Lífið

Alda Karen gefur fyrirlestraefnið sitt: „Við erum öll í þessu saman“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Alda Karen Hjaltalín segir að mannfólkið geti lært margt af ástandinu í heiminum núna.
Alda Karen Hjaltalín segir að mannfólkið geti lært margt af ástandinu í heiminum núna. Vísir/Vilhelm

Fyrirlesarinn Alda Karen Hjaltalín tók þá ákvörðun í samkomubanninu að gefa allt fyrirlestraefni sitt á netinu endurgjaldslaust. Hún er sjálf að nýta þennan tíma í að vera meira meðvituð um eigin hugsanir og er þakklát fyrir að vera komin heim til Íslands.

„Við ákváðum að gefa allt efni sem hefur verið farið yfir á fyrirlestrum mínum frítt til allra sem vilja. Þetta eru mest megnis glærur, bókatillögur og svo bókin Lífsbiblía sem hefur bara verið aðgengileg á fyrirlestrunum,“ segir Alda Karen í samtali við Vísi. Efnið gefur hún í gegnum Facebook síðu sína.

„Þetta eru fjögur ár af efni svo gæti verið að einhver klári að læra þetta allt áður en ástandið lagast.“

Hægja á lífinu

Alda Karen segir að það herji nú skrýtnir tímar á mannkynið.

„Við vildum gefa allt efnið okkar til þess að létta aðeins lundina hjá fólki og svo það hafi eitthvað að gera eftir Tiger King á Netflix. Þetta er nefnilega ekki endilega tíminn til að vera koma sér í form eða ná forskoti á öll helstu markmiðin sín. Þetta er tími til að læra um sjálfa sig, aðra og jörðina, bara með því að vera. Leyfa sér að vera meðvitaðri um hugsanir sínar og gjörðir.“

Það er þrennt sem hefur vakið athygli Öldu Karenar síðustu daga sem hún segir að séu mikilvægir lærdómar.

„Fyrsti er að við erum ekki búin að vera nógu hörð í loftslagsbreytingunum svo að heimurinn tók það bara í sínar eigin hendur. Ég vona að þegar samfélagið byrjar að taka við sér að við verðum meðvitaðri um ekki bara heilsuna okkar heldur líka heilsuna hjá plánetunni sem við fáum að búa á. Það þarf nefnilega ekki mikið til þess að allt fari á annan endann, hvort sem það er okkar heilsa eða plánetunnar. Annar lærdómurinn er að hægja aðeins á lífinu, með því að hægja á að þá fáum við tíma til að læra að vera þakklát fyrir allt í kringum okkur. Eins og fallegu náttúruna okkar, góðan mat, tíma með fjölskyldu og ástvinum. Þriðji lærdómurinn sem ég er að taka úr þessu er þegar til þess kemur að þá stendur mannkynið saman. Ég horfi á myndir af auðum götum úti um allan heim og í stað þess að hugsa að þetta sé hræðilegt ástand að þá hugsa ég hvað þetta er ótrúlega falleg samstaða. Fólk er að stofna störfum sínum, fyrirtækjum og jafnvel lífi sínu í hættu til þess að vernda áhættuhópa í samfélaginu. Auðar götur þýða að við erum að standa saman. Svona ótrúlega samstöðu úti um allan heim mun ég örugglega aldrei vera vitni að aftur á lífsleiðinni. Takk fyrir að vera heima.“

Tekur ákvörðunum Bandaríkjamanna persónulega

Alda Karen segir að faraldurinn hafi aukið hjá henni stressi og kvíða fyrir framtíðinni, eins og svo margir aðrir eru að upplifa núna.

„En það góða í því er að ég er ekki ein. Við erum öll í þessu saman. Ég þarf bara að vera dugleg að minna mig á það að ég kemst í gegnum þetta með öllum öðrum.“

Hún segist þakklát fyrir að vera komin heim til Íslands en hún hefur búið mikið í New York í Bandaríkjunum síðustu misseri.

„Á þessum tímum er ég endalaust þakklát að vera nálægt fjölskyldunni og fer hjartað mitt út til allra sem geta ekki verið nærri ástvinum. Ég ætla ekki mikið að vera tjá mig hvernig mér finnst Bandaríkin vera að takast á við þessum vanda því að ég tek öllum ákvörðum þeirra mjög persónulega þar sem mikið af mínu nánasta vinafólki, samstarfsfélögum og ástvinum eru þarna úti,“ svarar Alda Karen aðspurð um aðgerðir Bandaríkjanna á þessum tíma.

