Innlent

Ljós við enda ganganna eftir tíu mánaða baráttu

Síðasti dagur ársins 2020 í dag. „Sem betur fer,“ segja eflaust margir enda verður því seint lýst sem venjulegu ári. Samkomubann hefur verið í gildi síðustu níu mánuði eða svo og daglegt líf okkar allt öðruvísi en fyrir kórónuveirufaraldurinn. Það birti aðeins til í sumar en það var skammgóður vermir þar sem haustið reyndist afar erfitt.

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er tekin á þriðjudag þegar um 700 framlínustarfsmenn Landspítalans voru bólusettir gegn Covid-19. Vísir/Vilhelm

Síðasti dagur ársins 2020 í dag. „Sem betur fer,“ segja eflaust margir enda verður því seint lýst sem venjulegu ári. Samkomubann hefur verið í gildi síðustu níu mánuði eða svo og daglegt líf okkar allt öðruvísi en fyrir kórónuveirufaraldurinn. Það birti aðeins til í sumar en það var skammgóður vermir þar sem haustið reyndist afar erfitt.

Nú má þó segja að það sjáist ljós við enda ganganna þar sem bólusetning gegn Covid-19 hófst hér á landi á þriðjudag. Daginn áður kom bóluefnið til landsins en þá voru akkúrat tíu mánuðir síðan fyrsta tilfelli veirunnar greindist hér á landi.

Umfjöllunin sem hér fer á eftir er byggð á tveimur fréttaskýringum Vísis um kórónuveirufaraldurinn sem birtust fyrr á árinu. Sú fyrri birtist í lok maí og sú síðari í byrjun desember.

Vert er að taka fram svo ótrúlega margt hefur gerst í tengslum við faraldurinn að umfjöllunin er ekki tæmandi heldur er stiklað á stóru í sögu Covid-19 hér á Íslandi.

„Óþekkt veira í Kína líklega ný gerð kórónaveiru“

Í upphafi árs lét kórónuveiran ekki mikið yfir sér eins og fyrstu fréttir af henni hér á landi báru með sér.

Svona hljóðaði fyrirsögn fréttar sem birtist hér á Vísi þann 13. janúar síðastliðinn. Þessi óþekkta veira er í dag þekkt sem kórónuveiran sem veldur sjúkdómnum Covid-19. Formlegt heiti veirunnar er SARS-CoV-2.

Í fréttinni sagði að einn hefði þá látist vegna hennar og tugir smitast. Næstu daga á eftir birtust fleiri fréttir um veiruna. Var meðal annars sagt frá því að talið væri að hundruð Kínverja hefðu smitast af veirunni og að hún dreifðist hratt um landið.

Þann 20. janúar ræddi fréttastofa við Þórólf Guðnason, sóttvarnalækni, sem sagði enga ástæðu til að óttast þessa nýju veiru hér á landi, enn sem komið væri. Þá sagði hann jafnframt ekkert benda til þess að veiran smitaðist á milli manna.

Frá borginni Wuhan í Kína í byrjun febrúar þar sem algjört útgöngubann var þá í gildi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.Vísir/Getty

„Nánast allir sem hafa veikst og eru með staðfesta sýkingu hafa verið á ákveðnum útimarkaði í Wuhan í Kína. Þar hefur veiran fundist í umhverfissýnum. Þannig að menn eru fyrst og fremst að beina spjótum sínum að þessum stað. En svo hefur fólk sem hefur verið þar og ferðast til annarra landi líka verið að greinast. Ef veiran fer að smitast manna á milli og veldur miklum skakkaföllum þá gæti önnur staða komið upp en það á allt eftir að koma í ljós,“ sagði Þórólfur.

Daginn eftir staðfestu heilbrigðisyfirvöld í Kína að smit gæti borist frá manni til manns og sama dag var fyrsta tilfelli veirunnar staðfest í Bandaríkjunum. Í sömu viku fóru að berast fregnir af því að grunur væri um smit í Bretlandi og Finnlandi og fyrsta tilfelli veirunnar í Evrópu var svo staðfest í Frakklandi þann 25. janúar.

Óvissustig og afbókanir hjá ferðaþjónustufyrirtækjum

Þremur dögum áður hafði Vísir sagt frá því að heilbrigðisyfirvöld á Íslandi væru að dusta rykið af viðbragðsáætlunum sínum. Það var síðan þann 28. janúar sem ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi vegna veirunnar hér á landi og daginn eftir var sagt frá því að hótel og hópferðafyrirtæki væru byrjuð að fá afbókanir fyrir sumarið.

Myndin er tekin á Keflavíkurflugvelli í lok janúar. Ferðamenn eru á leið heim og bera grímu fyrir andlitinu, eitthvað sem var ekki algeng sjón hér á landi á þessum tíma en þarna var veiran farin að breiðast út um Asíu.Vísir/Vilhelm

Þann 1. febrúar sagði sóttvarnalæknir svo frá því að nú væri hægt að greina kórónuveiruna hér á landi og var þann sama dag byrjað að skima fyrir henni. Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum, sagði líklegt að veiran myndi greinast hér á landi. Það væri þó engin ástæða til að örvænta.

Fjórum dögum síðar var greint frá því að Íslendingar sem væru að koma frá Kína þyrftu að fara í fjórtán daga sóttkví við komuna til landsins vegna kórónuveirunnar. Kínverskir ferðamenn þurftu þó ekki að fara í sóttkví.

Þá beindi sóttvarnalæknir þeim tilmælum til almennings að huga vel að hreinlæti og þá sérstaklega handþvotti og að spritta sig. Landinn tók vel í þau tilmæli, að minnsta kosti ef marka má hversu mikið seldist af handspritti en Vísir ræddi við heildsala sem sagði hálfsársbirgðir hafa selst upp á fjórum dögum.

Um miðjan febrúar höfðu 24 sýni verið tekin hér á landi og rannsökuð með tilliti til nýju kórónuveirunnar. Ekkert sýni reyndist jákvætt.

Bless við handabönd, koss og knús

Í seinni hluta febrúar tók veiran síðan að breiðast hratt út á Ítalíu og þann 24. febrúar var Íslendingum sem höfðu heimsótt fjögur héruð á Norður-Ítalíu gert að sæta tveggja vikna sóttkví við heimkomu.

Daginn eftir var síðan greint frá því að sjö Íslendingar, hið minnsta, væru í sóttkví á hóteli á Tenerife eftir að smit greindist á hótelinu.

Sama dag ræddi Vísir við Rögnvald Ólafsson, aðalvarðstjóra hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Hann sagði þá stund runna upp að Íslendingar ættu að forðast handabönd og kossaflens vegna kórónuveirunnar.

Tveimur dögum síðar sendu heilbrigðisyfirvöld frá sér tilkynningu þar sem Íslendingum var ráðið frá því að fara til Suður-Kóreu, Írans, Kína og áðurnefndra fjögurra héraða á Ítalíu. Þá var hvatt til sérstakrar varúðar þegar ferðast væri til annarra svæða á Ítalíu, Tenerife, Japans, Singapúr og Hong Kong.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, sjást hér undirbúa sig fyrir fyrsta blaðamannafundinn sem haldinn var hér á landi vegna kórónuveirunnar.Vísir/Vilhelm

Síðar þennan sama dag, þann 26. febrúar, héldu yfirvöld hér á landi fyrsta blaðamannafundinn vegna kórónuveirunnar. Þar sátu þeir Rögnvaldur og Þórólfur fyrir svörum. Á þessum tíma höfðu um 80 þúsund manns greinst með veiruna í heiminum og um 3.000 manns látist vegna hennar, langflestir í Kína.

Fram kom í máli Rögnvaldar að undanfarna daga hefðu yfirvöld fundið fyrir auknum áhuga almennings á veirunni og á næstunni yrðu reglulegir blaðamannafundir á borð við þennan. Þar með hófust daglegir upplýsingafundir yfirvalda vegna faraldursins.

Fyrsti Íslendingurinn sem greindist með veiruna

Það var síðan föstudaginn 28. febrúar sem að fyrsta staðfesta tilfelli kórónuveirunnar greindist hér á landi. Hættustigi almannavarna var í kjölfarið lýst yfir.

Í tilkynningu frá embætti landlæknis kom fram að íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri hefði verið færður í einangrun á Landspítalanum eftir að sýni úr honum reyndist jákvætt fyrir veirunni. Maðurinn væri ekki alvarlega veikur en með dæmi gerð einkenni Covid 19-sjúkdómsins. Hann hafði nýlega verið á Norður-Ítalíu en utan skilgreinds hættusvæðis fyrir veiruna.

Síðdegis þennan næstsíðasta dag febrúarmánaðar boðuðu almannavarnir og landlæknir til blaðamannafundar. Aftur sat Þórólfur fyrir svörum en nú ásamt þeim Ölmu Möller, landlækni, og Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra.

Þríeykið svokallaða, Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, Alma Möller, landlæknir, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á sínum fyrsta upplýsingafundi saman. Með þeim á þessum fundi var Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala.Vísir/Vilhelm

Þar með var þríeykið svokallaða myndað en Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala, var einnig á fundinum.

Næstu tvo daga greindust tveir til viðbótar og hundruð fóru í sóttkví vegna þeirra smita. Smitunum fjölgaði síðan jafnt og þétt fyrstu vikuna og þann 6. mars, viku eftir að fyrsta smitið greindist, voru staðfest tilfelli orðin 45. Þar af voru fjögur innanlandssmit. Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir. Heimsóknarbann var sett á á dvalar- og hjúkrunarheimilum sem og á Landspítalanum.

Árshátíðum frestað og ýmis álitamál

Áhrifa faraldursins gætti strax á fyrstu vikunni. Fyrirtæki frestuðu árshátíðum og stórum viðburðum á borð við sýningu Verk og vit var einnig frestað.

Þá komu upp ýmis álitamál. Þannig voru verkalýðsfélögin og Samtök atvinnulífsins ekki sammála um það að vinnuveitandi ætti að greiða laun fólks í sóttkví. Stjórnvöld stigu inn í og lýstu því yfir að laun þeirra sem gert væri að fara í sóttkví yrðu tryggð.

Það varð síðan töluvert fjaðrafok þegar Íslensk erfðagreining (ÍE) bauðst til þess að skima fyrir veirunni og greina hana. Á tímabili leit út fyrir að ekkert yrði af því að fyrirtækið myndi hefja skimun þar sem Vísindasiðanefnd og Persónuvernd gerðu athugasemdir við skimunina.

Ef um vísindarannsókn væri að ræða væri slíkt leyfisskylt samkvæmt lögum en Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, sagði fyrirtækið ætla að taka þátt í klíniskri vinnu en ekki vísindarannsókn.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, sagði óvissu með fyrirhugaða notkun gagnanna hafa kallað á frekari skýringar frá ÍE. Þegar þær höfðu fengist kom í ljós að skimunin væri ekki leyfisskyld. Þar með var ekkert því til fyrirstöðu að ÍE færi að skima fyrir veirunni og greina hana. Hófst skimunin föstudaginn 13. mars.

„Maður snöggreiðist innan í sér þegar maður heyrir svona ákvarðanir“

Daginn áður höfðu stórtíðindi borist frá Bandaríkjunum þegar Donald Trump, Bandaríkjaforseti, tilkynnti um bann við ferðalögum frá Evrópu til Bandaríkjanna til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar en Evrópu var nú orðin miðpunktur faraldursins.

Bannið náði til allra íbúa landa innan Schengen-svæðisins en bandarískir ríkisborgarar gátu komið heim frá Evrópu. Þá voru Bandaríkjamenn hvattir til þess að ferðast ekki til Evrópu.

Strax varð ljóst að efnahagsleg áhrif þessarar einhliða ákvörðunar Trump yrðu mikil hér á landi enda bandarískir ferðamenn stærsti hópurinn sem farið hefur um Leifsstöð síðustu ár.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði ferðabannið gríðarlegt reiðarslag fyrir þjóðina.

„Maður snöggreiðist innan í sér þegar maður heyrir svona ákvarðanir sem manni finnst að eigi ekki að geta komið upp í alþjóðasamskiptum, án fyrirvara og einhliða. Ég lít þannig á að við ættum frekar að efla samstarf ríkja um að lágmarka útbreiðsluna og efnahagsleg áhrif af henni,“ sagði Bjarni meðal annars í viðtali í Bítinu á Bylgjunni þann 12. mars.

Þennan sama dag fóru staðfest smit hér á landi svo yfir 100 þegar tilkynnt var um það að 103 einstaklingar hefðu greinst með kórónuveiruna hér á landi.

Föstudagurinn þrettándi og samkomubann

Það var síðan skammt stórra högga á milli því daginn eftir, föstudaginn 13. mars, boðaði ríkisstjórnin til blaðamannafundar þar sem tilkynnt var um samkomubann í fjórar vikur sem tók gildi á miðnætti 15. mars.

Var þetta í fyrsta sinn sem slíkt samkomubann var sett á í lýðveldissögunni en miðað var við að ekki mættu fleiri en 100 manns koma saman. Þá var tveggja metra reglunni komið á sem almenningur ætti að þekkja vel í dag.

Háskólum og framhaldsskólum var lokað og lagt upp með fjarnám í þeim menntastofnunum. Starf leikskóla og grunnskóla var áfram heimilt en að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Áhrifa samkomubannsins gætti strax þennan föstudag þótt það tæki ekki gildi fyrr en tæpum þremur sólarhringum síðar. Þannig myndaðist örtröð í verslunum og landinn tók að hamstra vörur. Yfirvöld sögðu það ástæðulaust þar sem nóg væri til að vörum í landinu.

Það var enginn fótbolti í samkomubanninu, hvorki hér á landi né víðast hvar annars staðar.Vísir/Vilhelm

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) ákvað að fresta öllum leikjum á meðan á samkomubannið væri og Handknattleiksamband Íslands (HSÍ) frestaði öllum leikjum ótímabundið. Þá setti Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ) allt á ís í að minnsta kosti fjórar vikur.

