Innlent

Tveir þingmenn Viðreisnar í sóttkví

Kjartan Kjartansson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er formaður Viðreisnar. Vísir/Vilhelm

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og formaður Viðreisnar, og Hanna Katrín Friðrikson, þingmaður flokksins, eru báðar farnar í sóttkví vegna kórónuveirunnar. Þingkonurnar tilkynntu um þetta á Facebook-síðum sínum í kvöld.

Þorgerður Katrín skrifar að fjölskylda hennar sé öll komin í sóttkví, þar á meðal móðir hennar á tíræðisaldri.

„Það er ekkert annað í stöðunni en að taka þessu alvarlega og fara að fyrirmælum sóttvarnateymisins. Þetta er fúlasta alvara. Pössum upp á fólkið okkar, elsku vinir, og gerum þetta rétt. Því lífið heldur áfram,“ skrifar þingmaðurinn.

Í samtali við Vísis segir Þorgerður Katrín að sóttvarnateymi hafi hringt í fjölskylduna í gær en þá kom í ljós að hún hafði umgengist manneskju sem greindist síðar smituð. Ekkert þeirra sé þó með einkenni.

„Við gerum það sem þarf að gera, það er ekkert annað í boði. Sem betur fer er nútímatækni þóþannig að það er hægt að gera mjög margt og fylgjast með mjög mörgu og tala við marga," segir Þorgerður Katrín.

Hanna Katrín segir að bæði hún og Ragnhildur Sverrisdóttir, eiginkona hennar, séu sóttkví. Þær séu einkennalausar og hressar ennþá.

„Sem betur fer er Alþingi búið að koma upp eðal fjarfundabúnaði fyrir nefndafundi svo við sem erum í sóttkví, getum áfram lagt okkar af mörkum þar sem þörf krefur,“ skrifar hún.

Þorgerður Katrín segir að sem betur fer sé þingið búið að koma sér upp góðum fjarfundarbúnaði fyrir nefndir. Þingmenn geti þó ekki greitt atkvæði. Hún veltir fyrir sér hvort að við stjórnarskrárvinnu sem nú stendur yfir ætti til þess að hægt verði að breyta fyrirkomulagi atkvæðagreiðsla á þingi við aðstæður eins og þær sem nú eru uppi í faraldrinum.

„En að öðru leyti er þingið alltaf að verða betra og betra í því að nýta tæknina,“ segir hún.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×