Fótbolti

Fyrrum leik­maður FH orðinn að­stoðar­þjálfari Ragga Sig

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jess Thorup, aðalþjálfari FCK til vinstri, og Neestrup til hægri.
Jess Thorup, aðalþjálfari FCK til vinstri, og Neestrup til hægri.

Jacob Neestrup er orðinn aðstoðarþjálfari FCK í danska boltanum. Neestrup á leiki að baki á Íslandi þar sem hann lék með FH í Pepsi deildinni árið 2010.

Daninn var talinn afar efnilegur miðjumaður á sínum tíma en hann er fæddur árið 1988. Meiðsli fóru hins vegar illa með hans feril og það var einnig sagan hér á Íslandi.

Neestrup náði einungis sex leikjum í Pepsi deildinni árið 2010 áður en hann hélt aftur heim á leið til Danmerkur. Fljótlega fóru svo skórnir upp í hillu og hann fór þjálfaraveginn.

Hann var þjálfari U17 ára liðs FCK 2017 til 2018, aðstoðarþjálfari aðalliðsins frá 2018 til 2019 áður en hann hélt til Viborg og tók við liðinu í dönsku B-deildinni.

Hann þjálfaði því íslenska landsliðsmarkvörðinn Patrik Sigurð Gunnarsson á núverandi tímabili en Patrik var á láni hjá toppliði Viborg fyrri hluta tímabilsins.

Nú er Neestrup hins vegar kominn aftur til FCK en þeir kepptu hann undan samningi sínum við B-deildarliðið.

Þar verður hann aðstoðarmaður Jess Thorup sem tók við Kaupmannahafnarliðinu í október af Ståle Solbakken.

Ragnar Sigurðsson er á mála hjá FCK en samningur Ragnars rennur út næsta sumar. Hann hefur ekki verið í leikmannahópi FCK að undanförnu en vetrafrí er nú þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×