Þjóðkirkjan felldi síðan niður allt messuhald og allar fermingar vegna samkomubannsins. Sagði í tilkynningu að ákvörðunin væri tekin með almannaheill í húfi og að hún myndi gilda á meðan það væri samkomubann.

Fyrsti dagur samkomubanns og ferðabann ESB

Sama dag og tilkynnt var um samkomubannið samþykkti Alþingi síðan fyrsta frumvarpið sem lagt var fram til þess að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins á efnahagslífið. Frumvarpið sneri að því að fyrirtæki gátu fengið frest á tryggingagjaldi og staðgreiðslu opinberra gjalda. Var það samþykkt samhljóða með 47 atkvæðum en sextán þingmenn voru fjarverandi.

Samkomubannið tók síðan gildi klukkan 00:01 aðfaranótt mánudagsins 16. mars. Þá höfðu 186 greinst með kórónuveiruna hér á landi, samkvæmt upplýsingum á covid.is, og tæplega 1.800 einstaklingar voru í sóttkví. Þrír voru á sjúkrahúsi vegna veirunnar, þar af tveir á gjörgæslu.

Fjölmargir skólar og leikskólar voru lokaðir fyrsta dag samkomubannsins auk þess sem sundlaugar og líkamsræktarstöðvar lokuðu víða. Dagurinn var nýttur til þess að skipuleggja starfið og hvernig hægt væri að hafa opið í samkomubanni.

Myndin er tekin í Bónus í Holtagörðum eftir að samkomubann hafði tekið gildi. Starfsmaður verslunarinnar sést hér sótthreinsa sameiginlegan snertiflöt; handfangið á innkaupakerru.Vísir/Vilhelm

Undir kvöld bárust síðan fréttir af ferðabanni til Evrópusambandsins og annarra Schengen-ríkja sem ætlað var að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, sagði um mikil og stór tíðindi að ræða sem bæru mjög brátt að.

Skoða þyrfti hvað ferðabannið myndi þýða í framkvæmd fyrir Ísland.

„Það hefur verið okkar lína, miðað við þær upplýsingar sem við höfum í dag að þetta myndi ekki skila tilætluðum árangri,“ sagði Áslaug. Fjórum dögum síðar lá fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka þátt í banninu.

„Þrátt fyr­ir að ferðabann hafi ekki verið of­ar­lega hjá okk­ar sér­fræðing­um sem ár­ang­urs­rík aðferð gegn út­breiðslu kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins þá hef­ur verið biðlað til okk­ar að taka þátt í lok­un landa­mæra ESB- og Schengen-ríkj­anna og við eig­um óhægt um vik að skor­ast und­an því,“ sagði dómsmálaráðherra þá.

Ástralskur ferðamaður sem lést reyndist smitaður af veirunni

Að loknum fyrsta degi samkomubannsins lá fyrir að kennsludögum yrði fækkað hjá nemendum í grunn- og leikskólum á öllu landinu vegna veirunnar. Talið var inn í verslanir sem grípa þurftu til ýmissa ráðstafanna vegna bannsins og þá var ákveðið að opna sundlaugarnar á ný á þriðjudeginum.

Maðurinn hafði verið á ferðalagi hér á landi ásamt konu sinni þegar hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík.Vísir/Vilhelm

Á öðrum degi samkomubanns, þriðjudaginn 17. mars, var síðan greint frá því að ferðamaður frá Ástralíu sem lést á Húsavík daginn áður hefði reynst smitaður af kórónuveirunni.

Þá lá ekki fyrir hvort að maðurinn hefði látist vegna Covid-19-sjúkdómsins en síðar fékkst sú dánarorsök staðfest. Ástralinn, sem var á fertugsaldri, var því sá fyrsti sem lést hér á landi af völdum Covid-19.

Ljóst var að faraldurinn var að færast mjög í aukana og að efnahagsleg áhrif af útbreiðslu veirunnar yrðu mikil. Smitum fjölgaði ört í fyrstu viku samkomubannsins og boðuðu yfirvöld hertari aðgerðir.

Hlutabætur, brúarlán og frestun skattgreiðslna

Áður en tilkynnt var um hertari reglur í samkomubanni boðaði ríkisstjórnin til blaðamannafundar og kynnti aðgerðir til að bregðast við miklum efnahagslegum áhrifum af faraldrinum.

Ríkisstjórnin kynnti aðgerðir sínar laugardaginn 21. mars. Umfang þeirra nam 230 milljörðum króna og fólu meðal annars í sér svokallaða hlutabótaleið, brúarlán til fyrirtækja og frestun skattgreiðslna.

Það var síðan á miðnætti aðfaranótt þriðjudagsins 24. mars sem hert samkomubann tók gildi. Samkomubann hafði reyndar þá þegar verið hert í Vestmannaeyjum þar sem viðburðir þar sem fleiri en tíu komu saman voru bannaðir.

Staðfest smit í Eyjum voru orðin 41 þann 24. mars og tæplega 500 bæjarbúar voru komnir í sóttkví. Á landsvísu höfðu 648 verið greindir með veiruna og meira en 8.000 manns voru í sóttkví.

Stjörnutorg var á meðal þeirra staða sem lokuðu vegna samkomubannsins.Vísir/Vilhelm

Ekkert sund, engin klipping og engin æfing

Hert samkomubann á landsvísu fól það í sér að ekki máttu fleiri en 20 manns koma saman. Sundlaugum, söfnum, líkamsræktarstöðvum, börum, skemmtistöðum og spilasölum var lokað og þá mátti ekki veita þjónustu þar sem mikil nánd er á milli viðskiptavina og þess sem veitir þjónustuna.

Þar með lokuðu hárgreiðslustofur, tannlæknastofur og stofur sjúkraþjálfara svo eitthvað sé nefnt. Fjölda veitingastaða var einnig lokað sem og verslunum og þá féll allt íþróttastarf niður.

Stórar matvöruverslanir og apótek voru undanskilin 20 manna banninu; þar máttu allt að 100 manns koma saman en tryggja þurfti að hægt væri að framfylgja tveggja metra reglunni.

Sama dag og hert samkomubann tók gildi tilkynnti Landspítalinn síðan að liðlega sjötug kona hefði látist á mánudeginum af völdum Covid-19. Hún hafði glímt við langvarandi veikindi.

Mikil áhrif á daglegt líf

Það er ekki ofsögum sagt að kórónuveiran og samkomubannið hafi haft víðtæk áhrif á daglegt líf þjóðarinnar. Þannig þurftu margir vinnustaðir og starfsmenn þeirra að aðlagast fljótt þegar ljóst var að ekki mættu fleiri en 20 koma saman í sama rýminu.

Fjöldi vinnandi fólks hóf að vinna heima í svokallaðri fjarvinnu. Þar sem skólastarf var skert þurftu foreldrar jafnvel líka að sinna einhverri kennslu heima, fyrir utan auðvitað að sinna börnunum sjálfum og þörfum þeirra, á milli þess sem þeir reyndu að sinna vinnunni.

Margrét Helga Erlingsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, sést hér lesa fréttir á Bylgjunni heiman frá sér í apríl. Með henni á myndinni er dóttir hennar, Ísabella Ellen Jónsdóttir.Vísir/Vilhelm

Þá var afþreying af skornum skammti þar sem öllum sundlaugum, söfnum, leikhúsum, kvikmyndahúsum og líkamsræktarstöðvum hafði verið skellt í lás. Það var því ekki annað í stöðunni en að drífa sig út að hjóla, ganga eða hlaupa og margir komu sér upp lítilli rækt heima.

Þessi breyting á okkar daglega lífi sást meðal annars í auknum fjölda þeirra sem fóru um göngu- og hjólastíga höfuðborgarsvæðisins á tveimur jafnfljótum eða hjóli. Á sumum stígum var fjölgunin meira en 35 þúsund vegfarendur á milli ára.

Það var síðan mikil ásókn í að kaupa ketilbjöllur og handlóð og seldust þær vörur eins og heitar lummur. Bökunarvörur seldust einnig í stórum stíl og súrdeigsæði greip þjóðina. Margir hafa því eflaust bakað meira en venjulega í samkomubanninu og sumir eignast sinn eigin súr.

Áhrifin á umferðina voru síðan töluverð. Samkomubannið hafði þau áhrif að Íslendingar voru minna á ferðinni og ferðabönn ESB og Bandaríkjanna leiddu til þess að ferðamönnum sem komu til landsins snarfækkaði á aðeins örfáum dögum.

Umferðin um hringveginn dróst þannig saman um allt að 40% og á höfuðborgarsvæðinu um allt að 15% á fyrstu dögum og vikum samkomubanns og ferðabanns.

Myndin er tekin á Hellisheiði þegar faraldurinn stóð sem hæst. Mjög dró úr umferð um land allt vegna faraldursins.Vísir/Vilhelm

Svartsýnasta spá gerði ráð fyrir 2.300 smitum

Það má segja að það helsta sem landlæknir og sóttvarnalæknir lögðu áherslu á þegar kom að viðbrögðum yfirvalda við faraldrinum hér á landi var að verja viðkvæmustu hópana fyrir smiti og að verja heilbrigðiskerfið; að gera Landspítalanum kleift að sinna þeim sem myndu smitast af veirunni og að allir sem myndu þurfa á því að halda gætu lagst þar inn án þess að álagið á spítalann yrði óviðráðanlegt.

Þótt lítið væri vitað um veiruna þegar faraldurinn hófst lá fyrir að eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma væri í sérstakri hættu á að veikjast alvarlega ef það smitaðist, og þar með látast af völdum Covid-19. Til verndar þessum hópum var því sett á heimsóknarbann á hjúkrunar- og dvalarheimilum og á Landspítalanum.

Yfirvöld litu síðan til spálíkans vísindamanna Háskóla Íslands til þess að reyna að fá einhverja mynd af því hver þróun faraldursins hér á landi gæti orðið.

Í frétt á Vísi þann 25. mars var sagt frá nýju spálíkani háskólans þar sem kom fram að búist væri við því að rúmlega 1.500 manns myndu greinast með Covid-19. Svartsýnasta spáin gerði þó ráð fyrir því að allt að 2.300 greindum smitum.

Þá var því spáð að faraldurinn myndi ná hámarki í fyrstu viku apríl og fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm yrði þá um 1.200 manns.

Meira en þúsund smit og mikið álag á Landspítalanum

Og það var ekki að ástæðulausu sem yfirvöld höfðu áhyggjur af miklu álagi á Landspítalann. Þann 27. mars sagði Vísir frá því að sex einstaklingar væru nú inniliggjandi á gjörgæsludeild spítalans og að þeir væru allir á öndunarvél.

Róðurinn var tekinn að þyngjast verulega á spítalanum vegna faraldursins en þennan sama dag voru staðfest smit orðin 890 talsins. Þá voru rúmlega 100 manns með meðalslæm eða versnandi einkenni vegna Covid-19.

Tveimur dögum síðar voru staðfest smit síðan orðin fleiri en þúsund. Nítján manns voru á sjúkrahúsi og þar af níu á gjörgæslu. Um 9.500 voru í sóttkví og um 15.500 sýni höfðu verið tekin. 124 var batnað af Covid-19.

Um mánaðamótin mars/apríl gerði svartsýnasta spá vísindamanna HÍ ráð fyrir því að mesta álag á gjörgæsludeild Landspítalans yrði í annarri viku aprílmánaðar. Þá mætti búast við því að allt að átján manns myndu þurfa innlögn á gjörgæslu en að hátt 200 manns myndu þurfa að leggjast inn á sjúkrahús.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði næg rúm til staðar á gjörgæslunni en að mönnun deildarinnar gæti orðið takmarkandi þáttur þegar álag myndi aukast. Þá fóru yfirvöld að brýna fyrir fólki að ferðast ekki út á land um páskana þar sem það gæti aukið álagið á heilbrigðiskerfið.

Skimun fyrir kórónuveirunni hjá Heilsugæslunni Höfða. Alls hafa verið tekin sýni hjá tæplega 58 þúsund manns.Vísir/Vilhelm

Aldrei höfðu fleiri misst vinnuna eða hluta úr vinnu á jafnskömmum tíma

Strax um miðjan mars var ljóst að faraldurinn myndi hafa mikil áhrif á vinnumarkaðinn og að atvinnuleysi myndi aukast, ekki síst innan stærstu útflutningsgreinar landsins, ferðaþjónustunnar.

Þann 23. mars tilkynnti Icelandair að það myndi segja upp 240 manns og skerða starfshlutfallið hjá 92% starfsfólks. Þeir starfsmenn sem voru áfram í fullu starfi lækkuðu um 20% í launum, framkvæmdastjórar um 25% og laun forstjóra og stjórnar lækkuðu um 30%.

Þá sagði Isavia upp rúmlega 100 manns og 164 misstu vinnuna hjá Bláa lóninu, einum vinsælasta ferðamannastað landsins.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði að aldrei hefðu fleiri misst vinnuna á jafnskömmum tíma en á þessum nokkrum vikum í mars.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.Vísir/Egill

Um mánaðamótin mars/apríl höfðu 23 þúsund manns sótt um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls og 5.400 manns um almennar atvinnuleysibætur. Sautján hópuppsagnir höfðu verið tilkynntar til Vinnumálastofnunar.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, lýsti miklum áhyggjum af miklu atvinnuleysi í bænum sem hann óttaðist að gæti farið upp í allt að 20%.

Berg í Bolungarvík

Þann 31. mars tilkynnti lögreglan á Vestfjörðum að fyrsta tilfelli kórónuveirunnar hefði greinst í Bolungarvík. Stór hluti kennara og nemenda í bænum fór í sóttkví eftir að smitið kom upp og daginn eftir voru aðgerðir hertar á norðanverðum Vestfjörðum.

Leik- og grunnskólum Bolungarvíkur og Ísafjarðar var lokað frá og með 2. apríl og samkomubann var miðað við fimm manns. Fjöldi viðskiptavina í stærri verslunum mátti ekki fara yfir þrjátíu manns.

