Innlent

Hægt að sækja um bætur á móti skertum launum á morgun

Heimir Már Pétursson skrifar
Það er ómögulegt að vita hvenær ferðamenn snúa aftur og fólk fær aftur fulla vinnu á veitingastöðum og öðrum vinnustöðum þar sem fólk fer nú í hlutastarf.
Vísir/Vilhelm

Forstjóri Vinnumálastofnunar býst við miklum fjölda umsókna um bætur á móti skertu starfshlutfalli en opnað verður fyrir umsóknir á vef stofnunarinnar fyrir hádegi á morgun.

Unnur Sverrisdóttir forstjóri VMS segir allt kapp lagt á það innan Vinnumálastofnunar að ljúka nauðsynlegum undirbúningi fyrir rafrænar umsóknir um bætur á móti skertu starfshlutfalli samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti nýverið.

Samkvæmt lögunum getur fólk sem verið hefur í fullu starfi farið niður í allt að 25 prósenta starfshlutfall og átt rétt á bótum. Þeir sem eru með 400 þúsund eða minna í mánaðarlaun fá fullar bætur á móti skertu hlutfalli í vinnu.

„Ég reikna með því að hægt verði að sækja um bætur á móti skertu starfshlutfalli fyrir hádegi á morgun,“ segir Unnur.

Það hefur verið í nógu að snúast hjá Vinnumálastofnun frá því Alþingi samþykkti lög um greiðslu bóta á móti skertu starfshlutfalli. Hægt verður að sækja um bæturnar frá og með morgundeginum.Vísir/Sigurjón

„Þetta geta verið tíu til tuttugu þúsund manns.  Það er mikið spurt um þetta en við rennum alveg blint í sjóinn með hvað þetta verða margir,“ segir Unnur.

Nú þegar vinni allir starfsemenn stofnunarinnar í þessum málum og bætt verði við í starfslið á greiðslustofu hennar á Skagaströnd til að hafa undan.

„Þú sækir um þetta úrræði sjálfur rafrænt á vef Vinnumálatofnunar og atvinnurekandi staðfestir síðan lækkað starfshlutfall á mínum síðum atvinnurekenda á vefnum okkar. Vonandi gengur þetta hraðar fyrir sig með rafrænum lausnum,“ segir Unnur.

Stefnt sé að því að greiða fyrstu greiðslurnar hinn 31. mars. En miðað við hvað skammt sé til mánaðamóta gætu einhverjar greiðslur dregist inn í fyrstu viku apríl.

„Þetta veltur allt á því hvað atvinnurekendur eru duglegir að fara inn á mínar síður hjá okkur til að staðfesta breytt starfshlutfall hjá sínu fólki,“ segir Unnur.  Greiðslurnar muni síðan berast fólki um hver mánaðamót eins og önnur laun. Allar umsóknir muni gilda afturvirkt frá 15. mars síðast liðnum.


Tengdar fréttir

Ríkisstjórnin ætlast til að bankarnir standi með fyrirtækjum í vanda

Aðgerðafrumvarp ríkisstjórnarinnar, eða bandormurinn, er komið til nefndar eftir að fyrstu umræðu lauk á Alþingi í dag. Frumvörp um fjáraukalög þessa árs, skyldu fólks til að vinna fyrir almannavarnir og um sveigjanleika til sveitarfélaga eru einnig komin til nefnda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×