Lífið

Eminem biður Rihönnu afsökunar

Sylvía Hall skrifar
Eminem og Rihanna hafa starfað saman áður.
Eminem og Rihanna hafa starfað saman áður. Getty/Jeff Kravitz

Rapparinn Eminem hefur beðið söngkonuna Rihönnu afsökunar á því að hafa tekið afstöðu með fyrrverandi kærasta hennar, Chris Brown, í kjölfar heimilisofbeldis sem hann beitti hana. Afsökunarbeiðnin kemur í laginu Zeus þar sem hann segist ekki hafa ætlað að særa hana.

Málið komst í hámæli á síðasta ári þegar lag tíu ára gamalt lag rapparans fór í dreifingu. Þar lýsti hann yfir stuðningi við Chris Brown.

Brown játaði ofbeldið sem átti sér stað snemma árs 2009. Þá réðst hann á hana eftir að hún spurði hann út í skilaboð frá öðrum konum í síma hans. Myndir eftir árásina láku í fjölmiðla sem sýndu Rihönnu með alvarlega andlitsáverka og þurfti hún að leita á sjúkrahús í kjölfar árásarinnar.

„Einlæg afsökunarbeiðni til Rihönnu vegna lagsins sem lak. Fyrirgefðu Rih, ég ætlaði ekki að særa þig,“ segir Eminem í sínu nýja lagi og vitnar til textans í laginu sem fór óvænt í dreifingu í fyrra. 

Talsmaður rapparans tjáði sig um lagið á þeim tíma og sagði það vera tíu ára gamalt. Í þokkabót hefði það aldrei verið gefið út.

Eminem og Rihanna hafa starfað saman áður og áttu eitt vinsælasta lag ársins 2010, Love The Way You Lie.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×