Þann 3. apríl var síðan greint frá því á vefsíðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða (HVEST) að íbúi á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík hefði greinst með kórónuveiruna:

„Eitt Covid-19 smit hefur verið staðfest á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Tveir íbúar til viðbótar eru í einangrun og eru sýni úr þeim á leið til Reykjavíkur. Átta heimilismenn eru í sóttkví, samtals ellefu manns. Berg er hluti af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Stærstur hluti starfsmanna á Bergi, eða sautján, eru í sóttkví og til viðbótar eru starfsmenn á Bóli einnig í sóttkví. Ból er heimili fyrir fatlað barn sem rekið er í húsnæði sem samtengt er Bergi.

Starfsfólk hefur verið flutt eftir föngum af öðrum deildum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða til aðstoðar. Þá hefur verið kallað á fólk úr bakvarðasveitum og von er á fólki í dag frá öðrum landshlutum. Verulegt álag er á starfsmönnum á heimilinu og frekari þörf fyrir vel þjálfað starfsfólk á næstu dögum og vikum,“ sagði í tilkynningunni á vefsíðu HVEST.

Hópsýking kom upp á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík og var staðan grafalvarleg um tíma.Bolungarvík.is

Bakvörður grunaður um lögbrot

Gylfi Ólafsson, forstjóri stofnunarinnar, rakti málið í þræði á Twitter-síðu sinni í lok apríl. Þar kom fram að fyrsta smitið á Bergi hefði verið staðfest þann 1. apríl.

Þann 6. apríl komu fyrstu bakverðirnir úr bakvarðasveit heilbrigðisstarfsfólks vestur á firði. Daginn áður hafði verið greint frá því að íbúi á hjúkrunarheimilinu hefði látist úr Covid-19. Tveir aðrir heimilismenn voru með staðfest smit og þrír til viðbótar voru í einangrun.

Fjórum dögum eftir að bakverðirnir komu til starfa á Bergi, á föstudaginn langa, vaknaði grunur um að einn þeirra, kona á miðjum aldri, hefði villt á sér heimildir.

Hún var grunuð um að hafa falsað gögn um tilskilin réttindi til heilbrigðisstarfa auk þess sem hún var grunuð um að hafa stolið eða reynt að stela lyfjum á hjúkrunarheimilinu.

Málinu var vísað til lögreglu sem tók það til rannsóknar og sendi það svo áfram til héraðssaksóknara í byrjun maí.

Nú í byrjun desember var síðan greint frá því að konan yrði ekki ákærð. Hún hyggst stefna íslenska ríkinu vegna málsins sem og fjölmiðlum og einstaklingum. Lögmaður hennar segir segir mikla vinnu framundan að hreinsa mannorð skjólstæðings síns.

Alls greindust sjö af ellefu íbúum á Bergi með Covid-19. Tveir þeirra létust af völdum sjúkdómsins. Af þrjátíu starfsmönnum hjúkrunarheimilisins smituðust átta af veirunni.

Í þræði forstjóri HVEST á Twitter í lok apríl kom fram að alls hefðu 6% íbúa Bolungarvíkur smitast af veirunni.

Hápunktinum náð í fyrstu bylgjunni

Á meðan ástandið var sem alvarlegast á Bergi var staðan einnig slæm á landsvísu. 3. apríl tilkynnti Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, að hún myndi fara að tillögu sóttvarnalæknis og framlengja samkomubannið til 4. maí.

„Þótt vel hafi gengið að halda útbreiðslu smita í skefjum veldur áhyggjum hve alvarlega veikum einstaklingum sem þurfa á gjörgæslu að halda hefur fjölgað hratt,“ sagði í tilkynningu á vef ráðuneytisins.

Þennan dag voru alls 45 manns á sjúkrahúsi vegna Covid-19, þar af 12 á gjörgæslu og af þeim níu í öndunarvél að því er fram kom á daglegum upplýsingafundi almannavarna og landlæknis.

Þann 5. apríl náði faraldurinn síðan hámarki sínu þegar litið er til virkra smita samkvæmt tölulegum upplýsingum á covid.is.

Þann dag voru 1.096 einstaklingar með virkt smit en 460 höfðu náð bata. Fleiri en 1.500 höfðu því greinst með kórónuveiruna hér á landi. Degi síðar var svo greint frá sjötta dauðsfallinu vegna Covid-19.

Þann sama dag, 6. apríl, var einnig greint frá því að tvö andlát væru rannsökuð sem sakamál. Annars vegar var karlmaður úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um að hafa orðið sambýliskonu sinni að bana á heimili þeirra í Sandgerði í lok mars.

Hins vegar var karlmaður um þrítugt úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um að hafa orðið móður sinni að bana í heimahúsi í Hafnarfirði í byrjun apríl. Hafa mennirnir báðir verið ákærðir fyrir manndráp.

Á daglegum upplýsingafundi almannavarna og landlæknis þann 8. apríl sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, síðan frá því að hann teldi hápunkti faraldursins náð. Fleiri næðu sér nú af smiti en þeir sem væru að greinast með veiruna á hverjum degi.

Á sama fundi benti Alma Möller, landlæknir, á að þótt toppi faraldursins væri náð í smitum yrði toppnum í heilbrigðiskerfinu ekki náð fyrr en eftir viku til tíu daga.

„Ferðumst innanhúss“

Skírdag bar upp á 9. apríl í ár. Eins og áður segir höfðu yfirvöld hvatt landsmenn til þess að vera ekki á faraldsfæti um páskana til að koma í veg fyrir aukið álag á heilbrigðiskerfið.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, biðlaði til þjóðarinnar að ferðast innanhúss um páskana, með öðrum orðum að halda sig heima.

Þrátt fyrir fréttir um að margir væru til dæmis í sumarbústöðum í Bláskógabyggð yfir páskana þá benti til að mynda umferðin út úr höfuðborginni til þess að fleiri héldu sig nú heima í páskafríinu en undanfarin ár.

Lögreglan sagði umferðina út úr borginni í aðdraganda páska þannig hafa verið töluvert minni en í fyrra. Víðir var því ánægður með landsmenn að lokinni páskahelginni og sagði allt hafa gengið vel.

„Það voru engin stórslys og ekkert sem gerðist sem jók álagið á heilbrigðiskerfið. Það var það sem maður var að leitast eftir og auðvitað er maður bara alsæll með það að þetta hafi gengið. Við höfðum verulegar áhyggjur af þessu fyrir páska eins og kom skýrt fram að ef eitthvað myndi ganga á þannig að kerfið myndi fá meira álag sem það má ekki við,“ sagði Víðir í viðtali að morgni 14. apríl.

Þríeykið á einum af þeim tugum upplýsingafunda sem haldnir hafa verið vegna kórónuveirufaraldursins.Vísir/Vilhelm

Hefðbundið skólahald og slakað á heimsóknarbanni

Síðar þann sama dag boðaði ríkisstjórnin til blaðamannafundar þar sem hún tilkynnti um fyrstu skrefin varðandi tilslakanir á samkomubanninu.

Þá voru 641 einstaklingur með virkt kórónuveirusmit. Alls 1.078 höfðu náð sér eftir að hafa smitast en átta höfðu látist eftir að hafa fengið Covid-19.

Tilslakanirnar sem ríkisstjórnin kynnti fólu meðal annars í sér að fjöldamörk samkomubanns yrðu hækkuð úr 20 í 50 manns, opnað yrði fyrir hefðbundið skólahald í leik- og grunnskólum, framhalds- og háskólar yrðu opnaðir með takmörkunum og ýmis þjónustustarfsemi yrði leyfð á ný, til að mynda starfsemi hárgreiðslustofa, tannlækna og nuddara.

Sundlaugar, líkamsræktarstöðvar, barir og skemmtistaðir yrðu þó áfram lokaðir. Breytingarnar skyldu taka gildi þann 4. maí.

Þá var jafnframt lagt til í minnisblaði sóttvarnalæknis, sem tillögur heilbrigðisráðherra um tilslakanir samkomubannsins byggðu á, að fjöldasamkomur hér á landi yrðu takmarkaðar við að hámarki 2.000 manns að minnsta kosti út ágúst. Eins og við þekkjum nú fór fjöldatakmörkunin aldrei upp í svo háa tölu.

Tveimur dögum eftir að fyrstu tilslakanir voru kynntar bárust fréttir af því að stefnt væri á að aflétta heimsóknarbanni á hjúkrunar- og dvalarheimilum þann 4. maí. Ströng skilyrði yrðu þó fyrir heimsóknum á heimilin.

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, sagði í samtali við fréttastofu að heimsóknarbannið, sem þá hafði varað í 40 daga, hefði verið mörgum mjög þungbært en það hefði þó verið algjörlega nauðsynleg ráðstöfun.

Væntingar og vonbrigði

Á þessum tíma, um miðjan apríl, var ljóst að faraldurinn sjálfur var á niðurleið. Áhrif hans á samfélagið, og þá ekki hvað síst á efnahagslífið, voru hins vegar langt í frá hverfandi og sér í raun ekki fyrir endann á þeim.

Þegar ríkisstjórnin kynnti fyrsta aðgerðapakka sinn í mars lá fyrir að nauðsynlegt yrði að ráðast í frekari aðgerðir. Algjört tekjufall hafði orðið í ferðaþjónustunni og hjá mörgum öðrum fyrirtækjum sem hafði verið gert að loka vegna faraldursins.

Icelandair boðaði frekari uppsagnir í apríl og Bjarnheiður Halldórsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, varaði því að meirihluti ferðaþjónustufyrirtækja færu í þrot ef ekki kæmu til sértækari aðgerðir til handa greininni.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kynnir aðgerðapakka tvö í Safnahúsinu í apríl.Vísir/Vilhelm

Þann 21. apríl kynnti ríkisstjórnin svo aðgerðapakka tvö. Kostnaður við pakkann í heild sinni var áætlaður um 60 milljarðar.

Aðgerðirnar fólu meðal annars í sér styrki til fyrirtækja sem hafði verið gert að loka vegna faraldursins og hagstæð lán til meðalstórra fyrirtækja. Þá yrðu fjármunir settir í að skapa sumarstörf fyrir námsmenn og 8,5 milljörðum skyldi varið í félagslegar aðgerðir vegna viðkvæmra hópa.

Væntingarnar til þessa aðgerðapakka voru miklar, ekki hvað síst innan ferðaþjónustunnar, en forsvarsmenn fyrirtækja í greininni lýstu miklum vonbrigðum með pakkann.

Kölluðu þeir eftir svörum frá stjórnvöldum um framhald hlutabótaleiðarinnar og hvort að ríkið hygðist greiða hluta launa starfsfólks á uppsagnarfresti svo að fyrirtæki sem hefðu orðið fyrir nánast algjöru tekjufalli gætu farið í nokkurs hýði á meðan það versta gengi yfir. Lagði ferðaþjónustan áherslu á að fá svör fyrir mánaðamótin apríl/maí.

Stærsta hópuppsögn Íslandssögunnar

Viku eftir að aðgerðapakki tvö var kynntur, eða þann 28. apríl, blés ríkisstjórnin til blaðamannafundar og kynnti aðgerðapakka þrjú.

Í honum fólst að hlutabótaleiðin var framlengd til ágústloka en útfærslunni breytt. Þá gátu fyrirtæki sem orðið höfðu fyrir 75% tekjuskerðingu eða meira sótt um stuðning frá ríkinu til greiðslu hluta launa fólks sem sagt væri upp störfum vegna kórónuveirufaraldursins.

Einnig voru boðaðar einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sem myndu miða að því að þau gætu komist í skjól með einföldum hætti.

Aðgerðirnar veittu fyrirtækjum í ferðaþjónustu von sagði Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Nordic Visitor, í samtali við fréttastofu.

„Þessi björgunarpakki ríkistjórnarinnar veitir fyrirtækjum í ferðaþjónustu von sem var að slökkna bara í gær. Auðvitað hjálpar þetta ekki öllum en þetta mun koma mörgum til bjargar,“ sagði Ásberg í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Um tveimur klukkutímum eftir að ríkisstjórnin kynnti aðgerðir sínar sendi Icelandair frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að 2.140 starfsmönnum fyrirtækisins yrði sagt upp. Þar af voru 897 flugfreyjur og þjónar.

Þeir sem myndu áfram starfa hjá félaginu væru langflestir í skertu starfshlutfalli og aðrir í fullu starfi með skert laun. Samhliða var ráðist í breytingar á skipulagi félagsins og daginn eftir bárust fregnir af því að fyrirtækið ætlaði að sækja sér allt að 29 milljarða króna í nýju hlutafjárútboði.

Ein af þotum Icelandair á Keflavíkurflugvelli en þær eru flestar ekki í notkun vegna mikilla ferðatakmarkana sem eru gildi út af veirunni.Vísir/Vilhelm

Staðan í atvinnumálum verst á Suðurnesjum

Hópuppsögn Icelandair er stærsta hópuppsögn Íslandssögunnar. 29. apríl bárust Vinnumálastofnun síðan fimmtán tilkynningar um hópuppsagnir þar sem 700 til 800 manns misstu vinnuna, langflestir starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækja. Þá þegar voru alls um 50.000 manns á atvinnuleysisbótum eða hlutaatvinnuleysisbótum.

Alls bárust Vinnumálastofnun 56 tilkynningar um hópuppsagnir í apríl þar sem 4.643 starfsmönnum var sagt upp störfum. Það bættist ofan á hópuppsagnir marsmánaðar þegar 29 fyrirtæki sögðu upp 1207 manns.

Samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn sem gefin var út í maí fór heildaratvinnuleysi í apríl upp í 17,8% samanlagt, það er 7,5% atvinnuleysi í almenna bótakerfinu og 10,3% vegna minnkaðs starfshlutfalls.

Staðan var verst á Suðurnesjum eða eins og sagði í skýrslu Vinnumálastofnunar:

„Atvinnuleysi fór í 25,2% á Suðurnesjum í apríl og fór úr 14,1% í mars. Það skiptist þannig að almennt atvinnuleysi er 11,2% og atvinnuleysi sem tengist minnkaða starfshlutfallinu er 14,0%.

