Innlent

Aðstandendur þurfa að velja hverjir fá að vera viðstaddir útför

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar

Samkomubann þar sem að hámarki tuttugu manns mega koma saman gildir einnig um útfarir. Þór Hauksson, sóknarprestur í Árbæjarkirkju, segir að finna þurfi nýjar lausnir á þessum skrýtnu tímum.

„Við reynum að hafa sem fæsta frá kirkjunni við útförina. Það þarf alla vega að vera presturinn og útfararstjórinn og þá getur fólk komið með átján af sínu fólki. Þannig að sumir sleppa því að hafa tónlistarmenn og organista, til að koma fleiri aðstandendum af,“ segir Þór.

Átján er ekki há tala. Í mörgum fjölskyldum eru börn og barnabörn þeirra sem verið er að jarðsyngja mun fleiri en það.

Þór Hauksson segir þetta ástand erfitt fyrir marga aðstandendur en að allir reyni að leita lausna.vísir/sigurjón

„Þetta eru varla börn og barnabörn. Varla það. Maður finnur til með fólki sem er að kveðja, fólk er sett í þá stöðu hreinlega að þurfa að velja - þú mátt koma en ekki þú.“

Einhverjir kjósa að hafa sitthvorn hópinn í kistulagningu og útför og aðrir hafa beint streymi frá athöfninni á Facebook. En Þór bendir á að útfarir hafi mikið gildi í íslensku samfélagi og auðvitað sakni fólk þess að fá stuðning frá stórfjölskyldunni á erfiðum tímum.

Einhverjir biðji um frestun en það sé erfitt þar sem takmarkað pláss sé í líkgeymslum. Aftur á móti sé hægt að koma saman að loknu samkomubanni.

„Um daginn var ég með útför og erfidrykkjan verður í sumar. Þar sem fjölskyldan ætlar að fagna lífinu. Það er eitthvað sem við sannarlega getum gert - og munum gera, fagna lífinu,“ segir Þór.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.