Innlent

Mælt fyrir fimmtán milljarða framkvæmdum í dag

Heimir Már Pétursson skrifar
Bjarni Benediktsson mælir fyrir þingsályktun í dag um tímabundnar framkvæmdir til mótvægis við við stöðuna á vinnumarkaði í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.
Bjarni Benediktsson mælir fyrir þingsályktun í dag um tímabundnar framkvæmdir til mótvægis við við stöðuna á vinnumarkaði í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Vísir/vilhelm

Fjármálaráðherra mælir fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi í dag um að fimmtán milljarðar króna fari í tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Lang mest fer í samgöngumannvirki og viðhald og endurbætur fasteigna.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.Vísir/vilhelm

Þingsályktunin er á grundvelli fjáraukalaga þessa árs og nær til 39 verkefna sem heyra undir ýmis ráðuneyti. Mest munar um framkvæmdir í samgöngumálum á þessu ári en áætlað er að 6,2 milljarðar fari í samgöngumannvirki.

Þar af fara tæplega 1,9 milljarðar í vegaframkvæmdir og hönnun, sinn hvor milljarðurinn í tengivegi og viðhald vega, 750 milljónir í hafnarframkvæmdir og 700 milljónir í breikkun brúa.

Í flugmálum munar mest um 350 milljónir í stækkun flughlaðs á Akureyrarflugvelli og gerð akbrautar fyrir flugvélar á Egilsstaðaflugvelli sem og 200 milljónir til stækkunar flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli.

Ráðist verður í stækkun flughlaðs og flugstöðvar á Akureyri strax á þessu ári.Vísir

Þá fara rúmir tveir milljarðar króna í endurbætur fasteigna, þar af 400 milljónir til heilbrigðisstofnana og 730 milljónir til ýmissra stofnana ríkisins. Sjö hundruð milljónir fara til nýbygginga, þar af 200 milljónir til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík og annað eins til endurhæfingardeildar Landspítalans við Grensásveg.

Þá fá Landhelgisgæslan til byggingar flugskýlis, áfangaheimili fyrir þolendur kynferðisofbeldis og öryggisvistun hver um sig 100 milljónir til nýbygginga.

Rúmlega 1,3 milljarðar fara í verkefni sem tengjast orkuskiptum, grænum lausnum og umhverfismálum. Til rannsókna, nýsköpunar og skapandi greina fara um 1,7 milljarðar, um 1,3 milljarðar til stafræns Íslands og upplýsingatækniverkefna og að lokum fara 1,6 milljarðar til annarra innviðaverkefna.

Þingfundur hefst klukkan 13:30 þar sem þetta er fyrsta mál á dagskrá og má reikna með að þingmenn leggi áherslu á að málið fái skjóta afgreiðslu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.