Atvinnuástand á Suðurnesjum er sýnu verst á landinu enda hefur flugstarfsemi og ferðaþjónusta meira vægi í atvinnulífi Suðurnesja en í öðrum landshlutum.“

Greiddu arð, keyptu eigin bréf og nýttu hlutabótaleiðina

Líkt og tölur Vinnumálastofnunar báru með sér voru tugir þúsunda vinnandi fólks á hinni svokölluðu hlutabótaleið. Meira en 6.000 fyrirtæki höfðu nýtt sér leiðina en það var ekk óumdeilt hvaða fyrirtæki nýttu sér úrræðið og með hvaða hætti.

Þegar lög um hlutabætur voru sett var úrræðið haft opið og engin ákvæði til að mynda í lögunum um að fyrirtæki sem höfðu greitt sér arð eða keypt eigin hlutabréf, með öðrum orðum stöndug fyrirtæki, gætu ekki sett fólk á hlutabætur og látið ríkið greiða þannig launakostnaðinn á móti sér.

Össur var eitt þeirra fyrirtækja sem sættu gagnrýni fyrir að hafa nýtt sér hlutabótaleiðina skömmu eftir að eigendum fyrirtækisins var greiddur út arður.Vísir/Vilhelm

Þó var ljóst, og kemur skýrt fram í greinargerð frumvarps um hlutabætur, að úrræðið var fyrst og fremst hugsað fyrir fyrirtæki sem ættu við tímabundinn rekstrarvanda að etja vegna kórónuveirunnar. Er í greinargerðinni til að mynda sérstaklega vikið að ferðaþjónustunni.

Það vakti því töluverða reiði þegar greint var frá því fyrir um tveimur vikum að fyrirtæki sem standa að flestu leyti vel hefðu nýtt sér hlutabótaleiðina; jafnvel sett yfir 100 starfsmenn á hlutabætur en greitt sér út arð eða keypt eigin bréf skömmu áður.

Þannig setti Össur 165 starfsmenn á hlutabætur en á aðalfundi þann 12. mars hafði verið ákveðið að greiða eigendum 1,2 milljarða í arð. Þá var starfshlutfall um helmings starfsmanna Skeljungs lækkað en félagið greiddi hluthöfum sínum 600 milljóna króna arð í aprílbyrjun og keypti eigin bréf fyrir 186 milljónir í sama mánuði.

Hagar nýttu sér einnig hlutabótaleiðina en höfðu keypt eigin bréf fyrir meira en 400 milljónir króna frá því í lok febrúar. Festi hf. nýtti sér einnig úrræði en gert er ráð fyrir 7,3 milljarða rekstrarhagnaði á árinu hjá fyrirtækinu. Eggert Þór Kristófersson, forstjóri félagsins, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hann gerði ekki ráð fyrir því að Festi myndi hætta að nýta sér úrræðið.

Óþolandi að sjá fyrirtæki misnota aðstoð stjórnvalda

Bæði verkalýðshreyfingin og ráðherrar gagnrýndu stöndug fyrirtæki fyrir að nýta sér hlutabótaleiðina. Sagði Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, algjörlega óþolandi að sjá fyrirtæki misnota aðstoð stjórnvalda og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði fyrirtækin reka rýting í samstöðuna sem stjórnvöld væru að kalla eftir.

„Fyrirtæki sem augljóslega eru fjárhagslega sterk og geta verið að dreifa peningum til hluthafa sinna, þau eiga ekki að hafa það sem sitt fyrsta úrræði að leita til ríkisins til þess að standa undir launakostnaði starfsmanna sinna,“ sagði Bjarni í samtali við fréttastofu þann 8. maí.

Daginn áður hafði Skeljungur tilkynnt að félagið ætlaði að hætta að nýta hlutabótaleiðina. Starfsmenn yrðu ráðnir aftur í fullt starf og Vinnumálastofnun fengi bæturnar endurgreiddar.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, koma af ríkisstjórnarfundi.Vísir/Vilhelm

Fleiri fyrirtæki fylgdu í kjölfarið, þar á meðal Hagar, Festi og Össur. Össur og Hagar tilkynntu að þau ætluðu að hætta að nýta úrræðið og endurgreiða bæturnar. Festi tilkynntu einnig að þau ætluðu ekki að nýta hlutabótaleiðina lengur og sagði forstjórinn í samtali við Vísi að fyrirtækið hefði haft samband við Vinnumálastofnun með það fyrir augum að endurgreiða bæturnar.

Kaupfélag Skagfirðinga, Iceland Seafood og Samherji tilkynntu öll að þau myndu endurgreiða Vinnumálastofnun og stjórnendur Origo ákváðu að hætta að nýta hlutabótaúrræðið. Sú ákvörðun gilti afturvirkt.

Esja Gæðafæði ákvað jafnframt að hætta að nýta sér úrræðið og endurgreiða Vinnumálastofnun og það sama gilti um dótturfélög útgerðafélagsins Brim sem nýttu úrræðið.

Eins og áður segir var hlutabótaleiðin framlengd en í lögum þess efnis voru sett skilyrði fyrir því að þau fyrirtæki sem nýttu sér úrræðið myndu til dæmis ekki greiða sér arð eða kaupa eigin hlutabréf á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2022.

Loksins klipping og sund

Á meðan enn hrikti í stoðum íslensk efnahagslífs í maí bárust jákvæðari fréttir af þróun faraldursins. Smitum fór fækkandi og þann 4. maí tóku fyrstu tilslakanir á samkomubanninu gildi.

Þann dag komust landsmenn loks í klippingu eftir sex vikna lokun. Ekki seinna vænna að létta á lubbanum fyrir sumarið. Þá var líka opnað fyrir hefðbundið skólahald í leik- og grunnskólum og íþróttastarf barna og unglinga var leyft utandyra.

Þvílík hamingja, ekki aðeins hjá börnunum heldur líka fyrir foreldrana sem síðustu vikur höfðu þurft að sinna vinnunni heima, jafnvel kennslu og svo að finna upp á einhverju að gera í heimsfaraldri þar sem nánast allt var lokað.

Tveimur vikum seinna voru sundlaugar opnaðar á ný, þjóðinni til það mikillar gleði að boðið var upp á miðnæturopnun í sundlaugum, meðal annars í Reykjavík og á Selfossi, og komust færri að en vildu vegna fjöldatakmarkana.

Viku síðar opnuðu líkamsræktarstöðvar á ný, samkomubannið fór úr fimmtíu í 200 manns og viti menn, djammið opnaði líka en það mátti bara vera opið til 23. Þá var einnig farið af neyðarstigi almannavarna vegna veirunnar og yfir á hættustig. Afar fáir höfðu greinst með veiruna undanfarnar vikur.

Daglegt líf var ekki komið í þær eðlilegu skorður sem við þekktum fyrir 28. febrúar en þetta var allavega eitthvað.

Erfitt var að komast til útlanda vegna ferðatakmarkana og því lagðist landinn í ferðalög innanlands sem stjórnvöld hvöttu sérstaklega til með svokallaðri ferðagjöf.

Án þess að Vísir hafi gert á því vísindalega könnun þá heyrir það örugglega til undantekninga að hafa ekki lagt land undir fót í sumar.

Ferðagleðin endurspeglaðist á samfélagsmiðlum sem voru undirlagðir af myndum frá Stuðlagili, Fimmvörðuhálsi og Húsavík svo nokkrir af vinsælli áfangastöðum sumarsins séu nefndir.

80 prósent samdráttur í komum erlendra ferðamanna

Á móti kom gríðarlegur samdráttur í komum erlendra ferðamanna vegna faraldursins. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu fækkaði erlendum ferðamönnum yfir sumartímann um 80 prósent á milli ára með tilheyrandi erfiðleikum fyrir fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki um allt land og sögulega miklu atvinnuleysi.

Einhverjir ferðamenn komu þó til landsins í sumar eftir að boðið var upp á skimun fyrir veirunni á landamærum í stað tveggja vikna sóttkvíar frá 15. júní.

Á tímabili voru meira að segja ferðamenn frá tilteknum löndum undanþegnir kröfum um skimun og sóttkví en eftir að bakslag kom í faraldurinn var tvöföld sýnataka tekin upp á landamærunum þann 19. ágúst. Eru þær reglur enn í gildi.

Landið var opnað fyrir ferðamönnum í sumar en með töluverðum takmörkunum þó.Vísir/Vilhelm

Þúsund manna fjöldatakmörkun í kortunum

Þegar best lét í sumar máttu allt að 500 manns koma saman. Þá var skilgreiningu tveggja metra reglunnar breytt þannig að hún var í raun ekki lengur skylda heldur var horft til þess að vernda þá sem væru viðkvæmir og skapa þeim sem kusu aðstæður til að viðhalda tveggja metra reglu.

Knattspyrnuunnendur gátu mætt á völlinn og það mátti halda tónleika og leiksýningar, þótt það hafi kannski ekki verið mikið um það.

Útlitið var gott um miðjan júlí, svo gott að engin virk innanlandssmit voru í samfélaginu frá 17.-22. júlí. Þann 17. júlí lagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, til í minnisblaði til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, að fjöldatakmörkun færi úr 500 manns í þúsund.

Þá lagði hann einnig til að opnunartími skemmti- og vínveitingastaða yrði lengdur til klukkan 24. Áttu þessar breytingar að taka gildi þann 4. ágúst.

Konur á gangi með grímur við Sæbraut í sumar. Þá var ekki grímuskylda en það styttist í að hún yrði tekin upp þar sem ekki var hægt að tryggja fjarlægðarmörk.Vísir/Vilhelm

„Græna veiran“ komst á kortið

En babb kom í bátinn. Tíu dögum eftir að fyrrnefnt minnisblað var sent barst ráðherra annað minnisblað frá Þórólfi.

Þar lagði hann til að breytingum á samkomubanni og opnunartíma skemmti- og vínveitingastaða yrði frestað til 18. ágúst.

Vísaði Þórólfur til þess að undanfarna daga hefðu „innflutt smit“ greinst í vaxandi mæli og að dreifing hefði orðið innanlands. Enginn hefði hins vegar veikst alvarlega og enginn lagst inn á sjúkrahús.

Samkvæmt tölfræðiupplýsingum á covid.is greindust tíu með virk smit á landamærunum frá 18.-30. júlí. Þar af var einn sem greindist með virkt smit í seinni skimun.

Frá 2. júlí hafði enginn greinst með veiruna innanlands en vikuna 23.-30. júlí greindust alls 38 innanlandssmit, eða á bilinu tveir til tíu á dag.

Þar á meðal var sérstakt afbrigði veirunnar sem greindist fyrst í Kópavogi þann 25. júlí og var kallað „græna veiran“ þar sem afbrigðið fékk grænan lit hjá rakningarteymi almannavarna. Græna veiran átti eftir að valda nokkrum usla en féll þó í skuggann með haustinu af „bláu veirunni“.

Það hefur ekki mátt spila knattspyrnu lungann úr árinu og á endanum fór það svo að Íslandsmótið í knattspyrnu var blásið af.Vísir/Vilhelm

Engin knattspyrna með tveggja metra reglu

Þann 29. júlí barst heilbrigðisráðherra minnisblað frá sóttvarnalækni þar sem lagðar voru til harðari sóttvarnaaðgerðir.

Hópsýking hafði komið upp á Akranesi vegna „grænu veirunnar“ og verslunarmannahelgin var handan við hornið.

Höfðu almannavarnir og sóttvarnayfirvöld áhyggjur af því að faraldurinn færi úr böndunum með tilheyrandi ferðalögum milli landshluta og hópamyndunum. Við það myndi skapast hætta á að smit dreifðist frekar í samfélaginu.

31. júlí, á föstudeginum um verslunarmannahelgi, tóku því hertar samkomutakmarkanir gildi. Tveggja metra reglan var aftur tekin upp, aðeins máttu hundrað manns koma saman í stað 500 og grímuskyldu var komið á þar sem ekki var hægt að tryggja tvo metra á milli fólks.

Á frídegi verslunarmanna, þann 3. ágúst, var farið að tala um að önnur bylgja faraldursins væri hafin hér á landi og samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum er miðað við að hún hafi byrjað um miðjan júlí.

Breytingar á samkomutakmörkunum höfðu til dæmis áhrif á Íslandsmótið í knattspyrnu þar sem ekki er hægt að leika fótbolta með tveggja metra reglu í gildi.

Knattspyrnusamband Íslands sótti um undanþágu til heilbrigðisráðuneytisins til að geta haldið Íslandsmótinu áfram en beiðninni var hafnað. Íslandsmótinu var því frestað til og með 13. ágúst þegar von var á nýjum reglum.

Þá höfðu breytingarnar einnig áhrif á ferðaplön margra um verslunarmannahelgina. Þannig þurfti að vísa mörgum frá tjaldsvæðinu á Akureyri vegna mannmergðar og takmarkana. Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri tjaldsvæða Skátanna á Akureyri, gagnrýndi yfirvöld fyrir stuttan fyrirvara um hertar aðgerðir.

Það var síðan auðvitað engin þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Einhverjir létu þó veiruna ekki stoppa sig í að skjótast yfir með Herjólfi en í vikunni eftir verslunarmannahelgina kom svo upp hópsýking hjá fólki sem verið hafði í Eyjum. Sóttvarnalæknir sagði þetta sýna hættuna af hópamyndun.

Frá ríkisráðsfundi á Bessastöðum fyrr í haust. Í sumar þurftu allir ráðherrarnir nema þau Ásmundur Einar Daðason og Svandís Svavarsdóttir að fara í skimun og viðhafa smitgát eftir að hópsýking kom upp á Hótel Rangá.Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin í skimun eftir smit á Hótel Rangá

Þann 14. ágúst voru svo gerðar breytingar á samkomutakmörkunum. Þær fólu það í sér að leyfilegt varð að hafa eins metra reglu á milli einstaklinga í framhalds- og háskólum án þess að bera grímu og þá voru snertingar milli íþróttafólks heimilar í æfingum og keppnum.

