Erlent

Mikil fjölgun skráðra smita í Singapúr

Atli Ísleifsson skrifar
Smit meðal farandverkamanna í Singapúr hefur tekið mikið stökk síðustu vikuna.
Smit meðal farandverkamanna í Singapúr hefur tekið mikið stökk síðustu vikuna. AP

Síðustu daga hefur orðið mikil fjölgun í skráðum kórónuveirusmitum í Singapúr – landi sem var sérstaklega hrósað framan af fyrir að hafa tekist að halda faraldrinum í skefjum.

Heilbrigðisyfirvöld í Singapúr greindu frá því í dag að skráðum smitum hafi fjölgað um 596, en sólarhringnum þar áður hafði þeim fjölgað um 942. Heildarfjöldi skráðra smita í landinu er nú 6.588 og eru dauðsföllin sem rakin eru til Covid-19 ellefu.

Skráð smit í Singapúr hafa rúmlega tvöfaldast á viku, en sprengingin er að stærstum hluta rakin til smita meðal farandverkamanna í landinu sem hafast jafnan við í mannmörgum vistarverum. Um 60 prósent skráðra smita í Singapúr eru rakin til þessa hóps, að því er fram kemur í frétt ABC.

Lee Hsien Loong forsætisráðherra Singapúr segir að það muni taka tíma að slíta smitkeðjuna hjá þessum hópi, en hann sagði flesta vera með væg einkenni þar sem stærstur hluti farandverkamannanna væri ungur að árum.

Rúmlega 200 þúsund farandverkamenn frá Bangladess, Indlandi og öðrum Asíuríkjum búa nú í Singapúr. Tugþúsundir þeirra hafa verið skikkaðir í sóttkví og þurfa því að hafast við í mannmörgum svefnsölunum, en aðrir hafa verið fluttir á aðra staði til að draga úr þrengslum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×