Innlent

Mikið tjón þegar uppgerð hlaða og fjós brunnu

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Töluverðan tíma tók að komast að eldi sem var meðal annaras í þaki. Notast var við vatn og froðu.
Töluverðan tíma tók að komast að eldi sem var meðal annaras í þaki. Notast var við vatn og froðu. Vísir/Jóhann K.

Mikið tjón varð þegar eldur kom upp í samkomuhúsi og gistiaðstöðu að Skrauthólum á Kjalarnesi í morgun. Um tíu manns voru innandyra þegar eldurinn kom upp en engan sakaði.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fékk tilkynningu um eldinn um klukkan hálf átta í morgun og voru slökkviliðsmenn sendir frá þremur slökkvistöðvum á vettvang. Húsið sem áður var fjós og hlaða hefur verið gert upp og er nú samkomuhús og gistiaðstaða.

Fjölmennt slökkvilið var sent á vettvang. Slökkvistarf gekk vel.Vísir/Jóhann K.

Fólk innandyra þegar eldurinn kom upp en enginn í hættu

„Þegar við komum á staðinn þá voru íbúarnir komnir út á hlaðið. Það var töluvert mikill reykur þannig að við sendum strax reykkafara inn og fundum eldinn þarna inni í gamla fjósinu,“ segir Þórður Bogason, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Eldurinn náði ekki að gistiaðstöðu staðarins en um tíu manns voru þar þegar slökkvilið bar að.

„Ætli það hafi verið svona um tíu manns,“ segir Þórður.

Var fólkið í hættu?

„Nei, engri hættu,“ segir Þórður.

Allir komnir út?

„Allir komnir út og slökkvistarf gekk vel,“ segir Þórður.

Þórður Bogason, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.Vísir/Jóhann K.

Slökkvistarf tók langan tíma

Eldurinn var einna mestur í þaki og þurftu slökkviliðsmenn að bora sig í gegn á nokkrum stöðum til þess að koma vatni og froðu að. Ekki urðu vandræði með að fá vatn. til slökkvistarfsins þrátt fyrir að engir brunahanar séu nærri. Var það flutt meðal annars með tankbíl á vettvang. Töluvert tjón var vegna elds, reyks og vatns.

Áttið þið ykkur á eldsupptökun?

„Já, lögreglan er komin á staðinn og þeir eru að rannsaka líkleg eldsupptök,“ segir Þórður.

Eitthvað sem gefið er upp?

„Ekki að svo komnu máli,“ segir Þórður.

Gistiaðstaðan og samkomuhúsið liggja saman. Eldur komst ekki að gistiaðstöðunni.Vísir/Jóhann K.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×