Þetta þýddi að Íslandsmótið í fótbolta gat til að mynda hafist á ný. Þennan dag voru 90 manns með virk innanlandssmit.

Þann 19. ágúst voru síðan gerðar breytingar á reglum á landamærunum sem enn eru í gildi og verða að óbreyttu í gildi fram í febrúar.

Allir farþegar sem koma til Íslands skulu velja á milli þess að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með fimm daga sóttkví á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir, eða sleppa sýnatöku og vera í 14 daga sóttkví frá komunni til landsins.

Áður en þessar reglur tóku gildi hafði Íslendingum og öðrum sem búsettir eru hér á landi verið gert að fara í tvöfalda skimun, sem og þeim sem komu frá áhættusvæðum.

Daginn eftir, þann 20. ágúst, var síðan greint frá því að smit hafði komið upp hjá starfsmanni Hótels Rangár. Hótelinu var í kjölfarið lokað en ríkisstjórnin hafði borðað hádegismat þar tveimur dögum áður en starfsmaðurinn greindist. Hann hafði þó ekki sinnt ráðherrunum.

21. ágúst var ákveðið að ríkisstjórnin færi í skimun vegna smitsins og viðhefði smitgát þar til niðurstöður lægju fyrir. Enginn ráðherranna reyndist smitaður en hins vegar varð ljóst eftir því sem dagarnir liðu að upp var komin hópsýking í tengslum við Hótel Rangá.

Myndin er tekin í miðbæ Reykjavíkur í ágúst síðastliðnum þegar sólin skein og það máttu mun fleiri koma saman en tíu manns líkt og nú er.Vísir/Vilhelm

Umdeildur vinkonuhittingur ráðherra

Helgina áður en ríkisstjórnin fór til funda á Suðurlandi og snæddi hádegisverð á Hótel Rangá og daginn eftir að tilkynnt var um hertar aðgerðir á landamærunum fór Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í vinkonuhitting.

Myndir birtust af hittingnum á samfélagsmiðlum þar sem þær sátu þétt saman og var mikið rætt um hann og ritað enda töldu einhverjir ráðherrann og vinkonur hennar hafa brotið reglur um fjarlægðarmörk.

Í samtali við Vísi sagði Þórdís hópinn hafa verið mjög meðvitaðan um sóttvarnareglur og einstaklingsbundnar smitvarnir. Í yfirlýsingu vegna málsins sagði Þórdís síðan að það hefði verið einfaldara að hitta vinkonurnar ekki.

Skjáskot af myndunum fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem fólk gagnrýndi skort á tveggja metra fjarlægðarmörkum.

Þórólfur sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi að hann teldi Þórdísi og vinkonuhópinn ekki hafa brotið reglur.

Vísaði hann í að auglýsing yfirvalda um sóttvarnareglur segðu ekki til um að tveir einstaklingar sem ekki deildu sama heimili þyrftu að viðhalda tveggja metra fjarlægð heldur þyrftu rekstraraðilar að tryggja að fólk gæti fengið sína tvo metra.

„Hún var takt­laus og mis­tök, svona eftir á að hyggja. Mynd­málið var þannig og tíma­setn­ingin rétt eftir að til­kynnt var um afdrifa­ríkar ákvarð­anir um komur til lands­ins,“ sagði Þórdís Kolbrún síðan í samtali við Morgunblaðið í byrjun október um myndirnar sem birtust úr hittingnum.

Þurfti að fresta skólasetningu vegna grænu veirunnar

Veiruafbrigðið sem greindist á Hótel Rangá reyndist vera það sama og hafði greinst í hópsýkingunni á Akranesi, græna veiran. Hafði hópsýkingin sem kom upp á hótelinu meðal annars áhrif á starfsemi Hins hússins og Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla.

Starfsmaður Hins hússins greindist með veiruna svo loka þurfti húsinu og helmingur starfsmanna fór í sóttkví.

Þá reyndist sameiginlegur starfsmaður Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla smitaður af veirunni. Þurfti að fresta skólasetningu skólanna þar sem allir starfsmenn voru sendir í sóttkví vegna smitsins.

Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna og sóttvarnalæknis sagði í viðtali við fréttastofu 25. ágúst að 24 einstaklingar hefðu greinst smitaðir í tengslum við Hótel Rangá. Þá hefði græna veiran skotið upp kollinum um allt land frá 25. júlí.

„Hópur sem meðal annars tengist hóteli, hann telur núna um það bil 24, en þetta er hópur sem hefur margar staðsetningar. Það er í rauninni engin ein staðsetning,“ sagði Jóhann Björn.

Alls greindust 63 einstaklingar með Covid-19 í tengslum við hópsýkinguna á Hótel Rangá. Græna veiran hefur ekki greinst hér á landi síðan 6. október en raðgreining Íslenskrar erfðagreiningar hefur greinst í 231 smiti.

Verulegar tilslakanir á samkomutakmörkunum

Þann 28. ágúst var farið í tilslakanir á samkomutakmörkunum. Tveggja metra reglunni var meðal annars breytt; nú var kveðið á um að tryggja bæri tveggja metra reglu á milli einstaklinga sem ekki væru í nánum tengslum.

Þá voru íþróttir almennt leyfðar og snertingar heimilar á æfingum í sviðslistum og tónlist á sama hátt og í íþróttum.

Þennan dag voru 75 manns með virk innanlandssmit og áttu reglurnar að gilda til 10. september. Smituðum fór hins vegar fækkandi og þann 7. september tóku því enn frekari tilslakanir gildi. 54 voru með virk innanlandssmit.

Það mátti fara í ræktina í sumar og í haustbyrjun.Vísir/Vilhelm

Segja má að þennan mánudag hafi verið slakað verulega á samkomutakmörkunum. Hámarksfjöldi þeirra sem máttu koma saman fór úr 100 manns í 200 manns, eins metra reglan gilti nú fyrir alla og hámarksfjöldi á sund- og baðstöðum og líkamsræktarstöðvum fór úr helmingi af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi upp í 75%.

Íþróttir, sviðslistir og önnur menningarstarfsemi gat jafnframt farið fram þrátt fyrir eins metra reglu, það er snertingar voru leyfðar. Um áhorfendur fór eftir almennum reglum um einn metra og 200 manns í rými. Grímuskylda var í þeim aðstæðum þar sem ekki var hægt að tryggja eins metra fjarlægð.

Þórólfur sóttvarnalæknir var bjartsýnn á upplýsingafundi og sagði að yfirvöld væru að ná tökum á annarri bylgju faraldursins. Tekist hefði að sveigja kúrvuna niður og því mætti þakka aðgerðum sem gripið hefði verið til bæði innanlands og á landamærum.

Ungstirni enska landsliðsins brutu sóttkví

En þessar tilslakanir á samkomutakmörkunum voru ekki stærsta fréttin mánudaginn 7. september heldur sóttkvíarbrot ensku landsliðsmannanna í fótbolta Mason Greenwood og Phil Foden.

Greenwood og Foden höfðu verið í landsliðshópi Englendinga sem mætti Íslendingum í Þjóðardeildinni laugardaginn 5. september.

Af sóttvarnaástæðum giltu afar strangar reglur um veru enska landsliðsins hér á landi í tengslum við leikinn. Þannig áttu leikmenn og starfsmenn liðsins að virða sóttkví í hvívetna; ekki fara til dæmis út af hótelinu nema á æfingar og í sjálfan leikinn og ekki fá heimsóknir á hótelið.

Þessar reglur brutu þeir Greenwood og Foden á sunnudagskvöldið þegar þeir buðu íslensku stelpunum Láru Clausen og Nadíu Sif til sín á Hótel Sögu. Lára og Nadía Sif þáðu boðið og sendu vinum sínum myndir og myndbönd frá heimsókninni á samfélagsmiðlum.

Þaðan fór efnið í dreifingu og strax daginn eftir var málið komið í hámæli, ekki bara í íslenskum fjölmiðlum heldur einnig í pressunni úti.

Sóttvarnalæknir sagði að landsliðsmennirnir hefðu klárlega brotið sóttkví með því að fá stelpurnar í heimsókn. Þær Lára og Nadía Sif sögðust ekki hafa áttað sig á því að Foden og Greenwood hefðu verið í sóttkví og heimsóknin því brot á reglum.

Leikmennirnir voru reknir úr landsliðshópnum og sendir heim og íslenska lögreglan tók málið til rannsóknar. Málalyktir urðu þær að Greenwood og Foden voru sektaðir og greiddu 250 þúsund krónur hvor fyrir brot sín.

Þess má svo geta að tveimur mánuðum síðar, eða um miðjan nóvember, sneri Foden aftur í enska landsliðið, gegn Íslandi á Wembley, og sagðist Lára í samtali við Vísi samgleðjast honum.

Um miðjan september kom upp hópsýking sem tengdist skemmtistöðunum Brewdog og Irishman Pub.Vísir/Birgir

Skellt í lás á djamminu

Næstu vikuna greindust ekki margir með kórónuveiruna, eða á bilinu núll til sex dag hvern. Um miðjan september féllst heilbrigðisráðherra síðan á tillögu sóttvarnalæknis þess efnis að fólk gæti lokið sóttkví á sjö dögum ef sannað væri með sýnatöku í lok tímabilsins að engin merki væru um sýkingu af völdum Covid-19. Sú regla er enn við lýði.

Það er oft sagt að vika sé langur tími í pólitík og þegar rýnt er í sögu Covid-19 má segja það sama um faraldurinn. Rúmri viku eftir að slakað var töluvert á samkomutakmörkunum kom nefnilega í ljós að stór hópsýking var komin upp á höfuðborgarsvæðinu.

Smituðum fór hratt fjölgandi; þann 17. september greindust 21 með veiruna innanlands og daginn eftir greindust 75. Þriðjung þeirra smita mátti rekja til skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu.

Hópsýking kom upp sem tengdist skemmtistöðunum Irishman Pub og Brewdog í miðbæ Reykjavíkur.

Biðlaði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, til þeirra sem höfðu verið á Irishman Pub föstudagskvöldið 11. september að fara í sýnatöku ef þeir höfðu þá ekki þegar gert það eða voru komnir í sóttkví.

Þá voru viðskiptavinir Brewdog dagana 11. og 12. september einnig hvattir til að fara í skimun eftir að í ljós kom að starfsmaður þar greindist með veiruna. Var talið að hann hefði smitast af viðskiptavini.

Vegna þess hve mikinn fjölda nýgreindra smita mátti rekja til skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu var brugðið á það ráð að loka krám og skemmtistöðum tímabundið frá 18. september til 21. september. Sú lokun var síðan framlengd og fengu staðirnir ekki að opna aftur fyrr en þann 28. september. Þá voru meira en 500 manns með virk innanlandssmit.

Ekki sanngjarnt að kenna frönsku ferðamönnunum um

Þriðja bylgja faraldursins var hafin. Miðað er við að hún hafi byrjað 15. september. Raðgreining veirunnar á þeim sem smituðust þarna í seinni hluta september leiddi í ljós að langflestir voru með veiruafbrigði sem fyrst greindist í tveimur frönsku ferðamönnum sem komu til landsins um miðjan ágúst.

Afbrigðið fékk bláan lit hjá rakningarteyminu og hefur því gengið undir nafninu „bláa veiran“ en einnig verið kallað „franska veiran.“

Í ljós kom að frönsku ferðamennirnir höfðu ekki gætt ítrustu sóttvarnaráðstafana á meðan þeir dvöldu hér á landi. Þeir rufu hins vegar ekki einangrun og voru brot þeirra ekki talin það alvarleg að þá þyrfti að sekta, líkt og heimilt er ef sóttvarnalög eru brotin.

Fjallað var um frönsku ferðamennina tvo í erlendum fjölmiðlum og þá gjarnan með vísun í viðtal á Vísi við Þórólf Guðnason, sóttvarnalækni, frá 21. september. Þar kom fram að ferðamennirnir hefðu brotið sóttvarnareglur og nú hefðu yfir 100 smitast af veirunni.

Franska fréttastofan AFP ræddi við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um málið. Hann sagði ósanngjarnt að skella skuldinni á ferðamennina tvo.

Þeir hefðu ekki rofið einangrun og það væri hugsanlegt, og jafnvel líklegra, að aðrir sem voru um borð í sömu flugvél hafi verið sýktir en veiran ekki greinst hjá þeim við landamæraskimun.

Þá sagði í svari almannavarna við fyrirspurn fréttastofu nú í nóvember að ekki væri hægt að fullyrða að þessi veirustofn hefði komið með þessum tilteknu ferðamönnum. Þá væri ekki hægt að útiloka að stofninn hafi borist hingað til lands með öðrum.

„Eins og greint hefur verið frá áður höfðu ferðamennirnir verið á ferðinni og ekki farið eftir sóttvarnarleiðbeiningum til fulls. Málið var unnið í samvinnu við ferðamennina með leiðbeiningum sem þau skildu ekki,“ sagði í svari almannavarna.

Fjölmargir landsmenn ættu að kannast við þá tilfinningu að fá sýnatökupinna upp í nefið. Ekki beint það þægilegasta.Vísir/Vilhelm

Samkomutakmarkanir hertar til muna

Daginn sem skemmtistaðir og barir fengu að opna aftur greindust 32 kórónuveirusmit innanlands. Fimm lágu á Landspítalanum vegna Covid-19, þar af einn á gjörgæslu.

Næstu daga fór smitum fjölgandi jafnt og þétt auk innlagna á spítalann. Þannig greindi Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, frá því 1. október að þessa dagana legðist að meðaltali inn sjúklingur með Covid-19 á tólf tíma fresti. Sagði forstjórinn um ákveðna holskeflu að ræða. Yfirvöld lýstu því yfir að komandi helgi réði úrslitum varðandi það hvort grípa þyrfti til hertra sóttvarnaaðgerða.

