Fótbolti

Norðmenn vilja tvöfalda EM-veislu og skora á UEFA

Sindri Sverrisson skrifar
Maren Mjelde er fyrirliði norska landsliðsins og hún vill spila á EM 2021.
Maren Mjelde er fyrirliði norska landsliðsins og hún vill spila á EM 2021. vísir/getty

Terje Svendsen, formaður norska knattspyrnusambandsins, segir að það sé mikilvægt að EM kvenna fari fram sumarið 2021 en verði ekki fært til vegna EM karla.

Svendsen hefur sent Aleksander Ceferin, forseta UEFA, erindi þar sem hann fer fram á að áfram verði stefnt á að halda EM kvenna 2021. Í vikunni var ákveðið að fresta EM karla, sem átti að fara fram í sumar, um eitt ár vegna kórónuveirunnar. Mótið á að fara fram 11. júní til 11. júlí. Þær dagsetningar skarast lítillega á við EM kvenna sem til stóð að hæfist 7. júlí. Líklegt þykir að EM kvenna verði fært til um eitt ár en Norðmenn vilja frekar fá tvöfalda EM-veislu 2021:

„Við þurfum núna meira en nokkru sinni á því að halda að hafa eitthvað til að hlakka til, eitthvað sem sameinar okkur. Því fyrr, því betra. Lokakeppni EM, bæði hjá körlum og konum, býr yfir þessum krafti,“ sagði Svendsen í fréttatilkynningu frá norska sambandinu.

„UEFA þarf að ráða fram úr mörgum erfiðum úrlausnarefnum. Samt tel ég mjög mikilvægt að báðar EM-lokakeppnirnar fari fram á næsta ári. Hjá norska knattspyrnusambandinu þykir sjálfsagt að kvennafótbolti sé jafnmikilvægur og karlafótbolti. Hugsið ykkur hver áhrifin yrðu ef við komumst á bæði mótin. Tvær EM-keppnir 2021 myndu senda kraftmikil skilaboð til stelpna sem spila fótbolta,“ sagði Svendsen.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×