Innlent

Hefur staðfest reglur um einangrun og sóttkví

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sést hér með Ölmu Möller, landlækni, og Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sést hér með Ölmu Möller, landlækni, og Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur staðfest reglur um einangrun og sóttkví vegna COVID-19.

Reglurnar hafa verið birtar í Stjórnartíðindum en í þeim er meðal annars kveðið á um það hverjir eru skyldugir til þess að sæta sóttkví og hvaða reglur gilda í sóttkví. Þá er þess einnig getið í reglunum að brot gegn þeim getur varðað sektum eða fangelsisvist.

Samkvæmt reglunum felst eftirfarandi í því að vera í sóttkví:

a. Einstaklingur má ekki fara út af heimili nema brýna nauðsyn beri til, svo sem til að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

b. Einstaklingur má ekki taka á móti gestum á heimili sínu meðan sóttkví stendur yfir. c. Einstaklingur má ekki nota almenningssamgöngur eða leigubíla.

d. Einstaklingur má ekki fara til vinnu eða skóla þar sem aðrir eru. e. Einstaklingur má hvorki fara á mannamót né á staði þar sem margir koma saman, þ.m.t. í verslanir eða lyfjabúðir.

f. Einstaklingur má ekki dvelja í sameiginlegum rýmum fjölbýlishúsa, svo sem stigagöngum, þvottahúsum eða sameiginlegum görðum/útivistarsvæðum, nema á leið inn og út.

Sóttvarnalæknir hefur síðan gefið út nánari leiðbeiningar fyrir almenning um sóttkví sem fylgir reglunum og sjá má hér á vef landlæknis.

Þá gilda sérstakar reglur um einangrun:

„Einstaklingar sem eru með staðfesta sýkingu af COVID-19 eða ætla má að þeir kunni að vera smitaðir, en þurfa ekki á sjúkrahúsdvöl að halda, skulu vera í einangrun í heimahúsi eða á stað sem almannavarnir og heilsugæsla á hverjum stað tilgreina.

Einstaklingur í einangrun á að halda sig heima við og hafa bein samskipti við sem fæsta, sbr. leiðbeiningar sóttvarnalæknis. Ákvæði 4. og 5. gr. eiga einnig við um þá sem sæta einangrun nema strangari reglur eigi við.

Að jafnaði skal einstaklingur sem er smitaður vera einsamall í einangrun. Aðrir heimilismenn geta þó verið í sóttkví á sama stað ef þeir vilja ekki eða geta ekki farið af heimilinu en þeir eiga að takmarka snertingu við þann sem er í einangrun eins og raunhæft er og helst að halda sig í a.m.k. 1 m fjarlægð frá hinum smitaða. Ef fleiri veikjast á heimilinu lengir það tíma sem aðrir heimilismenn þurfa að vera í sóttkví og mögulega einangrun.

Sóttvarnalæknir hefur gefið út nánari leiðbeiningar fyrir almenning um einangrun, sbr. fylgiskjal 2 með reglum þessum. Einnig getur hann mælt sérstaklega fyrir um hvernig einangrun skuli háttað í einstaka tilfellum, telji hann tilefni til.

Einangrun vegna COVID-19 má læknir aflétta þegar 14 dagar eru liðnir frá greiningu og sjúklingur hefur verið einkennalaus í a.m.k. sjö daga.“

Reglur um einangrun og sóttkví má lesa í heild sinni hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×