Innlent

Engin próf í húsakynnum Háskóla Íslands í vor

Sylvía Hall skrifar
Engin próf verða í húsakynnum Háskóla Íslands í vor.
Engin próf verða í húsakynnum Háskóla Íslands í vor. Vísir/Vilhelm

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur tilkynnt nemendum að próf verði ekki haldin í húsakynnum háskólans í vor. Þetta var ákveðið eftir fund neyðarstjórnar Háskóla Íslands í morgun.

Ekki liggur fyrir hvernig framkvæmdin verður en fræðslusvið og deildir munu ákveða tilhögun og verður breytt framkvæmd kynnt eigi síðar en 30. mars næstkomandi. Munu umsjónarkennarar í samráði við deildirnar ákveða hvernig framkvæmd námsmatsins verður.

Stjórnendur skólans hvetja jafnframt fræðisvið, deildir og kennara til að taka tillit til þeirra krefjandi aðstæðna sem eru nú uppi í samfélaginu og þannig létta álagi af nemendum í tengslum við námsmat. Markmiðið sé að nemendur geti lokið þeim námskeiðum sem þeir eru skráðir í.

Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs, segir jákvætt að von sé á niðurstöðu. Nýlega hafi Stúdentaráð staðið fyrir könnun á líðan nemenda vegna COVID-19 og þar hafi framkvæmd lokaprófa verið stórt áhyggjuefni.

„Ein helsta athugasemdin sem við fengum var að óvissan væri búin að vera of mikil of lengi,“ segir Jóna Þórey í samtali við Vísi. Óvissan sé þó enn til staðar en hún voni að deildirnar ákveði framkvæmd í samráði við nemendur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.