Það dró svo til tíðinda strax á laugardeginum. Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum að setja á tuttugu manna samkomubann um land allt og loka börum, skemmtistöðum og líkamsræktarstöðvum. Eins metra reglan hélst óbreytt. Breytingarnar skyldu taka gildi mánudaginn 5. október. Sama dag var neyðarstigi almannavarna aftur lýst yfir.

Þá voru 728 manns virkt innanlandssmit en 99 manns greindust þennan dag með veiruna. Ekki höfðu greinst fleiri innanlandssmit síðan 1. apríl þegar fyrsta bylgja faraldursins var í hámarki.

Að auki var komin upp hópsýking sem tengdist Hnefaleikafélagi Kópavogs; á fjórða tug nýgreindra smita mátti rekja til æfinga hjá félaginu.

Höfuðborgarsvæðið í sóttkví

Vegna þessarar miklu fjölgunar smita ákváðu yfirvöld að grípa til enn harðari aðgerða. Þær einskorðuðust þó við höfuðborgarsvæðið þar sem mikill meirihluta smitaðra var þar.

Aðgerðirnar voru kynntar 6. október og tóku gildi strax daginn eftir. Segja má að höfuðborgarsvæðið hafi verið sett í sóttkví. Tveggja metra reglan var tekin upp, sundlaugum lokað og hert á grímuskyldu.

Starfsemi sem krefst snertingar eða nálægðar var gerð óheimil. Þannig var til dæmis hárgreiðslu- og snyrtistofum gert að loka sem og nuddurum.

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu voru hvattir til að halda sig heima eins mikið og mögulegt var og til dæmis vinna heima ef slíkt var í boði. Þá var þeim ráðlagt að fara ekki út á land að óþörfu og fólki á landsbyggðinni ráðið frá óþarfa ferðum til borgarinnar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði verulegt áhyggjuefni hvað kórónuveiran hefði náð að dreifa sér í samfélaginu. Full ástæða væri til að óttast veldisvöxt faraldursins.

„Smitin eru að tengjast fjölskyldum, þau eru að tengjast vinnustöðum, gönguhópum, hlaupahópum, það er eitt og eitt að koma upp tengt líkamsræktarstöðvum og ýmis konar afþreyingarstarfsemi sem er í gangi,“ sagði Víðir Reynisson á aukaupplýsingafundi þriðjudaginn 6. október.

Nokkurs ruglings gætti í byrjun október varðandi það hvort íþróttastarf barna væri leyft eða ekki.Vísir/Hanna

Ruglingur og kergja innan íþróttahreyfingarinnar

Helsta óvissan varðandi hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu sneri að íþróttastarfi. Sóttvarnalæknir hafði lagt til við ráðherra að allt íþróttastarf yrði óheimilt en ráðherra heimilaði íþróttastarf utandyra. Bannað var hins vegar að stunda og æfa íþróttir innandyra.

Þetta misræmi olli þó nokkrum ruglingi og kergju innan íþróttahreyfingar og óvissu með íþróttastarf barna. Var það til dæmis gagnrýnt að leyfa ætti knattspyrnu en banna aðrar boltaíþróttir.

Á endanum frestuðu KKÍ og HSÍ öllu mótahaldi í tæpar tvær vikur og KSÍ frestaði sínum mótum í viku. 8. október beindu almannavarnir og sóttvarnalæknir svo þeim tilmælum til íþróttafélaga á höfuðborgarsvæðinu að gera hlé á æfingum og keppnum í öllum íþróttum. Með því lagðist íþróttastarf barna á höfuðborgarsvæðinu af.

Það fór svo að Íslandsmótið í knattspyrnu karla og kvenna hófst ekki að nýju heldur var blásið af þegar enn harðari aðgerðir voru boðaðar í lok október. Valur varð Íslandsmeistari í Pepsi Max-deild karla og Breiðablik í Pepsi Max-deild kvenna.

Þá hafa Íslandsmótin í handbolta og körfubolta ekki rúllað aftur af stað þegar þetta er skrifað en íþróttastarf barna var heimilað á ný þann 18. nóvember.

Landsliðsþjálfararnir Erik Hamrén og Freyr Alexandersson sjást hér fylgjast með leik Íslands og Belgíu á Laugardalsvelli í október. Þeir voru í sóttkví og hefðu með rétt ekki átt að vera á vellinum.Vísir/Vilhelm

Víðir fór út fyrir valdsvið sitt

Næstu daga fór smituðum áfram fjölgandi. Þann 16. október náði faraldurinn hámarki sínu þegar 1186 voru í einangrun með virkt kórónuveirusmit innanlands. Höfðu þeir aldrei verið fleiri síðan veiran greindist fyrst hér á landi í byrjun febrúar.

Rúmri viku áður, 8. október, hafði íslenska landsliðið í knattspyrnu karla mætt því rúmenska á Laugardalsvelli í undanúrslitum í umspili um sæti á EM á næsta ári. Strákarnir okkar höfðu betur og tryggðu sér þar með sæti í úrslitum umspilsins gegn Ungverjum.

Mikil fagnaðarlæti brutust út hjá leikmönnum og starfsmönnum liðsins að loknum Rúmeníuleiknum en fimm dögum síðar var allt starfsliðið komið í sóttkví. Þorgrímur Þráinsson, starfsmaður landsliðsins, hafði greinst með kórónuveiruna.

Leikmenn liðsins þurftu ekki að fara í sóttkví og fór því leikur gegn Belgíu í Þjóðadeildinni fram á Laugardalsvelli 14. október eins og fyrirhugað var.

Þeir Arnar Þór Viðarsson og Davíð Snorri Jónasson stýrðu liðinu í leiknum en Erik Hamrén, landsliðsþjálfari, og Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, fylgdust með leiknum þar sem þeir sátu í glerbúri á Laugardalsvelli. Þeir voru enn í sóttkví.

Í ljós kom að þeir höfðu fengið að mæta á völlinn með leyfi Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns, sem áður hafði starfað sem öryggisstjóri KSÍ.

Á upplýsingafundi daginn eftir leikinn kvaðst Víðir hafa gert mistök með því að veita þjálfurunum þessa heimild. Hann hefði farið út fyrir valdsvið sitt og sagðist ekki myndu koma að fleiri ákvörðunum í faraldrinum sem vörðuðu íþróttamál.

Sóttvarnalæknir kvaðst hins vegar ætla að óska eftir því að Víðir héldi áfram að þeim málum þar sem hann væri ómetanlegur í þeirri vinnu.

Þríeykið Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller kemur hér til blaðamannafundar ríkisstjórnarinnar fyrr í vetur. Með þeim á myndinni er Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarna.Vísir/Vilhelm

22 af 25 skipverjum smitaðir af veirunni

Þann 20. október tóku gildi breytingar á samkomutakmörkunum. Helstu breytingarnar voru þær að tveggja metra reglan var tekin upp um allt land, líkamsræktarstöðvum var leyft að bjóða upp á hóptíma að uppfylltum öllum skilyrðum um takmarkanir og þá varð íþrótta- og æskulýðsstarf barna, sem krafðist snertingar, formlega óheimilt með reglugerð.

Og þó að breytingar á takmörkunum veki alltaf athygli þjóðarinnar á þessum skrýtnu tímum sem við höfum lifað á árinu 2020 þá voru þær ekki aðalfréttamálið í síðari hluta október heldur tvær hópsýkingar sem komu upp, annars vegar á ísfirska togaranum Júlíusi Geirmundssyni og hins vegar á Landakoti.

Fyrst var greint frá smitum á Júllanum, eins og skipið er gjarnan kallað, þann 19. október. Þá bárust fregnir af því meirihluti áhafnarinnar hefði greinst með kórónuveiruna og var á leið inn til hafnar á Ísafirði. Tveimur dögum áður hafði verið komið til hafnar til að taka olíu og þá voru skipverjar skimaðir.

Skipið hafði verið á veiðum í þrjár vikur og nokkrir í áhöfn verið með flensueinkenni á því tímabili. Þegar það kom til hafnar 20. október var greint frá því að nítján af 25 skipverjum hefðu greinst með veiruna. Daginn eftir bættust þrír í hópinn svo alls smituðust 22 úr áhöfninni í túrnum.

Einar Valur Kristjánsson er framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar sem gerir út Júllann. Rætt var við hann fyrir hádegisfréttir Bylgjunnar 21. október.

Aðspurður vildi hann ekki svara því hvers vegna skipinu hafði ekki verið snúið til hafnar um leið og bera fór á veikindum skipverja nokkrum vikum fyrr.

Um kvöldið sendi Hraðfrystihúsið svo frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að kalla hefði átt togarann til hafnar fyrr og senda alla áhöfn skipsins í skimun fyrir kórónuveirunni.

„Það þekkti enginn þetta Covid“

Daginn eftir fengu skipverjarnir að fara frá borði. Þá sendi Sjómannasambandið frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að útgerðin hefði hafnað ítrekuðum beiðnum sóttvarnalæknis um að koma í land vegna veikindanna um borð.

23. október var sagt frá því að skipverjar hefðu margir hverjir verið alvarlega veikir á túrnum, með mikinn hita, öndunarerfiðleika auk fleiri þekktra einkenna Covid-19.

„Þrátt fyrir þessu skýru einkenni um sýkingu töldu hvorki útgerð né skipstjóri ástæðu til að tilkynna um veikindin til sóttvarnaryfirvalda eða Landhelgisgæslu eða halda skipi til hafnar þannig að hægt væri að framkvæma sýnatöku og koma í veg fyrir frekari smit um borð,“ sagði í yfirlýsingu Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Lögreglan tók til skoðunar hvort ástæða væri til að rannsaka málið.

24. október steig svo fyrsti skipverjinn fram, 21 árs gamli hásetinn Arnar Gunnar Hilmarsson. Hann sagði meðal annars að erfitt hefði verið að horfa upp á þá sem veikastir urðu í túrnum. Þá óttaðist hann ekki að missa vinnuna með því að stíga fram; tjáning hans væri verðmætari en starfið.

Daginn eftir barst yfirlýsing frá útgerðinni þar sem beðist var afsökunar á þeim mistökum að láta ekki Landhelgisgæsluna vita þegar veikindi komu upp um borð, líkt og útgerðum ber vegna kórónuveirufaraldursins.

Þá sagði Einar Valur í hádegisfréttum Bylgjunnar að fyrirtækið hefði ekki viðhaft rétta verkferla. Þá hefði enginn þekkt „þetta Covid.“

„Þetta er nýtt. Það þekkti enginn þetta Covid. Við vissum ekki hvað það var. Og þetta er eins og ég segi, fyrsta Covidið sem kemur í fyrirtækið hjá okkur. Við höfum blessunarlega verið laus við þetta og ekki þekkt þetta. Þannig að þetta er okkur öllum mikið áfall og hugur okkar er hjá þeim sem hafa veikst,“ sagði hann.

26. október hóf lögreglan á Vestfjörðum sakamálarannsókn á málinu og daginn eftir tóku síðan fimm stéttarfélög sig saman og kærðu skipstjórann, Svein Geir Arnarsson, sem og útgerðina.

Skýrslutökum lögreglu lauk 28. október og um þremur vikum seinna, þann 17. nóvember, lýstu skipverjar vantrausti á skiptstjórann og kröfðust þess að hann myndi hætta störfum á skipinu.

23. nóvember fór síðan fram sjópróf í málinu fyrir Héraðsdómi Vestfjarða sem ítarlega var fjallað um hér á Vísi.

Tugir sjúklinga og starfsmanna Landakots smituðust í hópsýkingunni sem þar kom upp í október og hafa þrettán látist sem smituðust í henni.Vísir/Vilhelm

Einn viðkvæmasti hópur samfélagsins útsettur fyrir smiti

Þann 22. október kom upp hópsýking á Landakoti en þar eru flestar öldrunarlækningadeildir Landspítalans til húsa. Fljótt varð ljóst að hópsýkingin væri mjög alvarlegur atburður enda er sjúklingahópurinn á Landakoti afar viðkvæmur fyrir kórónuveirunni.

Samkvæmt skýrslu sem tekin var saman um hópsýkinguna greindust alls 98 tilfelli hjá starfsfólki og sjúklingum Landakots á tímabilinu 22.-29. október; 52 starfsmenn greindust smitaðir og 46 sjúklingar.

Allt í allt er talið að rekja megi um 200 smit til sýkingarinnar en smit bárust á aðrar heilbrigðisstofnanir, á hjúkrunarheimilið Sólvelli á Eyrarbakka og Reykjalund.

Þá hafa fjórtán einstaklingar látist sem smituðust af Covid-19 í hópsýkingunni. Þrettán þeirra létust á Landspítalanum og einn á Sólvöllum.

Allt frá því að fyrsta tilfelli kórónuveirunnar greindist hér á landi hefur markmið yfirvalda verið að vernda viðkvæmustu hópana sem og heilbrigðiskerfið.

Það er því ekki skrýtið að áleitnar spurningar hafi vaknað þegar hópsýkingin á Landakoti kom upp enda varð einn viðkvæmasti hópurinn útsettur fyrir smiti og álagið jókst í kjölfarið gríðarlega á Landspítalann.

Neyðarstigi lýst yfir í fyrsta sinn

Þann 25. október var Landspítali færður á neyðarstig í fyrsta sinn í sögu spítalans. Ástæðan var hópsýkingin á Landakoti en 50 sjúklingar og 30 starfsmenn höfðu þá greinst með kórónuveiruna. Spítalinn var undir gríðarlegu álagi.

Neyðarstig er hæsta viðbúnaðarstig Landspítalinn og þýðir að spítalinn ráði ekki við atburðinn án utanaðkomandi aðstoðar. Nauðsynlegt er að virkja spítalann að fullu, eins og segir í viðbragðsáætlun spítalans.

Á upplýsingafundi daginn eftir sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, stjórnendur og starfsfólk þar búa sig undir tvær erfiðar vikur. Alvarleg staða væri uppi á spítalanum og þróun atburðarásarinnar næstu dagi væri þrungin mikilli óvissu.

