Erlent

Gaf eigur sínar í aðdraganda sprengingarinnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Hér má sjá starfsmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna og aðra rannsakendur grandskoða vettvang sprengingarinnar.
Hér má sjá starfsmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna og aðra rannsakendur grandskoða vettvang sprengingarinnar. AP/FBI og ATF

Anthony Quinn Warner, sem sprengdi sig og húsbíl sinn í loft upp í Nashville á jóladag hafði breytt lífi sínu í aðdraganda sprengingarinnar. Þær breytingar þykja til marks um að hann hafi ekki ætlað sér að lifa sprenginguna af.

Meðal annars gaf hann bæði bíl sinn og hús sitt.

Warner sagði þeim sem hann gaf bíl sinn að hann hefði greinst með krabbamein. Þá hafði hann fyrir um mánuði gefið konu hús sitt í úthverfi Nashville. Þar að auki hafði hann sagt vinnuveitenda sínum að hann ætlaði sér að setjast í helgan stein.

Einn nágranni sem ræddi við blaðamann AP fréttaveitunnar segir hafa rætt við Warner um viku fyrir árásina. Hann hafi hitt hann út á götu og spurt hvernig móðir hans hefði það. Þá hefði hann spurt hvort Warner fengi eitthvað skemmtilegt frá jólasveininum þetta árið.

Rick Laude segir Warner hafa brosað og sagt að Nashville og heimurinn allur myndi aldrei gleyma honum. Þetta taldi Laude til marks um að Warner ætti von á einhverjum peningum og sagðist hafa verið orðlaus þegar Warner var bendlaður við sprenginguna.

Lögregluþjónar voru kallaðir til í miðbæ Nashville þegar fregnir bárust af skothríð þar. Þegar lögregluþjónar nálguðust húsbíl heyrðu þeir viðvörun í hátalarakerfi bílsins að hann myndi springa eftir fimmtán mínútur.

Á meðan viðvaranir ómuðu í hátalarakerfi bílsins hlupu lögregluþjónar á milli húsa og sögðu fólki að flýja. Eftir nokkurn tíma hættu viðvaranirnar og eftir smá þögn heyrðist lagið Downtown eftir Petula Clark. Skömmu seinna sprakk húsbíllinn í loft upp.

Seinna var svo staðfest að Warner hafði verið í bílnum þegar hann sprakk. Þrír slösuðust í sprengingunni fyrir utan byggingu fjarskiptafyrirtækisins AT&T í Nasvhille.

Þó hann hafi skilið ákveðin ummerki eftir sig virðast lögregluþjónar engu nær um af hverju Warner sprengdi sig í loft upp. Meðal annars hafa lögregluþjónar rannsakað hvort árásin tengist samsæriskenningum um 5G.

Verið er að rannsaka tölvur og harða diska Warner og leita þar ummerkja um tilefni sprengjuárásarinnar. Einnig er verið að ræða við vitni og skoða fjárhag Warner. Samkvæmt frétt AP var Warner ekki kunnur lögreglu og hann hafði einungis einu sinni verið handtekinn. Það var árið 1978 og í tengslum við marijúana.

Hér má sjá myndband úr vestismyndavél lögregluþjóns sem var á vettvangi. Húsbíllinn springur í lfot upp eftir um fjórar mínútur.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×