra Weinstein þar sem meint brot hans á hendur henni væri fyrnt. Þar kallaði hún sakfellinguna yfir Weinstein „ótrúlegt afrek“ og sagði vitnisburð leikkonunnar Annabellu Sciorra í málinu gegn Weinstein vera mikilvægan þátt í því að sýna fram á að kynferðisofbeldi framleiðandans væri hluti af mynstri, en ekki einstakur atburður. Weinstein var þó ekki sakfelldur fyrir það ofbeldi sem Sciorra sakaði hann um.

„Ef við reiknum þetta saman, þá gæti [Weinstein] verið einn versti raðnauðgari sögunnar, því hann var með kerfi sett upp sérstaklega til að nauðga,“ sagði McGowan og bætti við að Weinstein hafi á bak við tjöldin skipulagt kynferðisofbeldi sitt gaumgæfilega.

Hér að neðan má sjá viðtal Good Morning Britain við leikkonuna.

 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.