Innlent

Leggur til framlengingu samkomubanns út apríl

Kjartan Kjartansson skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/vilhelm

Sóttvarnalæknir ætlar að leggja til við heilbrigðisráðherra að samkomubann og aðrar aðgerðir til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins verði framlengdar út apríl. Aðgerðirnar verða endurskoðaðar í seinni hluta apríl.

Núverandi bann við samkomum tuttugu manns eða fleiri tók gildi 24. mars og átti að gilda til 13. apríl. Áður var rýmra samkomubann í gildi.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, greindi frá því á daglegum upplýsingafundi almannavarna vegna faraldursins í dag að hann ætlaði að leggja til framlengingu á samkomubanninu í dag. Óhjákvæmilegt væri að halda aðgerðum áfram í ljósi mikils álags á sjúkrahús og gjörgæsludeildir sérstaklega.

Faraldurinn er áfram í línulegum vexti þó að tekist hafi að stöðva veldivöxt hans, að sögn Þórólfs. Vonir standa áfram til að toppi faraldursins verði náð í fyrrihluta apríl. Hann sér fyrir sér að aðgerðirnar verði endurskoðaðar í seinni hluta apríl en að ekki sé líklegt að slakað verði á þeim fyrr en eftir þennan mánuð. Þá verði kynnt hvernig og á hversu langan tíma slakað verði á.

„Núna reynir virkilega á úthaldið og samstöðuna,“ sagði Þórólfur og hvatti alla til að standa saman um aðgerðir til að takist að hindra sem best framgang sýkninga.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×