Innlent

99 greindust með veiruna innanlands

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Allar tölur fyrir gærdaginn birtast á Covid.is klukkan 11.
Allar tölur fyrir gærdaginn birtast á Covid.is klukkan 11. Vísir/Vilhelm

99 manns greindust innanlands með kórónuveiruna í gær. Þar af voru 59 í sóttkví. Þá greindist einn með veiruna á landamærunum.

Þetta segir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarna, í samtali við Vísi.

Ekki hafa fleiri greinst með kórónuveiruna hér á landi í þeirri bylgju faraldursins sem nú gengur yfir. Mesti fjöldinn hingað til var 75 manns þann 18. september.

Þá er þetta mesti fjöldi sem greinst hefur með veiruna á einum degi síðan faraldurinn stóð sem hæst í mars og apríl. Þann 1. apríl greindust líka 99 með veiruna en mesti fjöldi sem greinst hefur á einum degi var þann 24. mars þegar 106 greindust smitaðir.

Að sögn Jóhanns er nú mikið álag á smitrakningarteyminu og er verið að fjölga í því.

Lögregluembættin hringinn í kringum landið hafa brugðist vel við því að lána mannskap en lögreglumenn geta sinnt smitrakningu frá sinni starfsstöð.

Upplýsingafundur almannavarna og landlæknis var í gær og ætti næsti fundur að vera á fimmtudag.

Jóhann segir að ekki sé búið að ákveða hvort boðað verði til upplýsingafundar í dag vegna fjölda smitaðra í gær en það sé í skoðun.

Fimmtán manns eru nú inniliggjandi á smitsjúkdómadeild Landspítalans og eru fjórir þeirra á gjörgæsludeild að því er haft er eftir Má Kristjánssyni, yfirlækni smitsjúkdómadeildar á Landspítalanum, á vef RÚV. Í samtali við Vísi staðfestir Már þetta. Þrír þeirra sem eru á gjörgæslu eru í öndunarvél.

Hertar samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti í gær. Nú mega ekki fleiri en tuttugu manns koma saman og þá eru líkamsræktarstöðvar, barir, skemmtistaðir og spilasalir lokaðir.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×