Innlent

Pfizer-skorturinn teygir á áætlunum um hjarðónæmi

Birgir Olgeirsson skrifar

Breytingar á afhendingu bóluefnis Pfizer gætu orðið til þess að bjartsýnustu spár stjórnvalda um hjarðónæmi munu ekki rætast. Heilbrigðisráðherra segir ljóst að afhending á skömmtum á næsta ári sé breytingum háð.

Ísland fær bóluefni frá Pfizer fyrir 5.000 manns en ekki 10.000 manns um áramótin eins og til stóð vegna hráefnisskorts. Áætlanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir að ná hjarðónæmi við kórónuveirunni hér á landi fyrir lok fyrsta ársfjórðungs nýs árs. Heilbrigðisráðherra segir það vera bjartsýnustu spár stjórnvalda.

„Og við erum í raun og veru ekki komin með afhendingaráætlun frá öllum þessum söluaðilum sem við erum að versla við,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Stjórnvöld hafa þegar samið við Pfizer og AstraZeneca og eru samningar við Moderna langt komnir.

„Þessi breyting nákvæmlega gerir það að verkum að í aðra áttina erum við að teygja tímalínuna inn í árið, en í hina áttina lítur út fyrir að við getum byrjað bólusetningar strax á milli jóla og nýárs fyrir fyrstu hópana. Þannig að þetta er svona bæði og en stóra tímalínan er auðvitað sú að við erum að ná að hefja þennan kafla bólusetninga gegn Covid-19,“ segir Svandís.

Pfizer ætlaði að afhenda 100 milljónir skammta árið 2020 en nú er ljóst að fyrirtækið nær að afhenda 50 milljónir skammta. Fyrirtækið hefur þó heitið því að afhenda 1,3 milljarða skammta á næsta ári.

Svandís segir að stjórnvöld hafi ekki nákvæmar dagsetningar yfir afhendingu á öllum þessum skömmtum sem þau hafa samið um.

„Það er ennþá breytingum undirorpið eins og til dæmis að því er varðar Pfizer og hráefnin. Við erum að sjá að þetta getur teygst eitthvað til. En aðal atriðið er að þessi kafli er að hefjast og 2021 verður stóra bólusetninga árið.“


Tengdar fréttir

Pfizer bóluefnið gæti fengið leyfi á Íslandi á Þorláksmessu

Pfizer-bóluefnið gæti verið komið með markaðsleyfi á Íslandi á þorláksmessu eftir að Lyfjastofnun Evrópu ákvað að flýta fundi sínum. Hráefnaskortur veldur því að Íslendingar fá færri skammta af bóluefninu um áramótin en til stóð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.