Erlent

Hundrað þúsund lög­reglu­menn munu koma í veg fyrir sam­komur

Sylvía Hall skrifar
Lögreglumenn verða með sýnilega viðveru í Frakklandi á gamlárskvöld.
Lögreglumenn verða með sýnilega viðveru í Frakklandi á gamlárskvöld. EPA/IAN LANGSDON

Yfirvöld í Frakklandi hafa ákveðið að setja hundrað þúsund lögreglumenn í viðbragðsstöðu á gamlárskvöld til þess að sporna gegn samkomum og fögnuðum. Útgöngubann er í gildi frá klukkan 20 og mun lögregla vera með sýnilega viðveru á almenningssvæðum.

Þetta er gert eftir fyrirskipun innanríkisráðherrans Gérald Dramain, sem hefur einnig kallað eftir því að fleiri almenningssamgöngum verði lokað en nú þegar er gert ráð fyrir, en aðeins helmingur lestarleiða verður í notkun annað kvöld.

Lögreglumenn hafa fengið þá skipun að þeir eigi að koma í veg fyrir samkvæmi um leið og þau eru tilkynnt, hafa uppi á skipuleggjendum og sekta þá.

Smitum hefur farið fjölgandi í Frakklandi en frá því að faraldurinn hófst hefur veiran verið hvað útbreiddust í Frakklandi. Alls hafa 2,6 milljónir Frakka greinst með kórónuveirusmit og 64 þúsund látist. Aðeins hafa fleiri greinst í fjórum öðrum löndum að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Þá hafa yfirvöld boðað að það sé til skoðunar að færa útgöngubann til klukkan 18 á þeim svæðum þar sem smitum fer hvað mest fjölgandi.

Þessum aðgerðum er einnig ætlað að koma í veg fyrir óeirðir sem hafa átt það til að verða undanfarin áramót. Bílabrennur hafa orðið árlegur viðburður í úthverfum landsins eftir óeirðir þar árið 2005, en á síðasta ári var kveikt í tæplega 1.500 bílum í Frakklandi og höfðu þeir aldrei verið fleiri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×