Páll Matthíasson er forstjóri Landspítalans.Vísir/Egill

Þá þakkaði hann starfsmönnum Landspítalans sem störfuðu við erfiðar aðstæður, sérstaklega á Landakoti.

„Ég vona að samfélagið skilji og meti framlag þessa fólks til þessarar baráttu og prófi að setja sig í þeirra spor,“ sagði Páll.

26. október var öllum valkvæðum og ífarandi aðgerðum á landinu frestað til þess að koma í veg fyrir enn meira álag á Landspítalann.

Hörðustu sóttvarnaaðgerðir til þessa

Fyrsta andlátið tengt hópsýkingunni á Landakoti varð 27. október þegar sjúklingur á Landakoti lést vegna Covid-19. Þetta var tólfta andlátið af völdum Covid-19 hér á landi og annað andlátið í þriðju bylgjunni. Tíu létust í fyrstu bylgjunni í vor.

Á upplýsingafundi 28. október sagði Þórólfur sóttvarnalæknir að við værum „á brúninni“ með að missa tökin á faraldrinum.

86 höfðu þá greinst með veiruna innanlands daginn áður. Þá lágu 58 á sjúkrahúsi vegna Covid-19 og var einn þeirra á gjörgæslu. 954 virk innanlandssmit voru þann 27. október.

Daginn eftir kvaðst heilbrigðisráðherra sjá fram á hertar aðgerðir. Tveimur dögum síðar voru þær hertu aðgerðir kynntar og reyndust þær vera hörðustu sóttvarnaaðgerðir sem stjórnvöld höfðu gripið til. Aðgerðirnar giltu fyrir landið allt enda hafði veiran nú skotið sér niður í flestum landshlutum.

Sett var á tíu manna samkomubann, allt íþróttastarf varð óheimilt og sviðslistir sömuleiðis. Líkamsræktarstöðvum var gert að loka á ný og þá skyldu sundlaugar einnig loka en hingað til hafði sú regla aðeins gilt á höfuðborgarsvæðinu. Veitingastaðir með vínveitingaleyfi máttu ekki loka seinna en 21.

Reglurnar tóku gildi á miðnætti þann 31. október og giltu í tæpar þrjár vikur. Daginn eftir greindi Landspítalinn frá því að tveir sjúklingar hefðu látist vegna Covid-19. Alls höfðu þá fimmtán látist í faraldrinum.

„Þetta er það sem okkar allra besta fólk telur að dugi til að snúa veiruna niður í þessari lotu. En þetta virkar bara ef við snúum bökum saman, sýnum samstöðu og förum eftir reglunum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar þar sem aðgerðirnar voru kynntar.

75 inniliggjandi á Landspítala þegar mest var

Á þessum tímapunkti var hafin rannsókn innan Landspítalans á því hvernig það gerðist að upp kom hópsýking á Landakoti.

Utanaðkomandi aðili var fenginn til að rannsaka málið og sagði Páll forstjóri vinnuna við rannsóknina flókna. Meðal annars þyrfti að taka ítarleg viðtöl við um hundrað manns og rekja alls kyns ferla.

Innlögnum á Landspítala vegna Covid-19 hélt áfram að fjölga og þá létust fleiri af völdum sjúkdómsins næstu daga.

Dagana 6.-7. nóvember náði sjúklingafjöldi á Landspítalanum með Covid-19 hámarki sínu þegar alls 75 lágu inni. Fjórir voru á gjörgæslu, þar af tveir í öndunarvél.

8. nóvember greindi spítalinn frá því að tveir hefðu látist þar vegna Covid-19 og daginn eftir var greint frá þremur andlátum til viðbótar. Alls höfðu nú 23 látist úr sjúkdómnum hér á landi.

Þrettán höfðu dáið í þriðju bylgjunni og mátti rekja tíu þeirra andláta til hópsýkingarinnar að því er fram kom í svari Landspítalans við fyrirspurn Vísis.

„Fullkominn stormur“ á Landakoti

Þann 12. nóvember var Landspítalinn færður af neyðarstigi yfir á hættustig. Var það mat viðbragðsstjórnar og farsóttarnefndar spítalans að tök hefðu náðst á hópsýkingunni þótt hún væri ekki enn yfirstaðin. Þá var einnig talið óhætt að hefja valkvæðar aðgerðir á ný.

Daginn eftir var svo skýrsla spítalans um hópsýkinguna kynnt á blaðamannafundi. Ítarlega var greint frá niðurstöðum skýrslunnar hér á Vísi.

Þar kom fram að „fullkominn stormur“ hafi verið hugtakið sem Lovísa Björk Ólafsdóttir, sérfræðilæknir í smitsjúkdómum og sýkingavörnum, notaði um þær aðstæður sem urðu þess valdandi að hópsýking braust út á Landakoti í október.

Samkvæmt skýrslunni er talið að nokkrar sýkingar, að minnsta kosti þrjár, hafi borist inn á Landakot á skömmu tímabili um miðjan október. Þá voru aðstæður og aðbúnaður á Landakoti til þess fallin að auka líkur á dreifingu Covid-19 meðal starfsfólks og sjúklinga.

Í niðurstöðum skýrslunnar er sérstaklega vikið að loftræstingu húsnæðisins, sem er ekki til staðar nema um glugga, mikinn fjölda sameiginlegra snertiflata dvalargesta, óhagstæðan aðbúnað starfsmanna, ófullnægjandi hólfaskiptingu starfseininga og sameiginleg not á ýmsum tækjabúnaði.

Þannig hafi kæfisvefnsvél verið mögulegur smitvaldur. Einn sjúklingur hafði verið meðhöndlaður með vélinni frá 1. október þar til hópsýkingin uppgötvaðist þremur vikum seinna. Hann var einkennalaus en greindist síðar með Covid-19.

Þar sem sjúkdómurinn smitast meðal annars með úðasmiti er talið mögulegt að smit hafi borist með vélinni.

Ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir hópsýkinguna

Á blaðamannafundinum sagði Páll forstjóri að ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir hópsýkinguna. Þá væri markmiðið með rannsókninni ekki að leita að sökudólgi heldur að læra af málinu og finna leiðir til að koma í veg fyrir að slíkur atburður endurtaki sig.

Embætti landlæknis vinnur að annarri rannsókn á hópsýkingunni á Landakoti. Starfsmenn embættisins sinna rannsókninni auk þess sem Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknir, hefur verið fengið liðs við teymið vegna mikilla anna hjá embættinu.

Komið hefur fram að rannsókn landlæknis á málinu muni taka einhverjar vikur og sagði heilbrigðisráðherra að ekki væri búist við niðurstöðu á þessu ári. Málið væri flókið og mikið álag í heilbrigðisþjónustunni, meðal annars hjá embætti landlæknis.

Mikil áhrif faraldursins á skólastarf

Eins og við var að búast hefur þriðja bylgja faraldursins haft mikil áhrif á skólastarf. Meirihluti framhalds- og háskólanema hefur verið í fjarnámi á þessari önn þar sem ekki hefur verið unnt að sinna kennslu í staðnámi vegna fjöldatakmarkana og fjarlægðarmarka.

Hafa menntamálayfirvöld lagt áherslu á það að reyna að halda úti eins eðlilegu skólastarfi í leik- og grunnskólum eins og mögulegt er.

Þannig hefur ekki verið gripið til þess ráðs, eins og gert var í fyrstu bylgju faraldursins, að skerða skólastarf með þeim hætti að börn mættu bara nokkra klukkutíma í dag í skólann á hverjum degi eða annan hvern dag.

Myndin er tekin í Réttarholtsskóla í haust en grímuskylda er í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum.Vísir/Vilhelm

Á móti kemur að fjöldi nemenda og kennara hefur þurft að fara í sóttkví eftir að smit kom upp í hinum ýmsu skólum, bæði á leik- og grunnskólastigi.

Samkvæmt tölfræði frá smitrakningarteymi almannavarna hafa þannig um tíu þúsund börn á leik- og grunnskólaaldri þurft í sóttkví. Þá hafa 106 börn á aldrinum núll til fimm ára greinst með kórónuveiruna í þriðju bylgjunni og 325 börn á aldrinum sex til fimmtán ára.

Grunnskólabörn hafa síðan þurft að vera með grímur í skólanum samkvæmt reglugerð. Þannig þurftu börn í 5.-10. bekk að vera með grímur í skólanum þar sem ekki var hægt að tryggja tveggja metra fjarlægðarmörk fyrstu tvær vikurnar í nóvember.

Með breytingum á reglugerð var grímuskyldan afnumin fyrir 5.-7. bekk 18. nóvember og þann 10. desember var grímuskyldan svo afnumin í unglingadeildum. 

Gangar Háskóla Íslands hafa verið tómir á þessari haustönn þar sem nánast allt nám hefur verið í fjarnámi.Vísir/Vilhelm

Stúdentar ósáttir við fyrirkomulag prófa

Þá var fyrr í vetur töluvert fjallað um fyrirkomulag lokaprófa við Háskóla Íslands og þá staðreynd að fjölmörg staðpróf fara fram í húsakynnum skólans næstu vikurnar.

Samkvæmt upplýsingum frá skólanum voru alls 460 lokapróf í skólanum nú í desember og af þeim voru 136 staðpróf.

Stúdentar gagnrýndu að skólinn héldi staðpróf í miðjum heimsfaraldri. Stúdentaráð sendi til að mynda frá sér yfirlýsingu í miðjum nóvember þar sem sagði að það væri „ekki boðlegt að neyða nemendur til að taka staðpróf og bjóða ekki upp á aðrar lausnir“.

Þá ræddi Vísir við Helgu Lind Mar, framkvæmdastýru Stúdentaráðs, sem sagði að verið væri að stofna fólki í hættu út af hræðslu við svindl.

Sagði Helga verulega óánægju meðal stúdenta og að verið væri að safna raunverulegum sögum frá fólki í tengslum við faraldurinn og staðpróf HÍ.

„Þetta er fólk með alls konar sögur sem vill ekki þurfa að mæta í húsnæði skólans í desember til að taka próf. Fólk sem hefur ekki farið út úr húsi í allt haust, kannski með mjög alvarlega lungnasjúkdóma. Þetta er fólk sem býr á heimilum með háöldruðum foreldrum sínum sem eru mjög lasnir. Þarna er verið að skylda þau til að taka áhættur sem eru ekki nauðsynlegar,“ sagði Helga Lind.

Innanlandssmitum fór fjölgandi í lok nóvember og byrjun desember og velti Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við HÍ, því upp hvort það þýddi ekki að endurmeta þyrfti þá ákvörðun að halda staðpróf í skólanum.

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, sagði í samtali við mbl að staðprófunum yrði haldið til streitu. Skólinn færi í einu og öllu eftir fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og sóttvarnalæknis og að staðprófin væru útfærð samkvæmt reglugerð. Þá hefðu þau próf sem hefðu verið haldin hingað til í byggingum háskólans gengið vel.

„Ef nem­end­ur eru í áhættu­hóp­um þá kom­um við til móts við það með því að bjóða þeim upp á sérrými. Við höf­um líka reynt að dreifa próf­un­um víða um há­skóla­svæðið. Við reyn­um líka að tryggja að það sé ekki hópa­mynd­un fyr­ir próf, þannig að nem­end­ur geti farið strax í stof­ur um leið og þeir komi í próf­in. Við höf­um brugðist við þessu eins vel og við get­um. Við tök­um þetta mjög al­var­lega,“ sagði Jón Atli.

Milljarða útgjöld ríkissjóðs vegna faraldursins

Eins og flestir landsmenn ættu að þekkja hefur kórónuveirufaraldurinn haft gríðarlega mikil áhrif á efnahag landsins. Algjört hrun hefur orðið í stærstu atvinnugrein þjóðarinnar, ferðaþjónustu, og tug þúsundir eru án atvinnu.

Til að bregðast við þessum efnahagsþrengingum hafa stjórnvöld farið í ýmsar mótvægisaðgerðir sem hafa það í för með sér að útgjöld ríkissjóðs hafa aukist til muna.

Ríkið hefur þurft að taka lán og er áætlað að samanlagður halli ríkissjóðs á þessu ári og því næsta verði meira en 500 milljarðar króna.

Í fjáraukalögum ársins 2020 er til að mynda gert ráð fyrir ríflega 55 milljarða króna aukningu vegna svokallaðra Covid-19-útgjalda.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráhðerra, með grímu í sæti sínu á Alþingi og líklegast að spritta sig.Vísir/Vilhelm

Fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins voru kynntar þegar fyrsta bylgjan gekk yfir, eins og áður var rakið.

Í þriðju bylgju faraldursins hefur hlutabótaleiðin verið framlengd, fyrst til áramóta og svo til loka maí á næsta ári.

Þá hafa lokunarstyrkirnir einnig verið framlengdir og komið á laggirnar svokölluðum tekjufallsstyrkjum sem eiga að nýtast einyrkjum og smærri rekstraraðilum, til dæmis leiðsögumönnum og sviðslistafólki sem hefur orðið fyrir miklu tekjutapi í faraldrinum.

Í byrjun september samþykkti Alþingi svo ríkisábyrgð á lánalínum til flugfélagsins Icelandair. Starfsemi félagsins hefur verið í skötulíki meirihluta ársins vegna faraldursins og reri það lífróður sem farið var í um miðjan september.

Ríkisábyrgð á lánalínum var talin afar mikilvæg fyrir útboðið sem gekk á endanum vel. Umframeftirspurn var eftir hlutabréfum í félaginu og því tókst því að ná markmiði sínu sem var að safna 23 milljörðum króna í nýtt hlutafé.

Um miðjan nóvember kynnti ríkisstjórnin svo aðgerðapakka sem hún kallar „Viðspyrna fyrir Ísland“. Þar má finna almennar og sértækar félagslegar aðgerðir og viðspyrnuaðgerðir fyrir fyrirtæki.

Í þessum aðgerðum felst til dæmis að atvinnuleysisbætur verða hækkaðar á næsta ári og atvinnuleitendur fá desemberuppbót í ár. Þá verða skerðingarmörk barnabóta hækkuð og viðbótarstuðningur til tómstundaiðkunar barna af lágtekjuheimilum framlengdur.

Rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 60 prósent tekjufalli í almanaksmánuði á tímabilinu 1. nóvember 2020 til og með 31. maí 2021, samanborið við sama almanaksmánuð árið 2019, geta fengið styrk úr ríkissjóði til að mæta rekstrarkostnaði í mánuðinum.

Áskilið er að tekjufallið stafi af heimsfaraldri kórónuveiru eða aðgerðum stjórnvalda til að hefta útbreiðslu hennar.

Þá er meðal annars stefnt að því að fara í aðgerðir til að efla félagsstarf aldraðra og sporna gegn félagslegri einangrun þeirra.

Nánar má lesa um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar hér á sérstakri síðu á vef stjórnarráðsins.

Beðið í röð fyrir utan Elko á svörtum föstudegi. Jólaverslunin er hafin og það þarf að vera með grímu og passa tvo metrana. Verslunarmenn hafa hins vegar gagnrýnt tíu manna samkomubannið og hafa kallað eftir að fleiri viðskiptavinum verði leyft að koma í búðir.Vísir/Vilhelm

Vonir um tilslakanir urðu að engu

Þann 18. nóvember var slakað á þeim hörðu samkomutakmörkunum sem tóku gildi í lok október. Þjónusta sem krefst nálægðar og/eða snertingar var heimiluð á ný og íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri var einnig leyft.

Þá fóru fjöldatakmörk í öllum hópum á framhaldsskólastigi upp í 25 manns með tveggja metra reglu sem hingað til hafði aðeins verið í boði fyrir 1. árs nema.

Tíu manna samkomubann hélst hins vegar óbreytt og líkamsræktarstöðvar, sundlaugar, barir og skemmtistaðir máttu ekki opna.

Aðventan er gengin í garð og landsmenn töldu sig vera farna að sjá fyrir endann á þriðju bylgjunni með hörðum sóttvarnaaðgerðum.

Vonir voru bundnar við að það væri hægt að létta enn frekar enda hafði smitum farið fækkandi fyrstu vikurnar í nóvember. Síðustu vikuna í nóvember var faraldurinn hins vegar í uppsveiflu og þann 1. desember var tilkynnt um óbreyttar aðgerðir til og með 9. desember.

Víðir Reynisson sést hér í sóttkví á Hótel Natura eftir að kona hans greindist með Covid-19 og áður en hann greindist sjálfur með veiruna.Vísir/Vilhelm

„Bitur reynsla sem fjölmargir þekkja“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, var einn þeirra sem greindist með veiruna í lok nóvember en hann smitaðist af konunni sinni.

Víðir sagði sjálfur frá því í færslu á Facebook-síðu sinni hverja hann hefði hitt helgina áður en hann greindist. Konan hans greindist með Covid-19 mánudaginn 23. nóvember og tveimur dögum síðar greindist Víðir.

Í færslunni sagði Víðir frá gestagangi á heimili sínu helgina áður en hjónin greindust. Alls þurftu tólf manns að fara í sóttkví í tengslum við smit þeirra og fimm aðrir úr hópnum greindust með veiruna.

Þó nokkuð bar á gagnrýnisröddum í garð Víðis vegna gestagangsins heima hjá honum og sagði Þórólfur sóttvarnalæknir að það væri ekki endilega æskilegt að fá tólf gesti í heimsókn á 48 klukkustunda tímabili.

Hins vegar væri það svo að fólk þurfi að geta umgengist til dæmis fjölskylduna sína; sinnt börnum og foreldrum. Það þyrfti einfaldlega að gæta vel að öllum einstaklingsbundnum sóttvörnum.

Víðir sneri aftur til vinnu hjá almannavörnum nú í seinni hluta desember og ræddi þá reynslu sína af því að greinast við fréttastofu.

„Þetta eru átta einstaklingar utan minnar fjölskyldu sem komu í heimsókn til okkar á einni helgi,“ sagði Víðir.

„Auðvitað getur maður alltaf horft til baka og sagt að það hefði átt að gera eitthvað öðruvísi og allt slíkt. Þarna smitast náttúrulega einstaklingar. Eitthvað gekk ekki eins og við vildum. Við töldum okkur vera að gæta allra sóttvarna og annað.“

Þetta væri bara staðan.

„Bitur reynsla sem að fjölmargir þekkja,“ bætti hann við.

Smáralind verslun í Covid fyrir jólinFoto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Tíu manna jólakúlur

Þann 10. desember tók ný reglugerð heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir gildi. Reglugerðin gildir til 12. janúar og er gildistíminn óvenjulangur, meðal annars vegna jóla og áramóta.

Ekki var slakað á samkomubanni með reglugerðinni; enn mega bara tíu manns koma saman en sundlaugum var leyft að opna og verslanir geta tekið við fimm manns á hverja tíu fermetra, mest hundrað manns.

Þá mega veitingastaðir taka á móti allt að fimmtán gestum og opnunartími þeirra var lengdur um klukkutíma.

Auk þessa voru samkomutakmarkanir rýmkaðar bæði í sviðslistum og íþróttum en líkamsræktarstöðvum, börum og skemmtistöðum er enn gert að hafa lokað.

Vegna samkomutakmarakana voru aðventan og jólin nokkuð ólík því sem við höfum átt að venjast. Ekkert var um jólahlaðborð eða jólatónleika og stórfjölskyldan gat ekki komið saman ef hún telur fleiri en tíu.

Sóttvarnayfirvöld og almannavarnir gáfu út leiðbeiningar um hátíðarhöld um jól og áramót og var almenningur meðal annars hvattur til þess að velja sér jólavini til að vera með í jólakúlu sem ekki mátti telja fleiri en tíu manns.

Þá eru heimsóknir á hjúkrunarheimili og Landspítalann mjög takmarkaðar yfir hátíðarnar og ekki til dæmis mælt með því að íbúar hjúkrunarheimila færu til ástvina í jólamatinn.

Fjármálaráðherra á viðburði sem lögregla leysti upp

Það þarf því ekki að koma á óvart að það hafi hleypt illu blóði í marga þegar greint var frá því í fjölmiðlum að morgni aðfangadags að lögreglan hefði leyst upp samkvæmi í Ásmundarsal á Þorláksmessukvöld þar sem sóttvarnareglum hafði ekki verið fylgt.

Fram kom í dagbók lögreglu, sem send er til fjölmiðla árla morguns alla daga ársins, að í samkvæminu hefðu verið á bilinu fjörutíu til fimmtíu manns, þar á meðal „háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands“.

Vísir greindi svo frá því síðar á aðfangadagsmorgun að ráðherrann sem um ræddi hefði verið Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Ekkert náðist í ráðherrann á aðfangadag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir en um klukkutíma eftir að frétt Vísis birtist setti Bjarni færslu á Facebook-síðu sína:

Á heimleið úr miðborginni í gærkvöldi fengum við Þóra símtal frá vinahjónum, sem voru stödd á listasafninu í...

Posted by Bjarni Benediktsson on Thursday, December 24, 2020

Þá náðist ekki heldur í eigendur Ásmundarsalar á aðfangadag en þau sendu einnig frá sér tilkynningu á Facebook. Þar vildu þau taka fram að salurinn væri listasafn og verslun með leyfi til að hafa opið til klukkan 23 á Þorláksmessu.

Þá væri salurinn með veitingaleyfi og bent á að ekki hefði verið um einkasamkvæmi að ræða heldur sölusýninguna „Gleðileg jól“ sem var öllum opin.

Á jóladag veittu svo bæði Bjarni og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, viðtal vegna málsins. Bjarni sagðist ekki líta svo á að málið kallaði á afsögn af hans hálfu og þá kvaðst Katrín ekki gera kröfu um afsögn Bjarna.

„Mér finnst þetta aumt og finnst þetta í rauninni vera löðrungur framan í almenning sem er að færa daglega, í hverri viku og mánuði miklar fórnir,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, um viðbrögð forsætisráðherra og fjármálaráðherra.

Vildi stjórnarandstaðan að þing yrði kallað saman milli jóla og nýárs vegna málsins en við því var ekki orðið.

Síðastliðinn mánudag mætti Bjarni svo í Kastljós. Þar sagðist hann ekki hafa brotið sóttvarnalög með því að mæta á sýninguna í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Þá liti hann ekki á sýninguna sem „samkvæmi“ og stóð við fyrri yfirlýsingar sínar um að hafa aðeins verið staddur í salnum í fimmtán mínútur.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem kom fram að hafin væri formleg rannsókn á viðburðinum í Ásmundarsal. Lögreglan hefði meðal annars til skoðunar upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna sem mættu á staðinn.

Bóluefni vekur von um bjartari tíma

Alls hafa um 7.500 greinst með kórónuveiruna hér á landi að því er fram kom í máli Ölmu Möller landlæknis á upplýsingafundi í vikunni. Flestir hafa greinst með svokölluðu PCR-prófi en hluti hefur greinst með mótefnamælingu. Þá hafa 29 manns látist vegna Covid-19.

Í kvöld kveðjum við árið 2020 sem hefur reynst svo mörgum svo erfitt vegna kórónuveirufaraldursins.

Fólk hefur misst ástvini vegna Covid-19 og aðrir hafa veikst alvarlega og glímt við langvarandi eftirköst. Einhverjir hafa jafnvel ekki veikst svo illa en samt átt við alvarleg eftirköst að stríða.

Fjölmargir hafa misst vinnuna og aðrir barist fyrir lífsviðurværi sínu í verstu efnahagskreppu sem heimurinn hefur séð í heila öld.

En nú undir lok árs berast betri fréttir sem vekja vonir um bjartari tíma á næsta ári. Bólusetning gegn Covid-19 hófst hér á landi í vikunni. Bólusetningar höfðu þá þegar hafist í Bretlandi, Bandaríkjunum og fjölda Evrópulanda.

Frá bólusetningu starfsfólks Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins síðastliðinn þriðjudag.Vísir/Vilhelm

Bóluefni Pfizer og BioNTech kom til landsins á mánudaginn en enn sem komið er hafa ekki fleiri bóluefni við Covid-19 fengið markaðsleyfi hér á landi eða í Evrópu. Alls munu skammtar frá Pfizer duga fyrir 125 þúsund Íslendinga. 

Stjórnvöld hafa undirritað samninga við fleiri lyfjaframleiðendur, það er AstraZeneca, Moderna og Janssen. Bóluefni AstraZeneca hefur fengið markaðsleyfi í Bretlandi og bóluefni Moderna fékk neyðarleyfi í Bandaríkjunum skömmu fyrir jól.

Markaðsleyfi Evrópsku lyfjastofnunarinnar er hins vegar forsenda markaðsleyfis hér á landi og það hefur ekki enn verið veitt fyrir efni Moderna og AstraZeneca.

„Bara eins og að láta sprauta sig við flensu“

Gefa þarf tvo skammta af bóluefni Pfizer og var skammturinn gefinn á þriðjudag og í gær. Seinni skammturinn er svo gefinn eftir þrjár vikur en í þessari fyrstu bóluefnasendingu eru 10 þúsund skammtar sem duga þá fyrir fimm þúsund manns.

Þeir fyrstu sem fengu bólusetningu hér á landi voru fjórir framlínustarfsmenn Landspítala, þau Kristina Elizondo, sjúkraliði á gjörgæsludeild, Kristín Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur á gjörgæslu­deild, Elías Eyþórsson, sérnámslæknir í lyflækningum, og Thelma Guðrún Jónsdóttir, aðstoðarmaður á bráðamóttöku.

Bólusetningin hófst klukkan níu og var sýnt frá henni í beinni útsendingu. Klukkutíma síðar var síðan komið að því að bólusetja Þorleif Hauksson, íbúa á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð, en hann varð fyrsti Íslendingurinn utan heilbrigðisstéttar til þess að fá bólusetningu gegn Covid-19. Einnig var sýnt beint frá þeim sögulega viðburði og rætt við Þorleif.

Hann sagði aðspurður að þetta hefði ekki verið neitt vont.

„Þetta var bara eins og að láta sprauta sig við flensu.“

Síðan voru aðrir íbúar hjúkrunarheimila bólusettir um land allt sem og um 700 framlínustarfsmenn Landspítalans og nokkur hundruð starfsmenn heilsugæslunnar. Allt er þetta fólk sem er í fyrstu þremur forgangshópunum í bólusetningu gegn Covid-19 samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra.

Mögulegt að hefja staðnám í framhaldsskólum

Búist er við því að næsta sending af bóluefni Pfizer komi til landsins eftir um þrjár vikur og þá er beðið eftir því að fleiri bóluefni fái markaðsleyfi í Evrópu. Fyrr en það er komið er ekki hægt að segja til um hvenær verður mögulegt að hefja bólusetningu hér á landi með til dæmis bóluefni Moderna eða AstraZeneca.

Við þurfum því enn um sinn að bíða eftir því að lífið verði eðlilegt á ný, að það verði eitthvað í líkingu við það sem var fyrir faraldurinn. Þegar samkomubann var framandi fyrirbæri og fólk þurfti ekki að fara með grímu út í búð, þegar við komumst í ræktina og gátum farið á barinn og já, ferðast til útlanda án mikilla hindrana.

Spurningin er hvort að eitthvað verði slakað á samkomutakmörkunum við upphaf nýs árs; hvort til dæmis fleiri en tíu mega koma saman og hvort ræktin opni á ný.

Það liggur að minnsta kosti fyrir að mögulegt verður að bjóða upp á staðnám í öllum framhaldsskólum við upphaf vorannar auk þess sem heimilt verður að hafa allt að fimmtíu manns í sama rými á háskólastigi. Þær breytingar eru án efa gleðiefni fyrir marga.

Enn þarf þó að passa upp á einstaklingsbundnu sóttvarnirnar, eins og sóttvarnalæknir minnti á í vikunni.

„Þetta er ekki búið en það fer vonandi að styttast í endann á Covid-19,“ sagði Þórólfur Guðnason á síðasta upplýsingafundi ársins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.