Lögregla og sérsveit voru kölluð til um klukkan hálf tíu í gærkvöldi vegna manns sem hafði haft í hótunum við nágranna sína í Hamraborg í Kópavogi. Maðurinn var vopnaður sveðju eða hnífi og er talinn hættulegur fólki, að sögn Gunnars Hilmarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni í Kópavogi. RÚV greindi fyrst frá.
Íbúar í Hamraborg óskuðu eftir aðstoð lögreglu á tíunda tímanum í gær. Þegar lögregla kom á staðinn var maðurinn stunginn af en skömmu síðar fréttist af honum á veitingastað í nágrenninu þar sem hann er sagður hafa hótað fólki og krafist þess að fá áfengi. Maðurinn var svo handtekinn heima hjá sér, í Hamraborg, um klukkan hálf ellefu.
„Við höfum farið þangað margoft áður út af þessum manni. Við metum manninn hættulegan og þess vegna fengum við sérsveitina með okkur,“ segir Gunnar Hilmarsson í samtali við Vísi.
Gunnar segir að búið sé að yfirheyra manninn og að nú verði fundin lausn fyrir hann í samvinnu við félagsmálayfirvöld. Maðurinn býr í félagsíbúð og glímir við geðræn vandamál ásamt því sem hann er talinn vera í mikilli óreglu. Aðspurður segir Gunnar að maðurinn hafi áður hótað nágrönnum sínum en veit ekki til þess að hann hafi áður gert það með vopni.
Ógnaði nágrönnum sínum í Hamraborg með sveðju
Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
