Fótbolti

Tjáði sig í fyrsta sinn eftir að hafa verið sakaður um að stinga fjöl­skyldu­með­lim

Anton Ingi Leifsson skrifar
Quincy Promes og Jamal Amofa vinalegir í leik Ajax og Den Haag um helgina.
Quincy Promes og Jamal Amofa vinalegir í leik Ajax og Den Haag um helgina. Angelo Blankespoor/Getty

Quincy Promes, hollenskur landsliðsmaður og leikmaður Ajax, var handtekinn fyrr í þessum mánuði vegna stunguárásar. Hann tjáði sig um helgina í fyrsta skipti um ásakanirnar.

Málið snýr að fjölskylduboði sem haldið var í Abcoude, úthverfi Amsterdam í sumar. Þar mun Promes hafa lent í áflogum við skyldmenni sitt sem endaði með því að fjölskyldumeðlimurinn var stunginn með hníf og hlaut alvarleg meiðsli.

Atvikið átti sér stað í júní en Promes var fyrst handtekinn í síðustu viku en hann var leystur úr haldi lögreglu tveimur dögum síðar. Hann er þó enn sakaður um árásina.

„Það var gaman að spila fótbolta aftur,“ sagði Promes eftir að hann spilaði síðari hálfleikinn gegn ADO Den Haag á sunnudaginn.

„Það var gaman að einbeita mér aftur að fótboltanum og skilja annað á bak við mig. Þetta var áfall fyrir alla en ég var ánægður með að vera leystur úr haldi svo fljótt. Ég get ekki sagt meira en það.“

„Ég er bara í eins miklu áfalli og allur heimurinn. Þetta er þó eitthvað í mínu einkalífi og ég get ekki sagt meira um þetta mál.“

„Ég er núna laus og ég held að það segi sitt. Það er gott að sjá að félagið styður mig: ekki bara stjórinn Erik ten Hag, heldur einnig liðsfélagarnir,“ sagði Quincy.

Quincy á að baki 47 landsleiki og hefur hann skorað sjö mörk í þeim leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×