Innlent

Sam­komu­bann hefur nú tekið gildi

Eiður Þór Árnason skrifar
Þetta verður ekki leyft næstu fjórar vikur.
Þetta verður ekki leyft næstu fjórar vikur. Vísir/vilhelm

Samkomubann tók gildi um allt land nú á miðnætti og verður við lýði næstu fjórar vikur. Aðgerðin var kynnt af Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi á föstudag.

Samkomubannið sem er fordæmalaust í lýðveldissögunni mun gilda til mánudagsins 13. apríl kl. 00:01. Því er ætlað að hamla frekari útbreiðslu kórónuveirunnar í íslensku samfélagi.

Bannið tekur til skipulagðra viðburða þar sem fleiri en 100 manns koma saman. Þetta á til dæmis við um tónleika, ráðstefnur, skemmtanir, íþróttaviðburði og kirkjuathafnir.

Auk þess þurfa allir aðrir staðir, til dæmis verslanir, líkamsræktarstöðvar, vinnustaðir og veitingastaðir, að tryggja að ekki séu fleiri en 100 manns inni í sama rými á hverjum tíma.

Við öll minni mannamót þarf síðan að tryggja að nánd milli manna sé að minnsta kosti yfir tveir metrar og að aðgengi að handþvotti og handspritti sé gott.

Hefur einnig áhrif á skólahald

Frekari upplýsingar um fyrirkomulagið frá Embætti landlæknis og Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra má nálgast hér fyrir neðan.

Skipulagðir viðburðir sem bannið nær til eru til dæmis:

Ráðstefnur, málþing, fundir og hliðstæðir viðburðir.

Skemmtanir, s.s. tónleikar, leiksýningar, bíósýningar, íþróttaviðburðir og einkasamkvæmi.

Kirkjuathafnir hvers konar, s.s. vegna útfara, giftinga, ferminga og annarra trúarsamkoma.

Að auki þurfa allir aðrir staðir að tryggja að ekki séu á sama tíma fleiri en 100 manns inni í sama rými. Þetta á t.d. við um vinnustaði, veitingastaði, mötuneyti, kaffihús, skemmtistaði, verslanir, sundlaugar, líkamsræktarstöðvar, og söfn. Þessi mörk eiga einnig við um almenningssamgöngur og aðra sambærilegra starfsemi.

Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi þar sem færri en 100 eru samankomnir, skal eins og mögulegt er skipuleggja rými þannig að hægt sé að hafa að minnsta kosti tvo metra á milli einstaklinga.

Hvernig verður skólahaldi háttað?

Töluverðar takmarkanir eru á skólahaldi á meðan á samkomubanninu stendur. Í mörgum tilfellum geta nemendur ekki mætt í skólabyggingar heldur stunda nám í fjarkennslu. Í öðrum tilfellum eru strangar kröfur settar um fjölda og nálægð nemenda.

Takmarkanirnar gilda um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla en einnig aðrar menntastofnanir, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og íþróttastarf.

Framhaldsskólum og háskólum verður lokað og kennsla fer fram í fjarkennslu eins og hægt er.

Grunnskólar mega hafa kennslu í skólabyggingum ef þeir tryggja að ekki séu fleiri en 20 nemendur í sömu kennslustofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, til dæmis í mötuneyti eða frímínútum. Eins þarf að þrífa eða sótthreinsa skólabyggingarnar eftir hvern dag.

Leikskólar mega hafa opið og halda uppi leikskólastarfi ef þeir tryggja að börn séu í fámennum hópum og aðskilin eins og kostur er. Eins þarf að þrífa eða sótthreinsa leikskólabyggingarnar eftir hvern dag.

Þessar takmarkanir verða í stöðugu endurmati þannig að hægt sé að draga úr þeim eða þá lengja tímabilið sem þær gilda ef þörf þykir.

Hvað fellur ekki undir samkomubann?

Samkomubannið nær ekki til alþjóðaflugvalla eða alþjóðahafna, flugvéla eða skipa. Hvatt er til þess að sóttvarnaráðstafanir verði efldar og rekstaraðilar grípi til ýtrustu ráðstafana til að minnka möguleika á smiti.

Frekari upplýsingar um fyrirkomulag samkomubannsins má nálgast á upplýsingasíðu landlæknis og Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra um kórónuveiruna.


Tengdar fréttir

Sund­laugar og í­þrótta­hús lokuð á morgun

Öllum sundstöðum og íþróttamiðstöðum á vegum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu verður lokað á morgun. Þetta er gert til þess að gera starfsmönnum kleift að endurskipuleggja starfsemi með tilliti til nýrra krafna um sóttvarnir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.