Lífið

Drottningin bregður út af vananum í ár

Sylvía Hall skrifar
Drottningin eyðir jóladegi með Filippusi eiginmanni sínum.
Drottningin eyðir jóladegi með Filippusi eiginmanni sínum. Getty/Sean Gallup

Jóladagur verður með öðruvísi móti í ár hjá Elísabetu Bretlandsdrottningu sem mun eyða honum í Windsor-kastala ásamt eiginmanni sínum Filippusi. Yfirleitt hafa hjónin haldið upp á jóladag í Sandringham sveitasetrinu með fjölskyldunni.

Drottningin mun flytja jólaávarp sitt seinna í dag og mun hún fara yfir erfiða tíma vegna kórónuveirufaraldursins samkvæmt breska ríkisútvarpinu. Hún mun einnig sækja árlega guðsþjónustu líkt og önnur ár, en nú í einkakapellu í kastalanum.

Konungshjónin hafa ekki verið ein á jóladag frá því á níunda áratug síðustu aldar, en þau hafa undanfarna mánuði búið í Windsor-kastala með takmörkuðu þjónustuliði vegna kórónuveirufaraldursins. Engar undanþágur eru gerðar vegna kóngafólksins, sem þarf einnig að búa við takmarkanir vegna faraldursins.

Aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar munu einnig halda jólin með sinni allra nánustu fjölskyldu.

Konungsfjölskyldan hefur nýtt samfélagsmiðla til þess að senda frá sér jólakveðjur í ár. Til að mynda þökkuðu hertogahjónin af Camebridge heilbrigðisstarfsfólki fyrir framlag sitt í baráttunni við veiruna og sendu samúðarkveðjur til þeirra sem hafa misst ástvini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×