Fótbolti

Fyrrum leikmenn Arsenal neituðu að taka á launalækkun vegna veirunnar og voru reknir

Anton Ingi Leifsson skrifar
Alex Song í leik með Arsenal árið 2012. Nú er hann án félags.
Alex Song í leik með Arsenal árið 2012. Nú er hann án félags. vísir/getty

Fyrrum Arsenal-mennirnir, Alex Song og Johan Djorou, eru á meðal þeirra níu leikmanna sem fengu sparkið hjá svissneska félaginu FC Sion.

Svissneska deildin var stöðvuð á dögunum eins og flest allar fótboltadeildir í heiminum vegna kórónuveirunnar. Því voru leikmenn FC Sion beðnir um að taka á sig launalækkun.

Það voru hins vegar ekki allir tilbúnir í það. Níu leikmenn liðsins neituðu að skrifa undir samning upp á launalækkun. Eiganda liðsins var ekki skemmt og rak þá leikmenn frá félaginu.

Leikmennirnir eru Xavier Kouassi, Pajtim Kasami, Ermir Lenjani, Seydou Doumbia, Mickael Facchinetti, Christian Zock, Birama Ndoye sem og Djorou og Song.

Svissneska deildin var stöðvuð þann 1. mars eftir að yfirvöld þar í land bönnuðu að fleiri en 100 manns söfnuðust saman en Sion er í 10. sæti deildarinnar, einungis fjórum stigum frá fallsæti.

Eigandi liðsins er nokkuð skrautlegur en Christian Constantin hefur verið með 40 þjálfara í vinnu hjá félaginu frá því að hann tók við liðinu 2003. Hann réð meðal annars sjálfan sig sem þjálfara liðsins um tíma.

Alex Song lék með Arsenal frá 2006 til 2012 en hann hefur einnig leikið með Barcelona og West Ham til að mynda á sínum ferli. Johan Djorou var á mála hjá Arsenal frá 2004 til 2014 en hann var lánaður til Hannover, HSV og Birmingham á þeim tíma.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.