Lífið

Gummi Ben nefndi hest í höfuðið á Simma Vill

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Gummi Ben var viðmælandi í öðrum þætti af mannlífsþættinum Hestalífið. Honum til halds og trausts var Sóli Hólm.
Gummi Ben var viðmælandi í öðrum þætti af mannlífsþættinum Hestalífið. Honum til halds og trausts var Sóli Hólm. Samsett/Vísir-Vilhelm

„Hvernig fer ég af stað?“ spurði sjónvarpsmaðurinn Guðmundur Benediktsson þegar hann settist á hestbak í fyrsta skipti ásamt góðum vini sínum Sóla Hólm. Telma Lucinda Tómasson náði að plata Gumma til að gefa hestunum tækifæri, dýrum sem hann treysti alls ekki. Gummi viðurkenndi þó að kannski ætti fyrsta skiptið ekki að vera í sjónvarpsþætti, en frumraun hans í hestamennsku var sýnd í þættinum Hestalífið hér á Vísi. 

Gummi hefur slegið í gegn með viðtalsþætti sínum, Föstudagskvöld með Gumma Ben. Honum bættist góður viðauki í Sóla Hólm fyrir nokkru og stjórna þeir nú þættinum saman. Gummi er algjör byrjandi en Sóli er reynslubolti enda vanur hestum frá blautu barnsbeini. Faðir hans, Sólmundur Sigurðsson, rekur hestaleiguna Sólhesta og þangað var farið fyrir þetta merkilega tilefni.

„Þarf ég hjálm?“ spyr Gummi skeptískur þegar hann mætir, en Sólmundur eldri er fljótur að svara. „Tja það er ekki víst að þú dettir, en það er gott að hafa hann.“

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.

Seint talinn eðlilegur

Sóli segir að Gummi líti út eins og lítill krakki þegar hjálmurinn er kominn á. Gummi veit ekkert um hestamennsku. Sóli leiðir hann í allan sannleikann um reiðtygin.

„Þetta eru græjurnar. Þetta eru takkaskór hestamannsins. Það er hnakkurinn, beislið og nasamúllinn og svo auðvitað fötin sem þú ert í. Ef þú átt hnakk, beisli og nasamúl“

Gummi bendir á að líklega þurfi að eiga hest líka, en viðurkenni svo að hann hafi nánast aldrei snert hest.

„Ég hef engan áhuga á þessu,“ segir Gummi þegar hann er kynntur fyrir ferfætlingi dagsins.

„Ég veit þú hefur ekki áhuga á þessu en mér finnst fyndið að láta þig gera þetta. Hvernig heldurðu að þetta eigi að snúa?“ spyr Sóli og sýnir honum beislið. Gummi virðist ekki hafa hugmynd um það hvernig eigi að beisla hest. Stemningin er létt, Gummi þó örlítið stressaður. Honum gekk aðeins betur að leggja hnakkinn á.

„Nú erum við félagarnir bara klárir, ég og Skjóni,“ segir Gummi þá stoltur. „Skjóni!? Hann er ekki skjóttur þessi hestur,“ segir Sóli þá hneykslaður og bætir við að það skíri enginn rauðan hest Skjóna.

„Það er bara skrítið,“ segir Sóli. „Já, skrítið, ég verð nú seint talinn eðlilegur,“ segir Gummi þá. Hann segir að liturinn á hestinum sé rauðbirkinn.

„Hann minnir mig á Simma…. Vill.“

Þar með var komið nafn á hestinn.

Gummi Ben hefur nú áttað sig á því að hestum sé treystandi og að það séu ekki allir hestar bilaðir, eins og hann hélt áður.Vísir/Hörður Þórhallsson

Meiri sumarmaður

Gummi Ben segir að honum finnist lögregluhestarnir í Englandi flottastir og tekur stefnuna á að keppa í hindrunarstökki á Ólympíuleikunum. Sóli segir Gumma samt að íslenski hesturinn sé merkilegasta hestategundin sem til er, allur heimurinn sé 100 prósent sammála um það.

„Þetta eru æðislegar skepnur og ég þarf að taka þig með aftur. Ég held það, þá verður meiri gorgeir í þér,“ segir Sóli í lokin.

„Já, einhvern tíma um sumar. Ég er meiri sumarmaður,“ svarar þá Gummi.

Jafnvel þótt Gummi hafi ítrekað reynt að hætta við, átt andvökunætur, þótt tilhugsunin hvorki þægileg né hættulaus þá hefur hann nú afrekað að fara á hestbak í fyrsta sinn á ævinni. Gummi segist þakklátur Telmu fyrir að plata sig út í þetta.

„Já, þetta var nefnilega ís sem þurfti að brjóta, held ég. Og ég er sáttur.“

Þáttinn í heild sinni má finna í spilaranum hér að ofan. Mannlífsþátturinn Hestalífið birtist á Vísi og Stöð 2 Maraþon aðra hverja viku en með umsjón þáttar fer Telma Lucinda Tómasson. Þættirnir eru unnir fyrir Vísi í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Beit.


Tengdar fréttir

„Það er eins og maður sé konungur um stund“

Í störfum sínum brýtur Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari heilann um leiðir til árangurs með handboltalandsliðinu. En til að hlaða batteríin skiptir hann algerlega um gír og gleymir sér með hestum sínum.

Hestamennskan grefur sig djúpt inn í sálarlíf fólks

Í dag fer í loftið hér á Vísi fyrsti þátturinn af Hestalífinu í umsjón Telmu Lucindu Tómasson. Í þessum mannlífsþáttum fá áhorfendur að heimsækja skemmtilegt hestafólk sem hefur frá mörgu að segja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×