Fótbolti

Segir að Patrik verði samherji Stefáns í Danmörku

Anton Ingi Leifsson skrifar
Patrik í markinu með varaliði Brentford.
Patrik í markinu með varaliði Brentford. Alex Burstow/Getty Images

Lasse Vøge, blaðamaður BT, greinir frá því að danska B-deildarfélagið Silkeborg sé að klófesta Patrik Sigurð Gunnarsson frá Brentford.

Ekki er vitað hvort að Silkeborg kaupi Patrik en reikna má með því að um sé að ræða lán eftir að aðalmarkvörður Silkeborg meiddist illa á dögunum.

Patrik var fyrir áramót á láni hjá öðru dönsku B-deildarfélagi, Viborg, en þar lék hann tólf leiki og skildi við liðið í efsta sæti deildarinnar.

Silkeborg er í þriðja sæti deildarinnar, er sjö stigum á eftir Viborg, en með liðinu leikur Skagamaðurinn Stefán Teitur Þórðarson.

Hinn tvítugi Patrik hefur verið á mála hjá Brentford síðan 2018 er hann gekk í raðir félagsins frá Breiðabliki.

Einnig hefur hann verið lánaður til Southend en hann er hluti af íslenska U21-árs landsliðinu sem tryggði sér sæti á EM á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×