Fótbolti

Gætu drepið grasið á Laugardalsvelli ef pulsan væri tekin af núna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grasið á Laugardalsvellinum er farið að grænka undir hitatjaldinu.
Grasið á Laugardalsvellinum er farið að grænka undir hitatjaldinu. Mynd/Instagram/laugardalsvollur

Það er nánast orðið öruggt að leikur Íslands og Rúmeníu í umspili um sæti á EM fer ekki fram 26. mars næstkomandi en enginn veit þó hvenær hann verður spilaður.

Knattspyrnusamband Evrópu mun ákveða framhaldið á morgun og þá þurfa Knattspyrnusamband Íslands og starfsmenn Laugardalsvallar væntanlega að skipuleggja sig upp á nýtt.

Hitapulsan er búin að vera á Laugardalsvellinum í að verða tvær vikur og átti að vera á vellinum fram að leik. Stóra spurningin er hvað verður um hitatjaldið nú þegar það stefnir í að það verði enginn leikur á Laugardalsvellinum í mars.

Pulsan hefur skapað vor og sumaraðstæður fyrir grasið og það hefur tekið vel við sér þessa daga síðan hitatjaldið var sett upp.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, staðfesti það við Fótbolta.net í dag að hitapulsan og starfsmenn sem henni fylgja, verði á Íslandi til 26. mars þegar áætlaður leikdagur er.

„Við erum búin að borga fyrir þessa leigu. Fræðingar okkar munu fara yfir það hvernig er best að gera þetta og vernda völlinn. Ef við myndum stoppa allar aðgerðir strax þá myndum við væntanlega drepa grasið. Með aðgerðarplani og með því að nýta pulsuna út leigutímann þá mun okkur takast að koma í veg fyrir það að hún skemmist eða bíði skaða af," sagði Klara við fótbolta.net.

Í dag eru tíu dagar í leikdaginn og því verður hitapulsan í eina og hálfa viku til viðbótar á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×