Innlent

Gular við­varanir fyrir landið allt á sunnu­dag

Atli Ísleifsson skrifar
Gular viðvaranir eru í gildi fyrir allt landið á sunnudaginn.
Gular viðvaranir eru í gildi fyrir allt landið á sunnudaginn. Veðurstofan

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir fyrir landið allt á sunnudaginn. Mun þá ganga í sunnan hvassviðri eða storm.

Landsmenn mega svo búast við slyddu og síðar rigningu á sunnudag, jafnvel talsverðri rigningu suðvestantil seinnipartinn. Lengst af verður þó þurrt á Norður- og Austurlandi og hlýnandi veður.

Hæglætis veður í dag

Í dag er hins vegar spáð hæglætis veðri á landinu þar sem skýjað verður með köflum eða léttskýjað, en stöku él norðanlands.

Frost verður á bilinu 2 til 12 stig, en kaldara í innsveitum í morgunsárið. Vaxandi sunnanátt í kvöld og nótt með éljum við suður- og vesturströndina og hlýnandi veðri.

Hvasst á morgun

„Sunnan 13-23 m/s á morgun, hvassast í vindstrengjum norðanlands. Snjókoma eða slydda sunnan- og vestanlands, en víða rigning við ströndina, og þurrt um landið norðaustanvert. Hiti 0 til 6 stig eftir hádegi. Mun hægari suðlæg átt vestantil annað kvöld með éljum og kólnandi veðri.

Það verður suðvestanátt og éljagangur á laugardag, en á sunnudag kemur svo næsta lægð með hvassviðri eða storm og milt veður, og má búast við talsverðri hláku víða á landinu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×