Eiríkur Ingi Jóhannsson, sjómaður sem öðlaðist landsfrægð þegar hann lifði af sjóslys undan ströndum Noregs í janúar 2012, hafði betur í skaðabótamáli við tryggingafélagið TM fyrir Hæstarétti.
Héraðsdómur hafði áður gert TM að greiða Eiríki Inga tæplega þrettán milljón króna en fyrir héraðsdómi hafði verið deilt um við hvað ætti að miða þegar kæmi að bótum vegna þeirrar 35 prósent örorku sem Eiríkur Ingi hlaut í slysinu. Áfrýjaði TM málinu til Hæstaréttar.
Eiríkur Ingi var vélstjóri á fiskiskipinu Hallgrími SI-177 sem selt hafði verið til Noregs. Þegar skipið var statt undan ströndum ströndum Noregs þann 25. janúar gerði mikið óveður, skipið lagðist á hliðina og sökk að lokum.
Hann var sá eini af þeim fjórum skipverjum sem komst lífs af en hann var í sjónum í um áður en honum var bjargað. Eiríkur Ingi sagði sögu sína bæði í Kastljósi og ítarlegu viðtali í Fréttablaðinu.
Eiríkur Ingi hafði samhliða námi mestmegnis starfað á hvalaskoðunarbátum en hafði ráðið sig á Hallgrími SI-177 skömmu fyrir ferðina örlagaríku. Í dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, segir að Eiríkur Ingi hafi í gegnum tíðina ötullega aflað sér faglegrar hæfni og starfsréttinda.
Hann hafi unnið mikið með námi árin 2010 og 2011 og því mætti ganga út frá því að hann hefði lokið áföngunum tveimur meðfram starfi á sjó. Hann hafi því lokið nægu námi til að leggja mæti hvort sem er meðallaun vélstjóra eða skipstjóra til grundvallar árslaunum hans.
Þegar litið sé til þess náms og réttinda sem Eiríkur hafði aflað sér og var í þann mund að afla sér telur dómarinn mjög miklar líkur á að Eiríkur hefði boðist starf sem skipstjóri eða yfirvélstjóri í mjög náinni framtíð. Var því fallist á kröfu Eiríks Inga.
Sjá má dóm Hæstaréttar hér.
