Fótbolti

Neymar leiðréttir misskilning: Bara 150 manna áramótaveisla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar fagnar marki á móti Manchester United á Old Trafford.
Neymar fagnar marki á móti Manchester United á Old Trafford. EPA-EFE/PETER POWELL

Neymar vill taka á móti nýju ári í hópi góðra vina og hann á nóg af þeim eins og dæmin hafa sýnt.

Neymar, framherji Paris Saint-Germain, er duglegur að koma sér í vandræði utan vallar enda maður sem hefur gaman af því að halda stór partý og njóta lífsins utan fótboltans.

Það var allt annað en vinsælt í miðjum heimsfaraldri þegar það fréttist af fimm hundruð manna áramótaveislu kappans í heimalandi sínu.

Neymar ætlaði að safna saman 500 manns í risaáramótaveislu en þar ætluðu að hittast bæði vinir hans og annað frægt fólk í Brasilíu.

Neymar hefur nú leiðrétt misskilning hjá blaðinu í Rio de Janeiro og segir að þetta verði bara 150 manna veisla og þar verði einnig strangar smitvarnir í gildi.

Neymar mun halda veisluna í Mangaratiba, sem er 105 kílómetrum fyrir utan Ríó. Hún á að taka marga daga. Það er augljóst að það gæti orðið erfitt að fylgja öllum smitvörnum í svo langan tíma og þegar svo margt fólk er að skemmta sér saman.

„Þessi viðburður mun fylgja öllum sóttvarnarreglum sem eru í gildu hjá yfirvöldum,“ sagði í yfirlýsingu.

Það hafa yfir 7,5 milljónir fengið kórónuveiruna í Brasilíu og alls hafa yfir 191 þúsund manns dáið í landinu eftir að hafa fengið COVID-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×