Innlent

Fleiri fá að snúa heim á Seyðisfirði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Seyðisfirði um jólin. Stór skriða féll á bæinn 18. desember.
Frá Seyðisfirði um jólin. Stór skriða féll á bæinn 18. desember. Vísir/Vilhelm

Rýmingu hefur nú verið aflétt á stærra svæði á Seyðisfirði og geta íbúar við fjórar götur í bænum til viðbótar snúið aftur heim. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Áfram er í gildi hættustig almannavarna á Seyðisfirði vegna skriðuhættu en þar féll stór skriða á bæinn skömmu fyrir jól.

Í tilkynningu segir að sérfræðingar Veðurstofu Íslands hafi kannað aðstæður í Botnabrún í dag og ekki hafi sést neinar breytingar að ráði frá því fyrir jól. Einnig hafi hreyfing verið mæld daglega og hún reynst lítil sem engin. 

Því er talið að stöðugleiki hafi aukist nægilega mikið til þess að hægt sé að aflétta frekari rýmingu. Enn er þó í gildi rýming á afmörkuðu svæði í bænum sem sést rauðmerkt á meðfylgjandi korti.

Þeir sem eiga hús við neðangreindar götur geta snúið aftur:

Botnahlíð

Bröttuhlíð

Baugsveg

Austurveg

Staðan í farvegi stóru skriðunnar sem féll föstudaginn 18. desember og í nágrenni hennar verður skoðuð frekar á morgun.


Tengdar fréttir

Hreinsunarstarf hefst með krafti fyrir austan

Hreinsunarstarf hófst á Seyðisfirði í morgun en bærinn er ekki nema svipur hjá sjón eftir eyðileggingu af völdum aurskriða. Borist hefur liðstyrkur að norðan við hreinsun og verðmætabjörgun. Yfirlögregluþjónn bindur vonir við að hægt verði að hleypa fleiri bæjarbúum heim til sín fyrir áramót.

Kærkomin afmælisgjöf að fá að snúa heim

Jóhann Stefánsson, íbúi á Seyðisfirði segir það kærkomna afmælisgjöf að hafa fengið að snúa aftur heim í dag. Jóhann fagnar sextugsafmæli í dag, sama dag og fjörutíu fjölskyldur fengu að snúa aftur heim á Seyðisfjörð eftir að rýmingu var aflétt að hluta.

40 fjölskyldur fengu að snúa heim í dag

Fjörutíu fjölskyldur fengu að snúa aftur heim á Seyðisfjörð í dag eftir að rýmingum var aflétt að hluta. Einhverjir eru þó enn óöruggir og treysta sér ekki aftur í bæinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×