Innlent

Aðeins lítill hluti astmasjúklinga í áhættuhópi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítalans, segir mikilvægt að astmasjúklingar haldi áfram að taka lyfin sín.
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítalans, segir mikilvægt að astmasjúklingar haldi áfram að taka lyfin sín. vísir/vilhelm

Komið hefur fram að konan sem lést vegna kórónuveiruna í gær hafi verið með öndunarfærasjúkdóm og hefur sonur hennar sagt við fréttastofu að hún hafi verið með astma. Heilbrigðisyfirvöld hafa ekki staðfest hvaða undirliggjandi sjúkdóm hún var með.

Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir á ónæmisfræðideild, segir öndunarfærasjúkdóma vera á mjög mismunandi alvarlegu stigi.

„Það er mikilvægt að muna að astmi eru hluti af þessum [áhættu]hópi. En þá erum við eingöngu að eiga við þá sem eru með meðalslæman eða slæman astma. Það er fólk sem er með dagleg slæm einkenni og það er mjög lítill hluti fólks með astma í dag. Því lyfin sem við erum að beita í dag eru orðin það góð að það eru mjög fáir sem falla í þennan hóp,“ segir Björn Rúnar og bætir við að þeir fáu sem eru í áhættuhópi ættu að reyna að halda sig sem mest heima.

Björn Rúnar bendir á góðar leiðbeiningar á covid.is og barnaspitali.is. Einnig hefur Astma- og ofnæmisfélag Íslands gefið góðar leiðbeiningar á heimasíðu sinni: ao.is.

En hvað með börn sem eru með astma? Þurfa foreldrar að hafa meiri áhyggjur af þeim börnum en öðrum börnum?

„Nei, alls ekki. Þau þurfa bara að fylgja þessum ráðleggingum sem eru aðgengilegar á Barnaspítalanum. Og það sem er mikilvægt hjá börnum jafnt sem fullorðnum með astma, er að halda áfram að taka lyfin sín. Því jafnvel þótt sum þessi lyf innihaldi t.d. stera þá eru þau mikilvæg að halda einkennum niðri og þannig verja slímhúðina fyrir innrás sýkla.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×