Innlent

Flugvélin með bóluefnið lent í Keflavík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vélin affermd á Keflavíkurflugvelli í morgun.
Vélin affermd á Keflavíkurflugvelli í morgun. Almannavarnir

Flugvél með fyrstu skammtana af Pfizer bóluefninu lendir á Keflavíkurflugvelli í morgunsárið. Skammtarnir eru ætlaðir starfsmönnum Covid-göngudeildar Landspítalans, framlínustarfsfólki á spítölunum og íbúum á hjúkrunarheimilum. Vísir fylgist með lendingu flugvélarinnar í beinni útsendingu.

Áætlaður lendingartími vélarinnar samkvæmt Flightradar24 er klukkan 9:16. 

Bólusetning hófst víðast hvar í aðildarríkjum Evrópusambandsins í gær en von er á tíu þúsund skömmtum af bóluefni Pfizer-BioNTech með þessari fyrstu sendingu til Íslands.

Fyrstu skammtarnir ættu að duga til að bólusetja fimm þúsund manns en búist er við að Ísland muni fá þrjú til fjögur þúsund skammta í hverri viku til loka mars á næsta ári.

Skjáskot af flugvélinni sem ferjar bóluefnið langþráða þegar hún lenti á Keflavíkurflugvelli.vísir

Stefnt er að því að tekið verði á móti fyrstu skömmtum bóluefnisins fyrir hádegi við vöruskemmu fyrirtækisins Distica í Garðabæ sem mun sjá um hýsingu og dreifingu bóluefnisins. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og þríeykið svokallaða verða meðal þeirra sem viðstödd verða afhendinguna.

Hægt er að fylgjast með flugi vélarinnar á vef Flightradar24 en um er að ræða leiguflugvél á vegum UPS sem er meðal þeirra sem sjá  um að dreifa bóluefni fyrir Pfizer í Evrópu. Í framhaldinu verður bein útsending í spilara hér að ofan þegar styttist í að vélinni verður lent.

Uppfært: Flugvélin er lent í Keflavík og má sjá lendinguna í myndbandinu hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×