„Flestir eru að leita leiða að komast út úr New York, ég gaf vinafólki íbúðina mína til að vera í þar sem þau misstu húsið sitt tímabundið akkúrat þegar faraldurinn skall á.“

Alda Karen Hjaltalín hefur vakið athygli fyrir fyrirlestra sína og Masterclass námskeið.Vísir/Vilhelm

Fínn tími til að spjalla við sjálfan sig

Í samkomubanninu hefur Alda Karen nýtt tímann í að horfa inn á við.

„Ég er að nýta þennan tíma í að vera meira meðvituð um hugsanir mínar. Heilinn minn hefur orðið fyrir miklum áhrifum frá fjölmiðlum og allskonar sögusögnum að ég treysti engum hugsunum sem koma upp í hugann minn þessa dagana. Allskonar kvíði, stress og vesen sem fylgir ótta og því reyni ég mitt besta að tala heilann minn niður þessa dagana. Minna hann á að við erum öll tengd og finna þakklætið á tímum þar sem allt sem þú sérð er svefnherbergið þitt, stofan og næsta nágrenni.“

Alda Karen segir að hún eigi oft erfitt með að sitja ein með hugsunum sínum, af því að hún gerir það svo lítið. „Ég er yfirleitt í símanum, tölvunni eða að horfa á sjónvarpið þegar mér leiðist. Svo að sitja bara og hugsa er eitthvað sem mín kynslóð hefur ekki fengið tækifæri til að gera mikið svo ég tel það vera bara æfing eins og hvað annað. Svona svipað og mér finnst erfitt að gera tíu armbeygjur, en ég er viss um að ef ég gerði það reglulega gæti ég það örugglega ein daginn. En þetta er rosa fínn tími til að læra að þekkja sig aðeins betur. Þekkja hugsanamynstrið sitt, tilfinningar og bara eiga gott spjall við sjálfan sig.“

Hún segir mikilvægt að fólk hugsi vel um manneskjurnar í kringum sig.

„Það er alltaf betra að gefa en þiggja sagði skáldið og það reynist rétt í hvert skipti. Og ef það er ekki núna fullkomin tími til að gefa eins mikið og maður getur að þá veit ég ekki hvenær það verður. Nú er tíminn til að leiða lífið með góðmennskunni, enda hefur aldrei verið meira af henni í heiminum akkúrat núna ef þú kýst að leita eftir henni.“

Hugurinn blekkir

Þau ráð sem hún gefur fólki sem er mikið heima er að vera dugleg að tala við aðra, hringja og tjékka á vinum og nágrönnum.

„Það voru tvær vinkonur sem kölluðu á hvor aðra úr sitthvorum glugganum, fyrsta skipti í langan tíma sem ég hef heyrt gott nágrannaslúður, en þær þurftu að kalla svolítið hátt til að heyra í hvor annarri. Einnig mæli ég með að setja takmörk á skjái yfir daginn, ef þú kláraðir allt Tiger King og fórst strax í aðra seríu mæli ég með að skipta út Netflix fyrir gluggann þinn í smástund og finna fimm hluti sem þú ert þakklát eða þakklátur fyrir að sjá út um gluggann þinn. Allar svona þakklætisæfingar finnst mér mjög góðar svona heimafyrir.“

Hún hvetur fólk sem er heima að vinna í fjarvinnu að geyma símann í öðru herbergi ef það hefur kost á því.

„Ég nota síðan Promodoro tæknina þegar ég vinn heima, þá stilli ég klukku. yfirleitt svona eldhúsklukku sem mamma notar til að hjálpa sér að sjóða egg, sem ég stilli á 25 mínútur. Svo vinn ég stanslaust í 25 mínútur og þegar klukkan hringir þá stend ég upp og teygi í fimm mínútur, næ mér í vatn eða fer á klósettið. Síðan sest ég aftur niður og endurtek þessa formúlu. Ég skrifa alltaf forgangslista fyrir hvern dag í staðinn fyrir „to-do“ lista. Þá skrifa ég niður fimm forgangshluti og raða þeim í röð hvern er mikilvægast að klára frá einum upp í fimm. Ég má svo ekki byrja á hlut tvö fyrr en hlutur eitt er búin. Einnig er mikilvægast að hafa í huga að oft þegar maður er að vinna heima líður manni eins og maður hefur ekki áorkað neinu en það er yfirleitt bara hugurinn að blekkja mann. Þegar maður er ekki í rútínu að fara í og úr vinnu er maður yfirleitt alltaf að vinna og gera mikið af hlutum þó svo að manni líði ekki alveg þannig. Svo það getur verið góð regla að slökkva á tölvupóstinum eftir klukkan sex á kvöldin til að falla ekki í samviskubita gildruna og vera sífellt að svara tölvupóstum fram eftir kvöldi.“

Alda Karen var gestur í Einkalífinu fyrr á þessu ári og má sjá viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.