Innlent

Bólusett hvert á fætur öðru í matsalnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Einn, tveir og sprauta.
Einn, tveir og sprauta. Vísir/Vilhelm

Bólusetning starfsmanna Landspítalans hófst í matsal Landspítala í Skaftahlíð 24 klukkan 10 í morgun. Síðar í dag hefst bólusetning á Landakoti og Vífilsstöðum. Reiknað er með því að um 770 starfsmenn verði bólusettir á spítalanum í dag og á morgun.

Samkvæmt forgangsröðun sóttvarnalæknis og reglugerð um forgangsröðun um bólusetningu við COVID-19, er starfsfólki bráðamóttöku í Fossvogi, bráðamóttöku barna, gjörgæsludeilda og COVID-19 göngudeildar boðin bólusetning. Einnig verður starfsfólki sem tók aukavaktir á þessum deildum í þriðju bylgju COVID-19 boðið bólusetning.

Frá bólusetningunni í morgun.Vísir/Vilhelm

Alls verður um 770 starfsmönnum spítalans boðin bólusetning í fyrstu umferð sem er magnið sem Landspítali fær úthlutað að þessu sinni. Gert er ráð fyrir að ljúka bólusetningu þessa hóps á morgun.

Hver starfsmaður spítalans á fætur öðrum mætir í bólusetningu.Vísir/Vilhelm

Starfsmaður fær boð um bólusetningu úr bólusetningarkerfi sóttvarnarlæknis með SMS-skilaboðum í farsíma. Starfsmaður mætir svo á þeim tíma sem er tilgreindur í boðinu í Skaftahlíð 24. 

Gengið er inn um aðalinngang suðurhúss upp við Miklubraut (gamla Tónabæ). Þar er farið niður í kjallara og eftir stuttum gangi inn í matsal þar sem bólusetning fer fram. Algjör grímuskylda er í öllum byggingum Landspítala.

Starfsfólk sem framkvæmir bólusetninguna er með sprittbrúsann við höndina.Vísir/Vilhelm

Að lokinni bólusetningu þarf starfsmaður að bíða í 15 mínútur til að fylgjast með hvort að ofnæmisviðbrögð vegna bólusetningarinnar geri vart við sig. Gera þarf ráð fyrir að bólusetningarferlið taki 20-30 mínútur. Eftir biðtímann fer starfsmaður út um hurð á matsal í Skaftahlíð.

Starfsfólk sýnir við komu boðin sem það fékk í SMS-skilaboðum.Vísir/Vilhelm

Landspítalinn býður upp á tíðar skutluferðir frá Fossvogi og Hringbraut til Skaftahlíðar þessa daga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×